Þrýstingur mældur í könnun Michelin og Kwik Fit.
Þrýstingur mældur í könnun Michelin og Kwik Fit. — Ljósmynd/Michelin
Seint mun renna upp sú stund að ekki þurfi að minna bíleigendur á nauðsyn þess að hafa góða og óslitna hjólbarða undir bílum sínum.

Seint mun renna upp sú stund að ekki þurfi að minna bíleigendur á nauðsyn þess að hafa góða og óslitna hjólbarða undir bílum sínum.

Við rannsókn á ástandi dekkja sem gerð var fyrir dekkjaframleiðandann Michelin og dekkjaverkstæðakeðjuna Kwik Fit kom í ljós, að undir 40% bílanna var loftþrýstingur í minnst einu dekkjanna „hættulega“ eða „mjög hættulega“ langt undir mörkum.

Dauðagildrur í umferð

Rannsóknin átti sér stað á bílastæðum verslunarkeðjunnar Tesco víða í Englandi og voru dekk könnuð undir á sjötta hundrað bíla og loftþrýstingur mældur.

Michelin flokkar dekk hættuleg þegar loftþrýstingur í þeim er 7-14 pundum á fertommu undir meðmæltum þrýstingi. Meira en 14 pundum lægri þrýstingur er síðan mjög hættulegur, að sögn Michelin.

Tæknimenn Michelin og Kwik Fit komust að því, að 27,6% bílanna voru með minnst eitt dekk hættulega undirþrýst og 12% bílanna voru með a.m.k. eitt mjög hættulega lint dekk undir.

Lítið loft kostar mikinn pening

Jamie McWhir, tæknistjóri Michelin, segir að akstur á linum dekkjum kosti bæði peninga og geti kostað mannslíf. Vanti 7 punda þrýsting upp á eðlilegan loftþrýsting í dekki lækkar sú vegalengd sem lítrinn af eldsneyti dugar um rúmlega hálfan kílómetra. Reiknast Michelin til, að loftlin dekk í borg á stærð við Manchester í Englandi kosti bíleigendur þar óþarfa eldsneytiseyðslu fyrir sem svarar um 300 milljónum króna á ári. Þá dæli slíkir bílar að óþörfu þúsundum tonna gróðurhúsalofts út í andrúmsloftið.

agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson

Höf.: Ágúst Ásgeirsson