Miðborg Ráðhúsið er við Tjörnina.
Miðborg Ráðhúsið er við Tjörnina. — Morgunblaðið/Ófeigur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Tillagan felur í sér að nemendum verði gefinn kostur á að taka unglingastigið, þ.e. 8. til 10.

„Tillagan felur í sér að nemendum verði gefinn kostur á að taka unglingastigið, þ.e. 8. til 10. bekk, á tveimur árum kjósi þeir það,“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en hún mun í dag, þriðjudag, leggja fram á fundi borgarstjórnar tillögu sjálfstæðismanna um aukið val um námshraða í efri bekkjum grunnskólans. Er tillagan sögð liður í því að gera skólana sveigjanlegri og auka samfellu milli grunn- og framhaldsskóla.

Eykur val og sveigjanleika

Tillaga sjálfstæðismanna í Reykjavík gerir meðal annars ráð fyrir að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að útfæra hana í samráði við skólastjórnendur.

„Borgarstjórn samþykkir að reykvískum nemendum gefist kostur á að taka 8.-10. bekk grunnskólans á tveimur árum til að stuðla að sveigjanleika í skólastarfi og vali nemenda um námshraða. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að útfæra tillöguna í samráði við skólastjórnendur, kennara og námsráðgjafa. Auk þess verði sviðsstjóra falið að hefja viðræður og samráð við menntamálaráðuneytið um tillöguna og hvernig best verði að henni staðið,“ segir í áðurnefndri tillögu.

Þá segir í greinargerð að með sveigjanleika um námshraða verði hægt að koma betur til móts við þarfir nemenda og einstaklingsmiðað nám. „Sá valkostur að geta tekið 8.-10. bekk á tveimur árum yrði liður í því að taka fyrsta skrefið að aukinni samfellu milli skólastiga,“ segir þar enn fremur. khj@mbl.is