Vetrarveður Lægð yfir landinu.
Vetrarveður Lægð yfir landinu.
„Þessi lægð ætlar að vera þrálát,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

„Þessi lægð ætlar að vera þrálát,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Veðurstofan spáir versnandi veðri nú í morgunsárið með norðvestan hvassviðri eða stormi og snjókomu norðan- og vestanlands, fyrst á Vestfjörðum. Á þessum slóðum má búast við mjög lélegu skyggni á köflum og er fólki ráðlagt að sýna aðgát og fylgjast vel með spám og færð. Óvissustig vegna snjóflóða var enn í gildi á norðanverðum Vestfjörðum í gærkvöld.

Helga veðurfræðingur sagði í samtali við mbl.is í gær að þetta slæma veður næði að líkindum inn á höfuðborgarsvæðið. Líklega yrði veðrið verst þar síðdegis, milli klukkan 14 og 16. „Það gæti skollið á með hvassri norðvestanátt og ofankomu. En þetta ætti ekki að standa lengi yfir,“ segir Helga.

Á Suður- og Austurlandi verði að mestu þurrt. Veðrið mun svo ganga niður er líður á daginn, fyrst vestantil á landinu.