Skáld Kristín í stofunni heima.
Skáld Kristín í stofunni heima. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Ómarsdóttir segir það geta verið þrautin þyngri að hugsa, af því að við nennum því ekki. Og þess vegna sé auðveldara að afsala sér sjálfstæðinu fyrir alls konar þægindi og freistingar og vélrænan lífsstíl.

Kristín Ómarsdóttir segir það geta verið þrautin þyngri að hugsa, af því að við nennum því ekki. Og þess vegna sé auðveldara að afsala sér sjálfstæðinu fyrir alls konar þægindi og freistingar og vélrænan lífsstíl. Og það hafi hún oft gert, en í mun minna mæli þegar hún var yngri. Hún segist vera seinþroska.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Mér þykir vænt um kóngulær, ég óttast þær ekki og mér finnst farsælt og gott að mæta kónguló heima hjá mér. Þær koma mikið við sögu í bókmenntum enda eru þær klassískur efniviður og geta táknað ótalmargt,“ segir Kristín Ómarsdóttir skáld þegar hún er spurð um kóngulærnar sem bregður fyrir í ljóðunum í nýjustu ljóðabók hennar, Kóngulær í sýningargluggum.

„Kóngulærnar eru verndarar bókarinnar en mér þykir leitt að þær fremji sjálfsmorð í fyrsta ljóðinu – segir það ekki eitthvað um þann heim sem bókin býr til?“ spyr Kristín og þá fer af stað spjall um heiminn sem við lifum í.

„Það sem ég les um heimsmálin býður ekki upp á langa framtíð fyrir mannkynið. Ég er að vísu alin upp við kjarnorkuvána, kaldastríðsbörn, eins og vinur minn kallar okkur. Hugmyndin um kjarnorkustríð hafði ef til vill þau áhrif að maður gerði ekki ráð fyrir framtíð og ef til vill gerir ungt fólki í dag ekki sérstaklega ráð fyrir framtíð; ég veit það ekki, og það kann að vera nýtt element í veröldinni, á sama tíma og mannsævin hefur lengst og við vitum að líkaminn hefur burði til að verða miklu eldri en meðalævi í dag. Hugmyndin um yfirvofandi heimsendi hefur líka alltaf verið til. Afi minn sigldi á skútu með saltfisk til Spánar árið 1918 og þá átti halastjarna að rekast á jörðina og tortíma henni. Við Gíbraltar kvöddu skipsfélagar hver annan og biðu endalokanna,“ segir Kristín og bætir við að rétt eins og barn óttast um líf foreldra sinna og foreldrar um líf barnanna, þá óttist menn um jörðina, en váin er áþreifanlegri núna vegna gróðurhúsaáhrifanna.

„Við eigum að vernda jörðina á sama hátt og börn okkar og foreldra, en mér sýnist jörðin komin í andstöðu við okkur, hún er ekki lengur algjörlega meðmælt mannkyninu.“

Kristín segir að stjórnvöld megi ekki verða sinnulaus um hag borgaranna. „Það kom dáldið í ljós síðastliðna nýársnótt, við vorum ekki vöruð við umhverfisslysinu sem varð, svifrykstölurnar fóru fram úr tölum frá öllum öðrum borgum á plánetunni. Það er grafalvarlegt mál, við vitum ekkert um mögulegar afleiðingar seinna meir, ýmiss konar lungnasjúkdóma kannski. Af hverju má ekki banna jafn hættulega flugelda og gera átak í að draga úr bílaumferð?“ spyr Kristín og bætir við að mörg dæmi í mannkynssögunni séu til þar sem stjórnvöld hafi orðið uppvís að því að vera skeytingarlaus um afdrif fólks.

„Ekki misskilja mig, ég er alls-alls ekki að bera umhverfisslysið á nýársnótt saman við Chernobyl-slysið, en þá sýndu stjórnvöld vítavert kæruleysi gagnvart fólkinu sem þar bjó. Bókin Raddir frá Chernobyl eftir Svetlönu Alexievich er skelfileg lesning, mæli þó með að fólk lesi hana og bækur Svetlönu. Við höfum séð mátt fólks til að knýja fram breytingar og við þannig aðstæður margeflist gjarnan valdið og fer að ríghalda í fornt fyrirkomulag. Hefur sagan ekki kennt okkur að verði samfélög frjáls og umburðarlynd þá rísa upp afturhaldsöfl og hræðslan við breytingar birtist í öfgafullum skoðunum? Femínisminn smýgur í gegn í #metoo-byltingunni, og það er frábært.“

Enginn hefur átt mig

Kristín segir að við búum í draumi nafnlauss afls sem hefur teiknað upp samfélag sem stýrt er af háttsettum auðugum körlum.

„Við fæðumst inn í samfélag sem ætti að vera sameiginlegur draumur þar sem allir geta notið sín, en ekki bara lítill hluti fólks. Samfélagið er ekki endilega minn draumur. Konan hefur verið eign karlsins sem heldur um völdin og peningana, hún hefur verið skrautið hans og vinnudýr. Reyndar hefur enginn átt mig en auðvitað gefur maður sig á vald fólks og það getur verið áhrifaríkt og spennandi. Ég trúi því að hægt sé að búa til samfélag án eignarréttar og að fólk myndi lifa þar í ágætis sátt.“

Sameiginlegur hugarheimur

Og talandi um heima, þá er ekkert ómögulegt í þeim efnum í ljóðum Kristínar í nýju bókinni hennar. Þar getur allt gerst, í raunheimum og ímynduðum heimum.

