Með því að stytta sér aðeins leið í þróunarvinnunni, gegnum samstarf við Nissan, sprettur X-Class fram sem fullvaxinn og tilbúinn pallbíll.
Með því að stytta sér aðeins leið í þróunarvinnunni, gegnum samstarf við Nissan, sprettur X-Class fram sem fullvaxinn og tilbúinn pallbíll. — Morgunblaðið/Kristinn Magnúss
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
+ Útlit, innréttingar – Í dýrari kantinum

Það er ekki ýkja langt síðan menn töldu flestar hefðbundnar bílgerðir fyrri tíma – skutbílinn, pallbílinn og hefðbundinn sedan – allar á leiðinni lóðbeint í glatkistuna. Það hefur þó ekki alveg gengið eftir. Station-bíllinn á sinn fasta hóp og er því smíðaður enn af flestum bílaframleiðendum, sedan-bíllinn á reyndar nokkuð undir högg að sækja en pallbíllinn, gamli góði pikköppinn, honum verður allt að vopni upp á síðkastið. GM og Ford kynna sitt á hvað sífellt rosalegri pallbíla og nú hafa orðið allnokkur tíðindi í ofanálag: Mercedes-Benz hefur sent frá sér pallbíl, ótrúlegt en satt.

Sumir voru efins . . .

Það sýndist sitt hverjum um þetta útspil Mercedes-Benz í aðdraganda þess að X-Class var hleypt af stokkunum. Helst voru það hreintrúaðir Benz-unnendur sem fannst taktlaust af einu þekktasta lúxusbílamerki heims að leggjast svo lágt að smíða pick-up, að líkindum þá gerð fólksbíla sem er mesti vinnuþjarkurinn og hefur um leið minnsta fágun og klassa til að bera. Þetta er auðvitað óþarfa áhyggjur og óttaleg della; Benz hafa hingað til smíðað bíla sem eru í eðli sínu þjarkar og harðjaxlar og tveir af þeim eru bókstaflega goðsagnir í dag. G-Class jeppinn er eitt heitasta stöðutáknið meðal hinna efnameiri í bílaheiminum heilt yfir í dag, og svo er það vitaskuld hinn eilíflega frábæri Unimog, einhver ótrúlegasti ófæruböðull sem sögur fara af. Draumabíll!

Aðrir bentu á að það væri varla hægt að tala um Benz-jeppa því þarna væri bara á ferðinni lítillega staðfærður Nissan Navara. Ástæðan er sú Mercedes-Benz gekk sannarlega til samstarfs, og það algerlega fyrir opnum tjöldum, og X-Class pallbíllinn er byggður á Navara NP300 bílnum. En að því sögðu þá hafa þeir hjá Benz í raun aðeins fengið að teika Navöruna um stund og farið svo með X-Classinn í sína átt. Fyrir-séð er að hann mun í náinni framtíð þróast á sínum forsendum og verða hreinræktaður Benz. Með þessu fyrirkomulagi spara þeir sér einhver ár í þróunarvinnu og verður að teljast klókt. X-Classinn á því allan rétt á sér og rúmlega það.

Vel heppnuð fyrsta atrenna

Þegar X-Classinn er skoðaður blasir við að Benz hefur ákveðið að fara hægt í sakirnar fyrst um sinn og spila þetta öruggt hvað útlitið varðar. Hér er engin bylting í gangi í ætt við G-Class. Framendinn er nánast eins og GLE-jeppinn að sjá og er sannast sagna bara býsna vel heppnaður. Að einhverju leyti kann sumum að þykja hið rúnnaða hús á bílnum ekki alveg í flútti við rétthyrndan og einfaldan pallinn, en mig grunar að þar liggi ástæðan í því að augun eru einfaldlega ekki vön pallbíl frá Benz. Þetta er nýstárleg sjón en á vafalaust eftir að venjast og það fljótlega. Spurning er samt um það hvort ef til vill hefði pallurinn mátt vera lítið eitt hærri, til að renna betur saman við húsið og mynda heildarmynd? Það má velta því fyrir sér.

Allt eins og vera ber að innan

Þegar inn í bílinn er stigið virkar allt hins vegar með kunnuglegasta móti. Hönnunin er Benz svo ekki er um að villast (engar áhyggjur, lofttúðurnar eru á sínum stað á miðsvæðinu í innréttingunni og viðmótið nákvæmlega eins og við þekkjum það). Efnisval er fyrirtak, vandað og fallegt, svo þó maður aki um á harðgerðum „pikköpp“ þá er fágunin og fegurðin við völd innandyra. Í reynd ætti óvanur enga leið að segja til um í hvaða Benz-jeppa hann sæti ef honum væri fylgt inn í hann með bundið fyrir augu og svo dregið frá. Hér er semsé enginn afsláttur gefinn af vönduðum innviðum þó bíllinn sé í eðli sínu þjarkur.

Plássið er líka hið fínasta innandyra, alltént fyrir ökumann og farþega í framsæti; það er aðeins af knappara taginu, plássið í aftursætinu.

Rammgerður og traustur á ferð

Að aka X-Class er mestanpartinn eins og að aka pallbíl af hvaða áþekku gerð sem vera skal og bera svo saman við jeppa sömu gerðar. Hann er meiri traktor en GLE og GLS jepparnir frá Benz, það fer ekkert á milli mála, einkum í innanbæjarstússi og snatti, en milli bæjarfélaga rúllar hann mjúklega eftir aðalgötum. Drifgetan er líka fyrirtak, það fékk ég að prófa með því að fara beinlínis í torfærur með hann. X-Class er fjórhjóladrifinn og auk þess með hátt og lágt drif og því fær í flestan sjó. Ætli fólk að skoða nýjan pallbíl á árinu – án þess að vera viðkvæmt fyrir verðinu, sem er heldur í hærri kantinum – þá er X-Class skotheldur kostur og helsti keppinauturinn að líkindum VW Amarok, sem er á svipuðu grunnverði.