[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Elma Guðmundsdóttir fæddist í Neskaupstað 16.1. 1943, ólst þar upp og átti þar heima alla tíð fram til 2012 er hún flutti til Reykjavíkur. Elma gekk í barnaskóla Neskaupstaðar og var einn vetur í Gagnfræðaskólanum á Eiðum.

Elma Guðmundsdóttir fæddist í Neskaupstað 16.1. 1943, ólst þar upp og átti þar heima alla tíð fram til 2012 er hún flutti til Reykjavíkur.

Elma gekk í barnaskóla Neskaupstaðar og var einn vetur í Gagnfræðaskólanum á Eiðum.

Elma hefur verið mikil félagsmálamanneskja og kom víða við á því sviði. Hún æfði sjálf og keppti í ýmsum íþróttagreinum eins og í handbolta, golfi og blaki og starfaði lengi í forystusveit Íþróttafélagsins Þróttar í Neskaupstað. Hún var formaður Þróttar á árunum 1970-71 og 1981-82, og sat auk þess í stjórn Golfklúbbs Norðfjarðar um skeið. Einnig gegndi hún margvíslegum störfum fyrir Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands og var hún formaður sambandsins á árunum 1972-73.

Reyndar var Elma fyrsta konan á landinu sem gegndi formennsku í héraðssambandi ungmennafélaga.

Hún hefur hlotið gullmerki ÍSÍ, UMFÍ, BLÍ, Þróttar og silfurmerki KSÍ.

Elma er mikil bókakona, var sífellt lesandi á árum áður og sérstaklega mikill ljóðaunnandi en á skáldabekk hefur Steinn Steinar alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá henni.

Elma tók virkan þátt í stjórnmálum, einkum sveitarstjórnarmálum og sat meðal annars í bæjarstjórn Neskaupstaðar á árunum 1982-90. Hún átti jafnframt sæti í fjölmörgum nefndum á vegum bæjarfélagsins og öðrum nefndum sem viðkomu sveitastjórnarmálum.

Elma sat í ritstjórn vikublaðsins Austurlands um áratuga skeið og var ritstjóri blaðsins á árunum 1991-95, 1999 og 2000-2001.

Elma gaf út bókina „Galar hann enn!“ 2010 sem hefur að geyma gamansögur af Norðfirðingum og nærsveitungum.

Elma hefur verið búsett á Droplaugarstöðum síðastliðin tvö ár.

Fjölskylda

Eiginmaður Elmu var Jón Einar Jóhannsson, f. 1.11. 1942, stýrimaður og húsvörður. Elma og Jón Einar skildu.

Börn Elmu og Jóns Einars eru Petrún Björg Jónsdóttir, f. 9.5. 1962, framhaldsskólakennari, búsett í Reykjavík en kona hennar er Sólrún Færseth skrifstofukona og barnabörnin eru Hulda Elma, f. 1982, Atli Rúnar, f. 1985, og Jón Gunnar, f. 1986 og átta langömmubörn; Jóhann Freyr Jónsson, f. 14.8. 1975, hönnuður hjá Marel, búsettur í Hafnarfirði en kona hans er Camilla Guðjónsdóttir hjúkrunarfræðingur og eru barnabörnin María Mist, f. 1999, Jóhann Nökkvi, f. 2006, Hafdís Helga, f. 2007, og Arna Marín, f. 2010.

Systkini Elmu eru Ríkey Guðmundsdóttir, f. 17.3. 1937, húsfreyja, búsett í Kópavogi, og Friðrik Guðmundsson, f. 19.6. 1944, rafeindavirki, búsettur í Hafnarfirði.

Foreldrar Elmu voru Oddný Sigurjónsdóttir, f. 8.7. 1916, d. 12.5. 1986, húsfreyja í Neskaupstað, og Guðmundur Friðriksson, f. 24.6. 1913, f. 13.1. 2007, rafvirki í Neskaupstað.