Loftvarnaflautur gullu fyrir mistök, sem mætti verða áminning um að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna

Sá óskemmtilegi atburður varð á Havaíeyjum á laugardaginn, að loftvarnaflautur ríkisins gullu fyrir handvömm starfsmanns almannavarna. Fengu íbúar ríkisins þar með þau skilaboð, og einnig í síma sína, að eldflaugaárás væri yfirvofandi. Atvikið olli eðlilega almennri skelfingu, þar sem fólk taldi stórhættu á ferðum.

Svo var sem betur fer ekki en þessi hörmulegu mistök hafa orðið til þess að traust Havaíbúa til loftvarnakerfisins hefur nú minnkað verulega. Gagnrýnendur segja að loftvarnaflauturnar, sem settar voru upp á síðasta ári, hafi lítið gert annað en að auka á kvíða fólks, sér í lagi þar sem ljóst er að það mun nær engan viðbragðstíma fá til þess að koma sér í öruggt skjól, ef um alvöruárás yrði að ræða. Þá hefur atvikið eflaust rist dýpra í meðvitund Havaíbúa í ljósi þess að þar var gerð ein frægasta skyndiárás sögunnar, árásin á Pearl Harbor.

Í því samhengi þarf að hafa í huga að ástæða þess að loftvarnaflauturnar voru yfirhöfuð settar upp voru eldflaugaæfingar Norður-Kóreumanna, sem og ítrekaðar hótanir þeirra um að þeir muni þróa kjarnorkueldflaug, sem geti náð til Bandaríkjanna. Viðvörunarbúnaðurinn getur því ekki talist ónauðsynlegur, þrátt fyrir að svo óhönduglega hafi tekist til við meðhöndlun hans nú.

Málið undirstrikar þó fyrst og fremst nauðsyn þess að þjóðir heims taki höndum saman um að knýja Norður-Kóreu, með góðu ef nokkur kostur er, til þess að láta af hendi kjarnorkuvopn sín og hætta við allar kjarnorkuáætlanir. Engin önnur lausn er ásættanleg í kjarnorkudeilunni á Kóreuskaganum en að Norður-Kóreumenn afvopnist.

En það eru ekki bara Norður-Kóreumenn sem hafa sýnt af sér stórfellt gáleysi með sókn sinni í gjöreyðingarvopn. Við sjóndeildarhringinn bíða Íranar spakir eftir því að kjarnorkusamningurinn, sem undirritaður var við ríkið árið 2015, renni úr gildi. Eftir árið 2030 munu engar kvaðir vera á stjórnvöldum þar sem geta hindrað þau í að verða sér úti um kjarnorkuvopn á tiltölulega skömmum tíma.

Deila annarra þjóða við Norður-Kóreu er því meðal annars prófsteinn á það, hvort mögulegt er að koma í veg fyrir að útbreiðsla kjarnorkuvopna verði almennari en hún er nú. Það er brýnt markmið, því að auðvitað væri æskilegast að engin þörf væri á loftvarnaflautum eins og þeim, sem blésu til ótímabærra Ragnaraka í Havaí um helgina. Það markmið mun hins vegar ekki nást ef sífellt fleiri ríkjum, sér í lagi þeim sem hafa sýnt að þau eru hættuleg öðrum, tekst að koma sér í hóp kjarnorkuvæddra ríkja.