Tveggja dyra bíllinn Q60 hleypti lífi í sölu Infiniti 2017.
Tveggja dyra bíllinn Q60 hleypti lífi í sölu Infiniti 2017. — Morgunblaðið/
Vel gengur hjá Infiniti, lúxusbíladeild japanska bílsmiðsins Nissan. Fagnaði fyrirtækið aukningu í sölu áttunda árið í röð 2017. Seldi Infiniti 246.492 bíla á nýliðnu ári sem er 7% aukning frá 2016. Í jólamánuðinum einum og sér afhenti fyrirtækið 25.

Vel gengur hjá Infiniti, lúxusbíladeild japanska bílsmiðsins Nissan. Fagnaði fyrirtækið aukningu í sölu áttunda árið í röð 2017.

Seldi Infiniti 246.492 bíla á nýliðnu ári sem er 7% aukning frá 2016. Í jólamánuðinum einum og sér afhenti fyrirtækið 25.288 bíla.

Fagnaði Infiniti sölumeti í Bandaríkjunum, Kanada, Kína, Tævan og Bretlandi. Munaði þar um nýja bíla sem komu á götuna 2017, tveggja dyra Q60 og jepplinginn Q30/QX30.

11% aukning í Bandaríkjunum

Aldrei hefur Infiniti selt jafn marga bíla í Ameríkuríkjum og á nýliðnu ári, eða 168.740 sem er 10% aukning frá 2016. Þar af fóru 153.415 í Bandaríkjunum, sem er 11% aukning, og 12.433 í Kanada, sem er 3% aukning.

Sömuleiðis var sett met í Kína með sölu á 48.408 bílum en það jafngildir 16% aukningu milli ára. Þar af seldust 5.823 eintök í jólamánuðinum sem er 24% aukning.

Infiniti seldi 16.625 lúxusbíla sinna til Evrópu, 6.141 til Miðausturlanda og 6.552 til Asíu og Kyrrahafslanda, þar af 2.440 til Tævan sem er 21% aukning.

Ráðgert var að Infiniti svipti nýjan hugmyndabíl, Q Inspiration, hulum á alþjóðlegu bílasýningunni sem hófst í bílaborginni Detroit í Bandaríkjunum í gær. Er hann sagður munu tákna tímamót í bílsmíði Infiniti. agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson