Kauphöll Stærstu kaup Eaton Vance í vikunni voru í Sjóvá.
Kauphöll Stærstu kaup Eaton Vance í vikunni voru í Sjóvá. — Morgunblaðið/Kristinn
Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Sjóður á vegum bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance bætti við eign sína í fjórum fyrirtækjum í Kauphöllinni í síðastliðinni viku. Markaðsvirði kaupanna er um 551 milljón króna.

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Sjóður á vegum bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance bætti við eign sína í fjórum fyrirtækjum í Kauphöllinni í síðastliðinni viku. Markaðsvirði kaupanna er um 551 milljón króna. Auk þess bætti sjóður á vegum bresku eignastýringarinnar Lansdowne Partners við hlut sinn í tveimur félögum. Markaðsvirði kaupanna er um 127 milljónir króna. Þetta má lesa úr listum yfir 20 stærstu hluthafa.

Særstu kaup Eaton Vance á íslenska hlutabréfamarkaðnum í vikunni voru í Sjóvá. Markaðsvirði hins keypta hlutar er um 290 milljónir króna. Næststærstu kaupin voru í N1, hinn keypti hlutur er metinn á um 140 milljónir króna. Jafnframt var keypt í Reitum fyrir um 92 milljónir og í TM fyrir um 29 milljónir króna.

Eaton Vance Management er sá erlendi fjárfestir sem fjárfest hefur hvað víðast á hlutabréfamarkaðinum. Tveir sjóðir á vegum fyrirtækisins, sem bera nafnið Global Macro, eru á meðal 20 stærstu hluthafa í ellefu fyrirtækjum af 16 á Aðallistanum. Að meðaltali nemur hlutdeild hvors sjóðs 2,4% í hverju félagi.

Sjóður Lansdowne Partners keypti í TM fyrir um 92 milljónir króna og er sjötti stærsti hluthafi tryggingafélagsins með um 5,1% hlut. Þá bætti hann lítillega við sig í Vodafone í vikunni fyrir um 35 milljónir. Sjóðurinn er fjórði stærsti eigandi félagsins með um 9,4% hlut.