Guðlaug L.Gísladóttir fæddist í Reykjavík 6. janúar 1922. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 3 janúar 2018.

Foreldrar hennar voru Gísli Sigurðsson og Anna Einarsdóttir. Guðlaug var fimmta í röðinni af níu systkinum. Gunnar Björgvin lifir einn systur sína. Guðlaug ólst upp á Óðinsgötu 16 (Klapparholti) í Reykjavík. Þegar hún stálpaðist aðstoðaði hún á heimilinu utan einn vetur er hún fór í húsmæðraskóla á Ísafirði. Þann 6. janúar 1950 giftist Guðlaug Sigurði M. Jónssyni og eignuðust þau tvö börn: 1) Jón, sem er giftur Eyrúnu Hafsteinsdóttur, eiga þau tvo syni: a) Sigurður Magnús, giftur Herdísi Þorláksdóttur. Þeirra synir eru Jakob Örn, Rafnar Örn, Óttar Örn og Ívar Örn. b) Árni Þór, giftur Írisi Hrönn Kristinsdóttur. Þeirra börn eru Axel Ingi og Lilja Guðrún. 2) Guðrún er gift Eiríki Inga Friðgeirssyni og eiga þau tvö börn: a) Friðgeir Ingi, giftur Söru Dögg Ólafsdóttur. Þeirra börn Julian Ingi, Ýmir og Kría. b) Guðlaug Björk.

Guðlaug og Sigurður bjuggu allan sinn búskap að Skeiðarvogi 22. Guðlaug var heimavinnandi framan af. Í kringum 1970 hóf hún vinnu í mötuneyti Eimskipafélagsins og vann þar til sjötugs. Sigurður lést árið 2001. Guðlaug bjó áfram í Skeiðavoginum og þá oftast með barnabörnin í kjallaranum sem studdu hana og síðustu árin sem hún bjó heima naut hún stuðnings frá dótturdóttur sinni Guðlaugu. Um mitt ár 2012 flytur Guðlaug svo á Hrafnistu, þá komin með Alzheimer.

Útför Guðlaugar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 16. janúar 2018, klukkan 13.

Nú hefur hún mamma kvatt þennan heim, í hárri elli og þjökuð af Alzheimer. Hana vantaði aðeins þrjá daga upp á 96 ár afmælisdaginn. Hún lifði svo sannarlega tímana tvenna. Fædd árið 1920 í Reykjavík og ólst upp á Óðinsgötunni (Klapparholti). Hún talaði alltaf um Óðinsgötuna með mikilli lotningu. Mamma var alltaf í góðu sambandi við systkini sín og þá sérstaklega voru þær Dóra nánar. Gunnar „bróðir“ lifir einn systur sína orðin 92 ára gamall. Mamma var ekki aðeins í góðu sambandi við systkini sín, hún ræktaði „frændgarðinn“ þeirra pabba vel alla tíð meðan heilsan leyfði. Og á ég ófáar minningar um að fara með þeim austur á Selfoss, Stokkseyri eða að Minna-Hofi. Í berjamó vestur á Hellissand, eða bara að heimsækja einhvern hér í bænum. Hún var líka höfðingi heim að sækja, alltaf var til nægur matur og alltaf fullt af „bakkelsi“. Ef farið var á skauta á Tjörninni, þá var sama hvort ég kom með fimm eða tíu með mér heim allir fengu heitt kakó og alls konar kökur. Voru pönnukökurnar hennar og konungsættin eitthvað sem enginn gat gert eins vel og hún. Svo var það garðurinn, kartöfluræktin, rabarbarinn og öll handavinnan.

Mamma byrjaði snemma að hjálpa til heima hjá sér. Og sagðist þar hafa gengið í öll störf. Hún var síðan einn vetur á húsmæðraskóla á Ísafirði og þar kynntist hún sínum bestu vinkonum og þar á meðal henni Gauju en þær voru bestu vinkonur alla tíð. Ég verð einnig að minnast á aðra góða vinkonu mömmu, hana Diddu, en þær hafa þekkst lengi, voru nágrannar í Skeiðarvoginum, ég held að það megi segja að þær hafi drukkuð vikulega morgunkaffi hvor hjá annarri í nærri 60 ár.

