Laufey Hrólfsdóttir
Laufey Hrólfsdóttir
Laufey Hrólfsdóttir rannsakaði tengsl mataræðis á meðgöngu, þyngdaraukningar og heilsu barna síðar á ævinni í doktorsverkefni sínu við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Laufey Hrólfsdóttir rannsakaði tengsl mataræðis á meðgöngu, þyngdaraukningar og heilsu barna síðar á ævinni í doktorsverkefni sínu við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Niðurstöðurnar benda til þess að næring kvenna á meðgöngu og þyngdaraukning umfram ráðleggingar geti mögulega haft áhrif á gildi bólguþátta á meðgöngu og efnaskiptaþætti barna snemma á fullorðinsaldri. „Ég notaði dönsk gögn þar sem skráð var fæðuval mæðra á meðgöngu, bakgrunnur og þyngdaraukning. 20 árum síðar var börnunum síðan boðið að taka þátt í rannsókninni. Upplýsingum var þá safnað um líkamssamsetningu, blóðþrýsting og lífvísa sem tengjast hjarta og æðakerfinu.

Að þyngjast óhóflega mikið á meðgöngu var tengt við hættu á að barnið væri í yfirþyngd. Einnig sáust tengsl við hærri leptíngildi, sem er hormón sem gegnir mikilvægu hlutverki í orkujafnvægi og svengdarstýringu, og insúlíngildi hjá barninu við 20 ára aldur.

Aukin orkuinntaka mæðra tengdist aukinni áhættu á að þyngjast of mikið á meðgöngunni en síðan voru einnig vísbendingar um að fæðumynstrið skipti miklu máli. Aukinn hlutur plöntuprótína á kostnað dýraprótína í fæðu var til að mynda tengdur við minni líkur á þyngdaraukningu yfir viðmiðum. Gæði kolvetna geta líka skipt máli í þessu sambandi.

Í íslenskri rannsókn, þar sem við notuðum mjög stuttan skimunarlista um fæðuval, sáum við að fæðumynstur sem einkenndist af mikilli neyslu á gosdrykkjum, óhóflegri eða lítilli neyslu á mjólkurvörum, auk lítillar neyslu á heilkornavörum, ávöxtum og grænmeti, tengdist aukinni hættu á þyngdaraukningu yfir viðmiðum eftir að leiðrétt hafði verið fyrir mögulegum truflandi þáttum. Þær konur sem voru með óheilbrigðasta fæðumynstrið voru einnig í aukinni áhættu á að eignast þungbura.

Niðurstöðurnar sýna að skimun fyrir ófullnægjandi mataræði meðal barnshafandi kvenna gæti mögulega skilað sér í markvissari heilbrigðisþjónustu þar sem lífsstílsíhlutun yrði beint fyrst og fremst til þeirra kvenna þar sem ófullnægjandi mataræði gæti mögulega ógnað heilsu móður eða barns,“ segir Laufey og tekur fram að rannsóknirnar undirstriki mikilvægi jafnvægis þegar kemur að mataræði og þyngdaraukningu á meðgöngu í tengslum við heilsufar, bæði til skemmri og lengri tíma. Laufey heldur erindi á Læknadögum í dag.