Prestastefna 67 konur í prestastétt sendu í gær frá sér yfirlýsingu í tengslum við #metoo. Þær krefjast siðbótar í starfsumhverfi sínu.
Prestastefna 67 konur í prestastétt sendu í gær frá sér yfirlýsingu í tengslum við #metoo. Þær krefjast siðbótar í starfsumhverfi sínu. — Morgunblaðið/Ómar
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Konur í prestastétt sendu í gær frá sér yfirlýsingu vegna #metoo-byltingarinnar.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Konur í prestastétt sendu í gær frá sér yfirlýsingu vegna #metoo-byltingarinnar. Undir yfirlýsinguna rita 67 konur sem segjast, líkt og aðrar konur, hafa búið við kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun á vinnustöðum sínum. Skora konurnar á biskup og stofnanir kirkjunnar að beita sér fyrir siðbót hvað varðar vinnuumhverfi kvenna innan kirkjunnar. Með áskoruninni fylgja sögur kvenna sem sýna hvernig áreitni hefur viðgengist innan kirkjunnar.

Konur í prestastétt bætast í sístækkandi hóp kvenna sem sagt hafa sögur sínar og krafist aðgerða í tengslum við #metoo-byltinguna. Áður höfðu þrettán hópar kvenna stigið fram með þessum hætti; konur í íþróttum, konur innan menntageirans, konur í læknastétt, konur í heilbrigðisþjónustu, konur í fjölmiðlum, konur í flugi, konur í réttarvörslukerfinu, konur í hugbúnaðar- og tækniiðnaði, konur í sviðslistum og kvikmyndagerð, konur í vísindasamfélaginu, konur í tónlist, konur í verkalýðshreyfingunni og konur í stjórnmálum. Ríflega fimm þúsund konur hafa ritað undir þessar yfirlýsingar og sögurnar eru vel á sjöunda hundrað.

Breytinga er þörf

Yfirlýsing kvenna í prestastétt er svohljóðandi: „Konur í prestastétt búa, líkt og aðrar konur, við kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun á vinnustöðum sínum. Gerendur eru yfirmenn, samstarfsfólk, sjálfboðaliðar og þau sem nýta sér þjónustu kirkjunnar.

Allar konur eiga rétt á að starfa í öruggu umhverfi, vera lausar við kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun af öllu tagi í sínum störfum. Frásagnir prestvígðra kvenna sem starfa í þjóðkirkjunni sýna svart á hvítu að breytinga er þörf.

Þjóðkirkjan hefur líkt og mörg önnur félagasamtök og stofnanir markað stefnu og búið til úrræði í þessum málum en sögur kvenna í kirkjunni sýna að mikið verk er óunnið þar sem annars staðar í samfélaginu.

Við undirritaðar skorum á biskup Íslands, kirkjuráð, kirkjuþing, presta og sóknarnefndir að beita sér fyrir siðbót hvað varðar vinnuumhverfi kvenna, prestvígðra og annarra, í kirkjunni.“

Nuddaði kynfærum við prest

Samhliða áskorun sinni birtu konur í prestastétt ríflega sextíu sögur úr starfi sínu. Sögurnar eru misjafnar en hér fylgja dæmi af nokkrum þeirra.

„Eftir messu kom sóknarnefndarmaður til mín til að þakka mér með faðmlagi fyrir messu – eins og við gerum svo oft í kirkjunni. Nema í þetta skipti fannst honum við hæfi í miðju faðmlagi að reka snöggt fram miðju sína, já kynfærin, og nudda þeim upp við mig. Og um leið og faðmlaginu lauk horfði hann á mig glottandi og gekk í burtu. Hvað gerir kona? Frýs, fyllist óhug og verður algerlega miður sín... og þegir.“

„Áður en ég hlaut vígslu vann ég á stað þar sem mörg vígð áttu erindi. Flest þeirra þekkti ég vel og einn þeirra hafði verið sóknarpresturinn minn til margra ára og ég unnið ýmis störf í kirkjunni okkar. Eitt sinn þegar hann kemur til að vinna embættisverk á vinnustað mínum víkur hann sér að mér, tekur fast utan um mig og kyssir mig beint á munninn. Ég ýtti honum frá mér og sagði honum að þetta skyldi hann láta vera, ég kærði mig ekki um slíkt. Ég hafði aldrei verið „vöruð“ við þessum manni eins og margar í okkar stétt höfðu verið. Ég kom alveg af fjöllum og taldi að um einangrað tilvik hefði verið að ræða.“

„Í nokkur skipti á starfsferli mínum hefur það komið fyrir að fólk hafi ákveðið að þiggja ekki þjónustu mína við útför vegna þess að ég er kona. Útskýringar eins og: „Mamma hefði ekki viljað að kona jarðaði sig“, „bróðir minn er svo mikið á móti kvenprestum að hann getur ekki hugsað sér að þú jarðir fyrir fjölskylduna“ og „systir mín heyrir ekkert í kvenprestum svo það gengur ekki að þú jarðir“.

„Ég minnist mannsins sem sagði að hann hefði farið inn á klósettið í kirkjunni eftir að ég var þar. Hann vildi vita hvernig prestur gæti blessað söfnuðinn þegar hún væri á túr. Fyrstu mánuðina og árin eftir að þetta gerðist hugsaði ég um þetta í hvert skipti sem mér blæddi. Ég sá andlitið á honum fyrir mér og fannst ég skítug.“