„Það er enginn raunheimur í þessari bók, bækur eru skáldskapur, búnar til af ímyndunaraflinu sem sækir efniviðinn í raunveruleikann sem maður þarf reyndar ekki að taka svona alvarlega, af því að hann er líka síbreytilegur: tímarnir breytast stöðugt og hratt. Manneskjan hefur alltaf á öllum tímum lifað að hluta til í hugarheimunum. Internetið hýsir risastóra sameiginlega sápukúlu sem menn hittast í, þar er algjörlega nýr samskiptavettvangur sem við kunnum ekki enn á og það verður spennandi að fylgjast með því hvernig úr mannlegum samskiptum rætist í þessum gígantíska sameiginlega hugarheimi. En svo verður maður líka að hafa annan fótinn á gólfinu. Gleymi maður sér lengi í hugarheimunum er hætta á að maður lendi í harkalegum árekstri við raunheima – heldurðu það ekki?“

Á einum stað í bókinni segir: „ástríðuleysi fælir orðin burt“ og þá er ekki úr vegi að spyrja skáldið hvort hún missi stundum ljóðanáttúruna, hvort ljóðin hætti að koma til hennar?

„Jú, ég hef oft orðið galtóm og hef ekkert að segja, tæmist alveg, en ég tæmist ekki af ástríðum held ég, vonandi aldrei.“

Var léleg í handavinnu

Krosssaumur kemur nokkuð við sögu í bókinni, þar eru ljóð til dæmis krosssaumuð í tunguna.

„Mér finnst krosssaumur fallegur og hann var mikill hluti af heimilum bernskunnar, púðar, klukkustrengir, risastórar veggmyndir. Þá var lítil virðing borin fyrir þessum listaverkum nema í heimahúsum, ekki á opinberum vettvangi. Ég man hvernig var skrifað um sumar sýningar kvenna þegar ég var unglingur, alltaf talað um að þetta væri „snoturt,“ það var orð sem mikið var notað um listaverk kvenna. Noti karlkyns myndlistarmenn krosssaum í sín verk, þá fyrst hefur saumurinn þótt merkilegur. Annars er það ekki af aðdáun á krosssaumi að ljóðin eru krosssaumuð í tunguna, hér er einhver hryllingur á ferð sem ég veit ekki hvort eigi eitthvað sameiginlegt með krosssaumuðu púðunum – jú, og þó, það hlýtur að vera. Ég var léleg í handavinnu þegar ég var lítil, vinkona mín saumaði stykkin fyrir mig á meðan ég las upphátt úr námsbókunum.“

Ólík skynjun tímans

Tíminn og klukkan koma mikið við sögu í bókinni. Hvernig líður henni að vera komin á seinni helminginn af ævinni?

„Eins og aðrir skynja ég tímann mjög ólíkt eftir því á hvaða aldursskeiði ég er. Fyrir þrítugt skynjaði ég tímann brotakennt og þá skrifaði ég stuttar sögur en sögurnar hafa lengst með árunum. Þegar maður verður þrítugur þá öðlaðist maður meira útsýni – samhengið lengist – og þá skrifaði ég fyrstu skáldsöguna. Þegar ég varð fertug fékk ég enn betra útsýni, nánast endalaust. Núna þegar ég er orðin fimmtíu og fimm ára, þá greini ég hinn endann og skynja tímann með öðrum hætti, næstum því eins og rör,“ segir Kristín.

Oft verið utan við tímann

Kristín segir að frjáls manneskja þurfi fyrst og fremst að hugsa og það geti verið þrautin þyngri, að hugsa, maður nenni því ekki, þess vegna sé auðveldara að afsala sér sjálfstæðinu fyrir alls konar þægindi og freistingar og vélrænan lífsstíl, og það hafi hún oft gert, en í mun minna mæli þegar hún var yngri.

„Ég hef oft verið utan við tímann og þegar ég var ung þá vissi ég ekki að ég væri ung og margar hljómsveitir fóru framhjá mér, eins og til dæmis Duran Duran og The Cure. Þegar ég varð 23 ára áttaði ég mig á því að ég þyrfti að passa mig sjálf, enginn annar gerði það; ég yrði að taka ábyrgð á lífi mínu, þess vegna tel ég mig seinþroska. Þá fyrst fattaði ég að ég væri fullorðin og þá fór ég að skrifa fyrir alvöru. Mér fannst ömurlega leiðinlegt að verða þrítug, við jafnaldra mín sátum á bekk á Klambratúni á afmælinu í þunglyndiskasti og höfðum ekki efni á að drekka kaffi á Kjarvalsstöðum. En við vorum ekki þunglyndar yfir peningaleysinu heldur yfir aldrinum. En það var líka skemmtilegt að vera á þrítugsaldri og aldrei hægt að endurtaka þá skemmtun – ærið tilefni til þunglyndis þegar sá áratugur er frá. Að verða fertug fannst mér æðislegt og enn betra þegar ég varð fimmtug, á milli þess sem ég var í hláturskasti á afmælisdaginn hugsaði ég fullorðinslegar og klisjukenndar hugsanir um sambönd og tilfinningar og pólitík. Fólk verður síðan mjög uppreisnargjarnt þegar það verður sextugt hef ég tekið eftir.“