Albert Þór Jónsson
Albert Þór Jónsson
Eftir Albert Þór Jónsson: "Í stafrænni veröld og með aukinni sjálfvirkni ætti að vera mögulegt að hagræða enn frekar í ríkisrekstri, bæta úrelt skipulag á mörgum sviðum og í rekstri stofnana ríkissjóðs."

Á undanförnum sjö árum hafa ríkisútgjöld aukist um 170 milljarða án þess að framleiðni eða virðisaukning hafi átt sér stað hjá ríkinu. Ennþá berast fréttir af auknum ríkisútgjöldum án þess að krafist sé hagræðingar á móti. Fáar fréttir eru frá ráðherrum og stjórnmálamönnum um hagræðingu í ráðuneytum, stofnunum og fyrirtækjum ríkisins. Það væri tilbreyting að heyra af 50-100 milljarða hagræðingu í rekstri ríkisins með aukinni framleiðni og nýsköpun, en hagræðing í ríkisrekstri er verðmætasköpun. Stjórnmálamenn og embættismenn þurfa að móta langtímastefnu um aukna framleiðni og nýsköpun í rekstri ríkisins á næstu árum. Skattstofnar eru fullnýttir og í raun alltof háir horft til framtíðar. Núverandi staða á rekstri ríkisins er óviðunandi og grípa þarf til róttækra aðgerða til að stöðva þessa óheillaþróun. Miklar launahækkanir, aukning lífeyrisskuldbindinga, há vaxtagjöld og hugmyndafátækt í nýsköpun í rekstri í stafrænni veröld benda til þess að ekki sé búið að stöðva þessa þróun. Það sem einkennir yfirleitt slaka stjórnmálamenn, stjórnmálaflokka og embættismenn eru skattahækkanir, aukning útgjalda og skuldasöfnum. Áður hefur verið fjallað um Reykjavíkurborg og skuldahalann en heildarskuldir sem hlutfall af reglulegum tekjum nema 187% sem er töluvert fyrir ofan lagaskyldu. Til þess að ná árangri í hagræðingu og aukinni framleiðni hjá ríkissjóði þarf að byrja strax. Hægt væri að byrja á einkavæðingu RÚV sem myndi spara strax 5-6 milljarða á ári, en sú ríkisstofnun hefur þurft að nýta lóðasölu til að ná niður skuldsetningu, vegna slæms rekstrar til fjölda ára. RÚV fær um 4 milljarða frá skattgreiðendum á hverju ári auk þess að fá um 2 milljarða af auglýsingamarkaði í samkeppni við einkaaðila. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að fá mjög góðar hagræðingarhugmyndir sem myndu lækka ríkisútgjöld strax um 15-20%. Það þarf einungis vilja til að framkvæma þær aðgerðir. Á sama tíma og tekjur ríkissjóðs hafa aukist mikið á undanförnum árum vegna hagvaxtar hafa ríkisútgjöld aukist án nokkurs aðhalds.

Í stað hagræðingar í rekstri ríkisins og niðurgreiðslu skulda t.a.m. með því að auka inngreiðslur inn á áfallnar lífeyrisskuldbindingar sem nema nú um 855 mö.kr. eða 35% af landsframleiðslu. Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs hafa tvöfaldast á undanförnum 10 árum þrátt fyrir að ríkissjóður hafi greitt 207,8 ma.kr. aukagreiðslur inná vegna bakábyrgðar ríkissjóðs.

