Stórslys Þessi ljósmynd var tekin um helgina áður en Sanchi sökk. Innanborðs voru 136.000 tonn af olíu og er óttast að áhrif slyssins á lífríki hafsvæðisins í kring geti orðið umtalsverð, en olían þekur um 129 ferkílómetra svæði.
Stórslys Þessi ljósmynd var tekin um helgina áður en Sanchi sökk. Innanborðs voru 136.000 tonn af olíu og er óttast að áhrif slyssins á lífríki hafsvæðisins í kring geti orðið umtalsverð, en olían þekur um 129 ferkílómetra svæði. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Fjöldi skipa var gerður út af örkinni frá Kína í gær til þess að reyna að hreinsa upp hráolíu, sem lekið hefur úr flaki íranska olíuflutningaskipsins Sanchi, sem sökk á sunnudaginn.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Fjöldi skipa var gerður út af örkinni frá Kína í gær til þess að reyna að hreinsa upp hráolíu, sem lekið hefur úr flaki íranska olíuflutningaskipsins Sanchi, sem sökk á sunnudaginn. Sérfræðingar telja að hér geti verið um að ræða einn stærsta olíuleka sögunnar, en um 136.000 af hráolíu voru í birgðatönkum skipsins þegar það sökk. Talin er veruleg hætta á því að lekinn muni hafa hræðileg áhrif á lífríki hafsins í kringum flakið.

Samkvæmt upplýsingum kínverska ríkissjónvarpsins CCTV lá olíubrákin aðallega austan megin við staðinn þar sem skipið sökk, og þekur hún hafsvæði sem er um 129 ferkílómetrar að stærð. Unnu tvö skip að því að sprauta sérstökum efnum á brákina, sem ætlað er að leysa olíuna upp. Lu Kang, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði að hreinsistarfið væri í algjörum forgangi hjá kínverskum stjórnvöldum.

Skipverjarnir taldir af

Íranskir embættismenn tilkynntu í gær að þeir teldu ekki lengur neina von til þess að neinn af skipverjunum 32 sem voru um borð í Sanchi myndi finnast á lífi. Olli tilkynningin mikilli sorg og reiði meðal aðstandenda skipverjanna í Íran, sem komu saman í höfuðborginni Teheran. 30 skipverja voru frá Íran en hinir tveir voru ættaðir frá Bangladess.

Á þeim tíu dögum sem liðnir eru frá því að Sanchi rakst á flutningaskipið CF Crystal hafa einungis þrjú lík fundist. Er talið líklegast að skipverjarnir hafi allir látist innan við klukkustundu eftir áreksturinn, en mikill eldur blossaði strax upp, sem erfiðlega gekk að slökkva. Sökk skipið að lokum án þess að tekist hefði að ná tökum á eldinum.

Ma Jun, stjórnandi umhverfisstofnunarinnar Institute of Public and Environmental Affairs, sagði við dagblaðið Global Times að það hefði verið versta mögulega útkoma, að skipið skyldi hafa sokkið án þess að meira af olíunni hefði brunnið. Væri það ekki síst vegna þess að olían sem var um borð var svonefnd létt hráolía, en hún flýtur ekki öll á yfirborðinu þegar hún lekur í sjó, heldur myndar stóran flekk neðansjávar. Því sé óvíst að öll umhverfisáhrifin muni koma strax í ljós.

Létt hráolía er talin sérstaklega eitruð fyrir lífríki sjávar og telja sérfræðingar að líklegt sé að olíulekinn muni hafa víðtæk áhrif á fjölda dýrategunda, sem hafa hrygningarstöðvar sínar á þessum slóðum.