Árið 1950 giftu þau pabbi sig og fluttu í Skeiðarvog 22. Framan af var mamma heimavinnandi, en í kringum 1970 fór hún að vinna í mötuneyti Eimskipafélagsins og vann þar óslitið þar til hún varð sjötug. Pabbi var þá orðinn sjúklingur og hann dó 2001. Síðustu tvö árin sem hann lifði dvaldi hann á Droplaugarstöðum og reyndist það mömmu erfitt að geta ekki haft hann heima. Alla tíð leigðu þau út frá sér kjallarann og þar bjuggu margir, sem héldu alltaf tryggð við þau. Öll barnabörnin hófu líka búskap í kjallaranum, og hafði amma „auga“ með þeim. Enn síðustu árin hennar í Skeiðarvoginum snérist þetta við, þá bjó dóttir mín í kjallaranum, og aðstoðaði hún ömmu sína af fremsta megni og fyrir hennar tilstilli gat mamma búð lengur heima.

Um vorið 2012 var mamma orðin það veik að hún gat ekki lengur búið heima. Hún flutti þá á Hrafnistu í Reykjavík. Fyrsta árið hennar þar var sæmilegt, enn eftir það fór henni mikið hrakandi og hafði sjúkdómurinn farið um hana hörðum höndum. Hún var ekki í jafnvægi og leið greinilega ekki vel. Erfitt var að horfa á hana hverfa smátt og smátt frá okkur.

Ég kveð þig, elsku mamma. Hvíl í friði.

Þín dóttir

Guðrún.

Guðlaug amma og langamma kvaddi okkur í upphafi árs, þremur dögum fyrir 96 ára afmælið sitt. Hún lifði í næstum heila öld. Við Siggi hófum okkar sambúð í kjallaranum á Skeiðarvogi 22, hjá Guðlaugu og Sigurði, ömmu og afa mannsins míns, þar leið okkur vel. Þar gekk ég með okkar fyrsta barn af fjórum sem jafnframt var fyrsta langömmubarnið, hann Jakob Örn. Amma var mikil veislumanneskja, hélt þær ófáar og lét sig ekki vanta í aðrar veislur. Amma var ávallt vel til höfð, fór ekki í vikuinnkaupin nema fara í lagningu fyrst og á kjörstað fór hún ekki nema í háum hælum með varalit. Guðlaug amma var alltaf hress, brosandi og með skellandi hlátur. Henni þótti það meiriháttar sniðugt að við tvær skyldum vera með sama kvensjúkdómalækni, ég þá 22 ára en hún 74 ára. Mér þótti það pínu skrítið en hún hló. Okkur og öllum strákunum okkar, Jakobi, Rafnari, Óttari og Ívari, þótti gott að koma til langömmu, hún hafði svo góða nærveru, svo átti hún alltaf kremkex og súkkulaðirúsínur og ósjaldan var skellt í pönnukökur. En amma hataði ketti meira en allt. Þeir vissu það og sóttu sérstaklega heim að húsinu. Hún var alltaf tilbúin með vatnsglas í glugganum og skvetti hiklaust á þá og ef vatnsglasið dugði ekki hótaði hún garðslöngunni. Þeim var sama, þeir komu alltaf aftur. Ég skildi þetta ekki en gekk í lið með henni einn daginn þegar köttur komst inn í kjallarann og rústaði fyrsta prjónagallanum mínum á ófædda barnið. Hnykillinn lá um allan kjallara. Prjónagallinn fór í ruslið og við Guðlaug amma byrjuðum upp á nýtt. Þegar Jakob dó 10 ára gamall upplifði ég mikla breytingu á ömmu. Hún var orðin 86 ára gömul og þetta var mikið áfall. Hún fór í meiri mæli að muna gamla tíma og mundi það sem hafði gerst áður en hann dó en ekki eftir það. Hún þekkti mig alltaf en var farin að kalla mig konuna hans Sigga og þegar ég sagði henni nafnið mitt svaraði hún „já, ég veit það“ og hló. Hún hélt stundum að Rafnar væri Siggi og alltaf hafði hún orð á því hvað henni fannst Siggi myndarlegur. Þegar Siggi tók hólinu hló hún hátt. Henni fannst líka eins og hún sagði sjálf „strákarnir hans Sigga svo sniðugir og skemmtilegir“ þótt hún gæti ekki munað nöfnin þeirra. Það var nóg fyrir okkur. Þannig var amma. Við kveðjum ömmu og langömmu með þakklæti fyrir þá ást, velvild og hlýju sem hún sýndi okkur alltaf og vonum að Sigurður afi og Jakob Örn hafi tekið á móti henni með afmælisveislu í hennar anda á góðum stað.