Fjármálastjóri og hagræðingarstjóri til ríkissjóðs

Undanfarin ár hefur ríkissjóður ekki nýtt fengið svigrúm til hagræðingar og aukinnar framleiðni í ríkisrekstrinum. Aldrei hefur verið mikilvægara að rekstur ríkissjóðs sé rekinn eins og framúrskarandi fyrirtæki í ljósi þess að skattgreiðendur þurfa að greiða óhagkvæman ríkisrekstur í framtíðinni. Mikilvægasta aðgerð í hagstjórn á Íslandi á næstu árum er að lækka útgjöld ríkissjóðs, auka framleiðni í ríkisrekstri og greiða niður skuldir. Auglýsa þarf eftir tveimur öflugum aðilum til að manna tvær mikilvægar stöður í fjármálaráðuneytinu. Annarsvegar fjármálastjóra (CFO) sem myndi reka ríkissjóð með sama hætti og framúrskarandi fyrirtæki og hinsvegar hagræðingarstjóra (COO) ríkissjóðs sem myndi hagræða ásamt sinni víkingasveit þannig að úreltar stofnanir og fyrirtæki innan ríkisgeirans væru lögð niður eða einkaaðilar látnir sjá um reksturinn þar sem það á við. Í stafrænni veröld og með aukinni sjálfvirkni ætti að vera mögulegt að hagræða enn frekar í ríkisrekstri, bæta úrelt skipulag á mörgum sviðum og í rekstri stofnana ríkissjóðs. Auka þarf framleiðni og samkeppni í heilbrigðismálum og menntamálum með sama hætti og gerist annars staðar á Norðurlöndum og ná þannig fram hagræðingu og samkeppnishæfni. Það þarf að eiga sér stað hugarfarsbreyting þar sem ekki er bara óskað eftir auknu fjármagni frá skattgreiðendum heldur þarf að fara fram á hagkvæmari rekstur á sama tíma og betri nýtingu fjármuna. Skattgreiðendur upplifa marga forsvarsmenn stofnana og fyrirtækja ríkisins sem aðila sem óska alltaf eftir meira fjármagni en þurfa sjaldan að sýna fram á hagkvæmari og betri rekstur á sama tíma. Þessu þarf að breyta. Það þyrfti að setja forstjóra yfir útgjaldamestu málaflokka ríkisins og reka þá með tilliti til árangurs og áætlana um framtíðarárangur með meiri tekjum, lægri kostnaði og meiri forvörnum þannig að hægt sé að lækka framtíðarútgjöld. Stjórnmálamenn, embættismenn og ríkisstarfsmenn eru í vinnu hjá skattgreiðendum landsins og það er krafa um að árangur í rekstri ríkisins og meðferð fjármuna sé framúrskarandi.

Ekkert rými er fyrir farþega í rekstri ríkissjóðs. Einnig þurfa þeir, sem veljast til aðstoðar hjá ráðherrum og stjórnmálamönnum, að hafa framúrskarandi rekstrarþekkingu þannig að meðferð opinbers fjár sé ávallt með tilliti til þess að nýting og skilvirkni sé með sem bestum hætti.

Mikilvægt er að búa í haginn þegar vel árar

Fáar hugmyndir eða tillögur koma fram um aukningu tekna ríkissjóðs með uppbyggingu í atvinnumálum með stofnun nýrra fyrirtækja eða með því að laða frumkvöðla til góðra verka. Miklar samfélagsbreytingar eiga sér stað í heiminum með örri tækniþróun og breytingum á samfélögum. Mikill hagvöxtur hefur verið á Íslandi á undanförnum árum meðan hagvöxtur hefur verið lítill í Evrópu á sama tíma. Á Íslandi hefur góðærið ekki verið nýtt til búa í haginn þegar vel árar. Ríkissjóður er enn að greiða háar vaxtagreiðslur þrátt fyrir niðurgreiðslur skulda en hagræðing í ríkisrekstri er lítil eða engin á sama tíma. Nú þegar þarf að hefja tímabil hagræðingar og aukinnar skilvirkni á öllum sviðum í ríkiskerfinu að hætti hinnar hagsýnu húsmóður sem hefur verið kjölfestan í rekstri flestra heimila á Íslandi sem hafa náð árangri.

Höfundur er viðskiptafræðngur með MCF í fjármálum fyrirtækja og 30 ára starfsreynslu á fjármálamarkaði.

Höf.: Albert Þór Jónsson