[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2018 Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Spánn, Danmörk, Makedónía og Þýskaland eru komin áfram í milliriðil tvö á Evrópumóti karla í handknattleik eftir að önnur umferðin í C- og D-riðlum var leikin í Króatíu í gærkvöld.

EM 2018

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Spánn, Danmörk, Makedónía og Þýskaland eru komin áfram í milliriðil tvö á Evrópumóti karla í handknattleik eftir að önnur umferðin í C- og D-riðlum var leikin í Króatíu í gærkvöld.

Þar urðu þó mjög óvænt tíðindi þegar Tékkar lögðu Dani að velli, 28:27, á ævintýralegan hátt og fengu sín fyrstu stig í D-riðlinum. Martin Galia átti stórleik í marki Tékka og þegar þeir voru tveimur mönnum færri varði hann úr dauðafæri Dana 20 sekúndum fyrir leikslok. Tékkar náðu að halda boltanum út leiktímann og fögnuðu gríðarlega en þeir höfðu tapað hrikalega, 15:32, fyrir Spánverjum í fyrsta leik sínum.

Ondrej Zdrahala skoraði átta mörk fyrir Tékka og Mikkel Hansen sjö mörk fyrir Dani.

Þar með eru Ungverjar í mjög erfiðri stöðu fyrir lokaumferð D-riðilsins á morgun en þeir töpuðu naumlega fyrir Spánverjum, 25:27. Ungverjar verða að vinna Tékka með fjórum mörkum til að vera öruggir áfram, en annars að treysta á að Danir taki stig af Spánverjum ef þeir vinna með minni mun.

Danir eru sloppnir áfram þrátt fyrir tapið vegna sjö marka sigursins á Ungverjum í fyrstu umferðinni. Þeir geta aldrei orðið neðstir þótt þeir tapi fyrir Spáni og endi jafnir bæði Tékkum og Ungverjum.

Dramatík í lokin þegar Þýskaland jafnaði

Slóvenar misstu af dýrmætu stigi gegn Evrópumeisturum Þjóðverja þegar þeir fengu á sig jöfnunarmark, 25:25, nokkrum mínútum eftir að leiktíminn rann út í viðureign liðanna í C-riðli.

Blaz Janc virtist hafa tryggt Slóvenum sætan sigur með mögnuðu marki úr hraðaupphlaupi nokkrum sekúndum fyrir leikslok og þeir fögnuðu vel um stund.

Dómarar leiksins gáfu sér hinsvegar drjúgan tíma til að skoða lokasekúndur leiksins af sjónvarpsskjá áður en þeir komust að niðurstöðu. Að lokum sýndu þeir Slóvenanum Blaz Blagotinsek rauða spjaldið fyrir að hindra að Þjóðverjar gætu tekið löglega miðju eftir markið og dæmdu vítakast á Slóvena. Úr því jafnaði Tobias Reichmann metin, 25:25.

Stigið gulltryggði Þjóðverjum sæti í milliriðli en Slóvenar eru aðeins með eitt stig eftir tvo leiki og þurfa að glíma við Svartfellinga í hreinum úrslitaleik um hvort liðanna fer áfram úr C-riðlinum.

Uwe Gensheimer skoraði sjö mörk fyrir Þjóðverja en Miha Zarabec gerði fimm mörk fyrir Slóvena.

Makedónía er í efsta sæti C-riðils með fullt hús stiga og fylgdi eftir óvæntum sigri á Slóvenum í fyrsta leik með því að vinna Svartfellinga naumlega, 29:28. Viðureign Þýskalands og Makedóníu á morgun snýst því um stig í milliriðli þar sem bæði liðin eru komin þangað.