Kjúklingar Þúsundir drápust í eldsvoða á Oddsmýri í gærdag.
Kjúklingar Þúsundir drápust í eldsvoða á Oddsmýri í gærdag.
Alexander Gunnar Kristjánsson agunnar@mbl.is Eldur kom upp að nýju í glæðum milli þilja á kjúklingabúi á Oddsmýri á norðanverðri Hvalfjarðarströnd undir kvöld í gær og var slökkvilið þá kallað á vettvang þar í annað sinn þann daginn.

Alexander Gunnar Kristjánsson

agunnar@mbl.is

Eldur kom upp að nýju í glæðum milli þilja á kjúklingabúi á Oddsmýri á norðanverðri Hvalfjarðarströnd undir kvöld í gær og var slökkvilið þá kallað á vettvang þar í annað sinn þann daginn. Að sögn Þráins Ólafssonar, slökkviliðsstjóra hjá Slökkviliðinu á Akranesi, tók slökkvistarf í seinna sinnið einungis um tíu mínútur og tjón lítið.

Tíu milljóna króna tjón

Slökkviliðið var fyrst kallað að Oddsmýri um þrjúleytið í gær vegna elds sem talið er að hafi kviknað út frá hitablásara. Fimmtán manns á fjórum slökkvibílum fóru á staðinn til að slökkva eldinn, sem drap um tólf þúsund kjúklinga.

Björn Fálki Valsson, bústjóri á kjúklingabúinu, taldi í samtali við mbl.is í gær að meta mætti tjónið á um 10 milljónir króna. Alls eru um 55 þúsund kjúklingar í fimm húsum í búinu, sem er rekið á vegum Reykjagarðs, en meginstarfsemi þess fyrirtækis er þó á Suðurlandi. Kjúklingarnir sem drápust höfðu komið á búið fyrr um daginn en til stóð að þeir yrðu aldir þar í fimm vikur eða fram að sláturtíðinni.