[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Hugbúnaðarfyrirtækið Wise er nú í söluferli eftir að eigendur þess, norska fyrirtækið Akva Group, ákváðu á haustmánuðum 2016 að leita tilboða í félagið. Fjármálafyrirtækið Beringer Finance hefur umsjón með ferlinu.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Hugbúnaðarfyrirtækið Wise er nú í söluferli eftir að eigendur þess, norska fyrirtækið Akva Group, ákváðu á haustmánuðum 2016 að leita tilboða í félagið. Fjármálafyrirtækið Beringer Finance hefur umsjón með ferlinu.

Hrannar Erlingsson, framkvæmdastjóri Wise, segir í samtali við Morgunblaðið að engin niðurstaða sé enn komin í ferlið. „Það hafa nokkrir sýnt félaginu áhuga, bæði innlendir aðilar og erlendir, en enn sem komið er hafa menn ekki náð saman. Þetta er því enn á algjöru frumstigi,“ segir Hrannar.

Wise er einn öflugasti seljandi Microsoft Dynamics NAV-bókhalds- og viðskiptahugbúnaðarins á Íslandi, og er, að sögn Hrannars, líklega stærst á markaðnum ásamt Advania. Starfsmenn eru 80 talsins, 13 á Akureyri og 67 á höfuðborgarsvæðinu.

Aðspurður segir Hrannar að nú sé líklega góður tími til að selja fyrirtækið, enda sé það í góðum rekstri. „Afkoman hefur verið góð meira og minna síðustu árin.“

Hét áður Maritech

Margir kannast kannski við eldra heiti félagsins, en það hét Maritech frá árinu 2000. „Nafninu var breytt í Wise árið 2013. Það atvikaðist með þeim hætti að þegar norsku eigendurnir seldu norskt systurfyrirtæki Maritech fylgdi nafnið með í kaupunum. Því var ekki annað í stöðunni á þeim tíma en að skipta um nafn. Við breyttum því í Wise í höfuðið á okkar stærstu lausnum eins og Wise Fish og Wise Analyzer.“

Hrannar segir að tekjur félagsins komi mest frá íslenska markaðinum en 20-25% teknanna komi þó frá útlöndum. „Erlendu tekjurnar dreifast á 20 lönd. Stærstu löndin hafa verið Nýja-Sjáland og Ástralía.“

En af hverju eru Norðmennirnir að selja? „Þetta fellur ekki nógu vel að kjarnastarfseminni hjá þeim. Þeir eru einn stærsti framleiðandi og þjónustuaðili heildarlausna fyrir fiskeldi í heiminum og við erum bara í allt öðrum hlutum.“

Spurður hvernig það hafi æxlast á sínum tíma að Akva Group keypti fyrirtæki í jafn ólíkri starfsemi segir Hrannar að tvennt hafi ráðið þar mestu um. „Á þeim tíma vorum við með hugbúnað sem var líklega stærstur eða næststærstur í heiminum fyrir fiskeldi og þeir ásældust hann. Svo höfðu þeir meiri áhuga á þeim tíma á að fara út í hugbúnað fyrir sjávarútveg almennt, en það hefur alltaf verið stór hluti af okkar starfsemi. Þar liggja rætur okkar. Síðan hefur þetta þróast þannig að við erum rekin sem alveg sér eining og tengslin við Akva Group eru hverfandi.“

Spurður um tímasetningar í söluferlinu segir Hrannar að allt sé óvíst að svo stöddu og ekki sé heldur víst að af sölu verði. „Þetta er allt spurning um verð og slíkt.“

Upplýsingatækni
» Wise var stofnað árið 1995.
» Sérhæft í lausnum á sviði fjármála, verslunar, sérfræðiþjónustu, sveitarfélaga, sjávarútvegs og flutninga.
» Tekjur Wise árið 2016 námu tæpum 1,5 milljörðum króna. Hagnaður af rekstrinum var rétt rúmar 100 milljónir króna. Eigið fé félagsins er 175 milljónir króna og lækkaði úr rúmum 200 milljónum árið 2015.