Herdís Þorláksdóttir.

Elsku amma Lauga lést 3. janúar síðastliðinn. Þú varst alltaf svo glæsileg og vel til höfð. Allt fram á síðasta dag. Ég skildi það lengi vel ekki hvaða nafn var á hurðinni í Skeiðarvogi 22 – Guðlaug Lilja Gísladóttir, þú varst amma Lauga.

Það var einhvern veginn allt svo glæsilegt í þínu fari. Lengi vel skildi ég ekkert við hvað var átt þegar þú fórst í lagningu, þú fórst ekki í klippingu eða hárgreiðslu, þú fórst í lagningu. Hárið svo glansandi og fínt, allt fram á síðasta dag.

Í Skeiðarvogi 22, stórt og flott heimili sem þú hélst svo glæsilegu alla tíð. Í Skeiðarvoginum voru borðtuskur og viskustykki straujuð, allt í þágu glæsileikans.

Á þessu tímamótum hef ég hugsað til þess hversu stóru hlutverki Skeiðarvogur gegndi í mínu lífi, óteljandi gistinætur á yngri árum (og ekki þurfti að binda mig við girðinguna, ég fór aldrei upp á götu), enski boltinn með afa og Bjarna Fel, poppkornið, sundferðirnar þar sem ég kynntist vinum afa sem af og til löbbuðu óvart naktir út í laug, við gátum hlegið að því, ristað brauð með marmelaði og osti, steiktar kótelettur (fæ vatn í munninn), seinna gisti ég á verslunarskólaárunum við próflestur og annað dekur, og að lokum þegar ég bjó í kjallaranum með Herdísi í rúm tvö ár áður en Jakob Örn fæddist og við fluttum í Kópavoginn. Þetta eru góðar minningar.

Skeiðarvogurinn skipaði líka stóran sess í veisluhöldum, og glæsilegar veislur kunnir þú að halda. Afmælið þitt á þrettándanum, þétt setið húsið, fullt út úr dyrum af ættingjum og vinum. Borðin gáfu næstum eftir með glæsilegum kræsingum. Draumatertan, smákökurnar, flatkökur með hangikjöti og Konungsættin, maður lifandi, ég fæ vatn í munninn.

Veislurnar á sunnudögum, þar sem sunnudagstertan var alltaf tilbúin, en afi borðaði aldrei kremið, ég fékk það oftast á minn disk. Ég gleymi því svo aldrei þegar ljósakrónan hrundi niður á borðstofuborðið, þvílík læti. Og hvað við vorum hissa.

Þær eru skemmtilegar minningarnar úr Skeiðarvoginum, hvort sem maður var að gramsa í dótinu upp á skör, leika sér á fortóinu eða úti á altani.

Ég keyri ennþá Skeiðarvoginn og athuga hvort einhver sé heima eða einhver í heimsókn.

Ferðirnar sem ég fór í Eimskip, þar sem þú stjórnaðir mötuneytinu af myndarskap, þar var alltaf hægt að fá ristað brauð með marmelaði og osti, og stundum, ég held oftast, laumaðirðu vasapening á strákinn sem þurfti líka að fá sér pulsu á bæjarins bestu. Þú varst alltaf svo glöð að sjá mann, og þó það væri brjálað að gera, þá gafstu þér alltaf tíma.

Ferðirnar með ykkur afa austur á Hof i sveitina til Madda frænda, sem ég fyrirgaf aldrei fyrir að rífa nýju smekkbuxurnar mínar, með viðkomu á Selfossi hjá Ásgeiri og fjölskyldu. Þessi hringur í sveitina var tekinn oft í minningunni.

Eins og Óttar sonur minn sagði þegar ég sagði honum að þú værir farin, þú færð að hitta kærastann þinn aftur og Jakob. Þú ert á góðum stað í góðum félagskap. Ég bið að heilsa þeim.

Mig langar að lokum að segja þér hversu góð áhrif þú hafðir á mig og mitt líf.

Kveðja.

Þinn

Sigurður (Siggi).