Reykjavíkurborg varar við neysluvatninu sem hún selur borgarbúum

Í fyrrasumar var upplýst um það, sem borgaryfirvöld höfðu þagað um, að skolpdælustöð hefði bilað og dælt gríðarlegu magni af úrgangi í fjöruna við Faxaskjól. Saurgerlamengunin fór langt yfir viðmiðunarmörk og upplýsti starfsmaður borgarinnar að hann mundi ekki fara með börn sín í fjöruferð við slíkar aðstæður. Engu að síður sýndi borgin og borgarstjóri málinu engan áhuga og dróst úr hömlu að leysa vandann.

Í gær gerðist það svo að borgaryfirvöld sendu frá sér viðvörun – það er þó þakkarvert að þau skyldu ekki reyna að þegja málið í hel að þessu sinni – um að neysluvatn í borginni væri mengað. Greint var frá því að borgarbúar skyldu sjóða neysluvatnið, sem er með miklum ólíkindum að borgarbúum skuli boðið upp á í landi sem hingað til hefur getað verið stolt af hreinu og tæru vatni.

Skýringarnar sem gefnar eru verða að teljast ótrúverðugar og allt bendir til að þetta sé enn eitt dæmið um að innviðir borgarinnar hafa verið látnir drabbast niður á undanförnum árum á kostnað gæluverkefna meirihlutans. Þetta hlýtur að vera dropinn sem fyllir mælinn.