Kýr Fundið var að aðbúnaði kúnna á bæ fyrir norðan. Mynd úr safni.
Kýr Fundið var að aðbúnaði kúnna á bæ fyrir norðan. Mynd úr safni. — Morgunblaðið/Þorkell
Matvælastofnun hefur lagt 30.000 króna dagsektir á kúabú á Norðurlandi vegna meðferðar nautgripa. Í ljós kom við endurtekið eftirlit að kröfur stofnunarinnar um úrbætur vegna bindingar kúnna á bása, hreinleika og klaufhirðu höfðu ekki verið virtar.

Matvælastofnun hefur lagt 30.000 króna dagsektir á kúabú á Norðurlandi vegna meðferðar nautgripa.

Í ljós kom við endurtekið eftirlit að kröfur stofnunarinnar um úrbætur vegna bindingar kúnna á bása, hreinleika og klaufhirðu höfðu ekki verið virtar. Ekki er um mataröryggismál að ræða og mjólkin frá bænum kemur eðlilega út, samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun. Stofnunin hefur ekki haft meiri afskipti af búinu en öðrum hingað til og er þetta í fyrsta sinn sem umrætt bú er beitt þvingunum.

Dagsektirnar taka gildi frá og með þeim degi sem þær eru ákvarðaðar samkvæmt reglugerð. Þær gilda þar til kröfunum hefur verið mætt að mati Matvælastofnunar. Dagsektir falla niður ef umráðamaður dýranna hefur bætt úr aðstæðum þeirra og aðbúnaði á fullnægjandi hátt, að mati Matvælastofnunar, innan fimm virkra daga frá ákvörðun stofnunarinnar um dagsektir. Það reyndist ekki hafa verið gert í þessu tilviki og því voru dagsektir upp á 30.000 krónur lagðar á búið þar til bætt hefur verið úr. gudni@mbl.is