Höskuldur Daði Magnússon Sigurður Bogi Sævarsson „Það er greinilega einhver mengun í vatninu. Þetta eru fyrst og fremst jarðvegsbakteríur en við vitum ekki á þessu stigi um hvaða bakteríur er að ræða,“ segir Þórólfur Guðnason...

Höskuldur Daði Magnússon

Sigurður Bogi Sævarsson

„Það er greinilega einhver mengun í vatninu. Þetta eru fyrst og fremst jarðvegsbakteríur en við vitum ekki á þessu stigi um hvaða bakteríur er að ræða,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Aukið magn jarðvegsgerla hefur greinst í neysluvatni höfuðborgarbúa. Mælt er með því að í stærstum hluta borgarinnar sjóði fólk með veikt ónæmiskerfi, foreldrar ungbarna, aldraðir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma allt vatn sem það drekkur. Þessu var lýst sem „neyðarástandi“ hjá Landspítala í gærkvöldi, en spítalanum var ekki tilkynnt um mengunina. „Sýkingavarnadeild Landspítala beinir því til starfsfólks að sjóða allt neysluvatn fyrir jafnt sjúklinga á spítalanum sem starfsfólk þar til þessu neyðarástandi hefur verið aflétt,“ sagði í áríðandi tilkynningu til starfsfólks spítalans.

„Ég man ekki eftir þessu hér í Reykjavík en þetta kemur reglulega upp úti á landi í kjölfar mikils vatnsviðris. Þá höfum við ekki séð merki um veikindi í kjölfarið,“ segir Þórólfur sóttvarnalæknir sem telur þó rétt að hafa varann á. „Það eru ekki stór merki um saurmengun í vatninu en í svona tilvikum er alltaf leitað líka að saurbakteríum, coli-bakteríum, sem gætu gefið vísbendingu um slíkt. Þarna eru nokkrar bakteríur sem geta gefið þá vísbendingu, þetta er meira en leyfilegt er.“

Fundað verður um framhaldið í dag. „Við munum funda með heilbrigðiseftirlitinu og Matvælastofnun og reyna að skýra myndina aðeins.“