[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
+ Hönnun að utan sem innan, afl, mýkt, upplifun. – Mögulega of djarfur útlits fyrir suma, Annars ekkert.

Það er unnendum fallegra bíla ávallt til áhuga og eftirvæntingar þegar út spyrst að ný gerð af Lexus sé á leiðinni. Þegar í ljós kemur að bíllinn sem hleypa á af stokkunum er ný og mikið breytt kynslóð flaggskipsins sjálfs, LS, þá fyrst verður maður verulega spenntur enda ávallt áhugavert að sjá hverju lúxusbílaframleiðendur tefla fram þegar nýr bíll í þessum stærsta stærðarflokki fólksbíla kemur fram á sjónarsviðið. Iðulega eru þá fyrri met í þægindum, tæknibúnaði, íburði og efnisvali slegin og það rækilega, og skemmst er frá því að segja að Lexus bregst ekki bogalistin með hinum nýja LS 550h. Þessi bíll er ekki bara drekkhlaðinn allra handa munaði og unaði, heldur öflugur og eftir því ótrúlega skemmtilegur í akstri. Því fékk greinarhöfundur að kynnast er bíllinn var kynntur hópi blaðamanna í Oman, í suðausturhluta Arabíuskaga í byrjun desember sl.

Djarft teflt í útlitshönnun

Það er eðli máls samkvæmt mikilvægt að stíga varlega til jarðar þegar jafn dýr bíll er kynntur til sögunnar, hvað útlitið varðar, því það gengur víst ekki að flippa út í hönnunarferlinu og ætlast til þess að maður og annar kaupi sér fríkað farartæki í efsta verðflokki. Það þarf ákveðin fágun og lúxusdrifin yfirvegun að svífa yfir vötnum þegar bílar í þessum stærðarflokki eru á borð bornir. Það verður í þessu sambandi að taka ofan fyrir hönnunarteymi Lexus því nýi LS-bíllinn gengur lengra í sérstöku og afgerandi útliti en nærtækustu samkeppnisaðilar á borð við Mercedes-Benz (S-Class), BMW (7-Series) og Audi (A8). LS-bíllinn er orðinn líkari litlu bræðrum sínum, IS og GS, með aggresífari framenda og afturljós sem tekið er eftir. Þá er frábærlega vel heppnuð sveiglínan sem liggur eftir hliðum bílsins, frá neðsta hluta framhjólaskálar, upp með hurðaflekunum og nálega að miðju afturhjólaskálar. Þessi lína, ásamt aflíðandi línu frá afturrúðu og niður á skotthlerann ljá bílnum skemmtilega sportlegan svip og hann minnir satt að segja frekar á klassíska GT-lúxusbíla heldur en hefðbundna sedan-bíla. LS var fyrst kynntur til sögunnar árið 1989 og sem fyrr sagði er nýi bíllinn fimmta kynslóð þessa volduga lúxusbíls. Það fer því vel á því að Lexus rúlli áleiðis að stórafmælinu á þessum vel heppnaða glæsivagni.

Einstök hönnun innandyra

Það var auðvitað viðbúið að ekki yrði í kot vísað þegar sest væri inn í hið nýja flaggskip Lexus. Það verður engu að síður að viðurkennast að innviðir þessa bíls komu mér talsvert í opna skjöldu; hér hefur ekkert verið til sparað og í raun er gengið svo langt í skilyrðislausri leit að fullkomnun að mann setur hálfpartinn hljóðan. Hér kveður í stuttu máli sagt við nýjan tón í innréttingahönnun fyrir ökutæki. Áherslan er á fagurfræði sem ættuð er frá Japan og er eftir því sértæk. Sem dæmi má nefna að í dýrustu gerðum LS 550h eru hurðaflekarnir klæddir að innan með silkimjúku áklæði sem brotið er saman samkvæmt origami-hefðinni og saumað þannig saman. Þetta er aðeins hægt að gera í höndunum. Þá er einnig að finna listavel skorið gler innan á hurðunum, í kiriko-mynstri. Þetta tvennt er einkum til marks um hversu langt Lexus seilist í leit að fullkomnum munaði í nýja bílnum. Of langt mál er að telja upp allan búnaðinn sem í bílnum felst en það er óhætt að fullyrða að hann er með því allra veglegasta sem ég hef séð.

Silkimjúkur kraftur

Lexus hefur haft fágun að leiðarljósi þegar LS bíllinn var hannaður og smíðaður því hann er í flokki allra hljóðlátustu bíla sem ég hef ekið. Það sleppur varla neitt veghljóð inn í farþegarýmið, vindgnauðið er ekkert og það þarf helst að botna eldsneytið langi ökumanna að heyra í vélinni. Reyndar fæst mjög gefandi urr þegar bíllinn er stilltur á „Sport“ en að öðru leyti hann framúrskarandi hljóðlátur. LS 550h er rétt rúmar 5 sekúndur í hundraðið og hröðunin virkar áreynslulaus fyrir bíl sem er rösklega 2 tonn að þyngd. Drif á öllum hjólum og Brembo-bremsur gera aksturinn einstaklega mjúkan og átakalítinn. Stýringin er hörkugóð og fjöðrunin sér til þess að bíllinn hallast varla neitt þegar sveigt er af krafti, jafnvel í kröppustu beygjum.

Loks má hrósa bílnum fyrir sparneytni, en eins og bókstafurinn 'h' gefur til kynna í nafni bílsins er um hybrid að ræða og þar af leiðandi er eyðslan í kringum 7 lítrana og kolefnisútblástur aðeins 152 g/km.

Of djörf hönnun fyrir suma?

Það blasir ekki alveg við með hvaða hætti á að finna að þessum bíl, og þegar komið er í þennan flokk lúxusbíla (sjá upptalningu að framan) þá er tæknin og búnaðurinn nokkurn veginn á pari frá einum til annars, og smekkur kaupenda hvað útlitið varðar skilur þá væntanlega milli feigs og ófeigs. Vera má að íhaldssömum þyki nóg um hina framúrstefnulegu hönnun á Lexus LS 550h en það er þá á þeirra kostnað; þessi bíll er eins og best verður á kosið í sínum flokki og eini gallinn sem benda má á er að hann verðleggur sig skiljanlega handan við það sem flest okkar ráða við. En að kostar ekkert að berja dýrðina augum, nokkuð sem býðst almenningi hér á landi þegar LS 550h verður kynntur með hækkandi sól.