[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir L. Frank Baum í leikgerð Ármanns Guðmundssonar. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir. Tónlist: Ármann Guðmundsson, Baldur Ragnarsson, Eggert Hilmarsson, Rósa Ásgeirsdóttir og Snæbjörn Ragnarsson.

Eftir L. Frank Baum í leikgerð Ármanns Guðmundssonar. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir. Tónlist: Ármann Guðmundsson, Baldur Ragnarsson, Eggert Hilmarsson, Rósa Ásgeirsdóttir og Snæbjörn Ragnarsson. Söngtextar: Anna Bergljót Thorarensen, Ármann Guðmundsson, Baldur Ragnarsson og Snæbjörn Ragnarsson. Leikmynd: Móeiður Helgadóttir og Sigsteinn Sigurbergsson. Búningar: Rósa Ásgeirsdóttir og Sigsteinn Sigurbergsson. Lýsing: Kjartan Darri Krisjánsson. Hljóð: Þórður Gunnar Þorvaldsson. Hljóðmynd: Baldur Ragnarsson og Kjartan Darri Kristjánsson. Dansar: Ágústa Skúladóttir og hópurinn. Leikarar: Anna Bergljót Thorarensen, Baldur Ragnarsson, Huld Óskarsdóttir, Rósa Ásgeirsdóttir og Sigsteinn Sigurbergsson. Leikhópurinn Lotta frumsýndi í Tjarnarbíói 6. janúar 2018, en rýnt í 4. sýningu 13. janúar 2018 kl. 15.

Uppfærsla Leikhópsins Lottu á Galdrakarlinum í Oz í Elliðaárdalnum fyrir tæpum áratug er ein fárra sýninga hópsins sem rýnir hafði ekki séð. Það var því með mikilli tilhlökkun sem leiðin lá í Tjarnarbíó um helgina þar sem Lotta hefur hafið þá vegferð að sýna gömlu verkin sín í réttri tímaröð innandyra að vetri til ásamt því að frumsýna áfram ný verk á sumrin. Líkt og með sumarsýningar hópsins er ætlunin að ferðast um landið með vetrarsýningarnar og á Lotta hrós skilið fyrir hversu vel hún sinnir ungum áhorfendum hringinn um landið – og hefur gert um árabil.

Saga L. Frank Baum um Dórótheu og vini hennar þrjá í Oz er flestum börnum kunn. Ef ekki úr bókinni sjálfri eða einhverri af ótal endursögnum hennar, þá úr kvikmyndinni goðsagnarkenndu frá árinu 1939. Rauði þráðurinn er frásögnin af Dórótheu sem ásamt Tótó, hundinum sínum, lendir í hvirfilbyl sem feykir þeim alla leið frá Kansas til ævintýraheima Oz. Þar er Dórótheu tjáð að sá eini sem geti hjálpað henni að komast heim sé galdrakarlinn sem býr í Smaragðsborg og því stefnir hún strax þangað. Á leiðinni hittir hún heilalausa fuglahræðu, hjartalausan pjáturkarl og huglaust ljón sem slást í för með henni í von um að galdrakarlinn geti líka hjálpað þeim að öðlast það sem þau þrá mest, heila, hjarta og hugrekki.

Í leikgerð sinni einfaldar Ármann Guðmundsson söguna nokkuð þannig að hún rúmist innan þess klukkutíma sem sýningar Lottu vanalega eru. Þrautunum er fækkað til muna, vængjuðu öpunum er alfarið sleppt sem og gula tígulsteinsveginum, en það kemur ekki að sök því meginsagan er skýr. Persónur eru kynntar til leiks með skemmtilegum lögum (úr smiðju Ármanns, Baldurs og Snæbjörns Ragnarssona, Eggerts Hilmarssonar og Rósu Ásgeirsdóttur) og átökin við vondu vestannornina, sem ásælist silfurskó vondu austannornarinnar sem Dóróthea klæðist eftir að hafa óvart drepið eigandann, komast vel til skila. Rýnir saknaði þess aðeins að gjöfum galdrakarlsins væri sleppt þegar hann útskýrir fyrir fuglahræðunni, pjáturkarlinum og ljóninu að þau bjuggu öll allan tímann yfir því sem þau leituðu.

Líkt og í fyrri sýningum Leikhópsins Lottu er leikgleðin mikil og orkustigið hátt sem þjónar verkinu og heldur vel athygli ungra leikhúsgesta. Ágústa Skúladóttir er ekki aðeins flinkur leikstjóri heldur einnig afbragðs danshöfundur og útfærir í samvinnu við leikhópinn fantaflott dansnúmer og listrænar slagsmálasenur, en þar ber hæst glímu fuglahræðunnar við hina sofandi vondu vestannorn.

Einföld og stílhrein sviðsmynd Móeiðar Helgadóttur og Sigsteins Sigurbergssonar nýtur sín vel í Tjarnarbíói þar sem fjöldi fleka á hjólum rennur áreynslulaust um sviðið og breytir leikrýminu í ólíka staði. Lýsing Kjartans Darra Kristjánssonar er töfrandi og á stóran hluta í ævintýrastemningunni á sviðinu þar sem fiðrildi fljúga um og hvirfilbyljir birtast fyrirvaralaust. Hljóðmynd Baldurs Ragnarssonar og Kjartans Darra Kristjánssonar var prýðilega unnin. Líkt og í fyrrnefndri kvikmynd er farin sú leið í leikmynd og búningum að hafa Kansas í svart/hvítu meðan Oz einkennist af mikilli litagleði. Útfærsla Rósu Ásgeirsdóttur og Sigsteins Sigurbergssonar á útliti persóna er góð og kemst á flug í nornunum þremur.

Rósa Ásgeirsdóttir er yndisleg í hlutverki sínu sem Dóróthea og nær að heilla leikhúsgesti með góðvild sinni og ráðsnilli. Baldur Ragnarsson er skemmtilega fattlaus sem fuglahræðan og sýnir ótrúlega fimi í átökum sínum við nornina. Sigsteinn Sigurbergsson er dásamlegur sem pjáturkarlinn sem telur sig vera hjartalausan en grætur samt sem áður sáran þegar hann stígur óvart á snigil. Skert hreyfigeta pjáturkarlsins er einnig sniðuglega útfærð. Anna Bergljót Thorarensen nýtur sín vel í hlutverki huglausa ljónsins og fer á kostum þegar hún reynir að flýja af hólmi og leitar ásjár hjá áhorfendum. Rýnir saknaði þess þó að ljónið skyldi ekki tala um sjálft sig í kvenkyni þegar búningurinn tók af allan vafa um hvers kyns það væri. Huld Óskarsdóttir er hæfilega grimmúðleg sem vestannornin vonda en heiðríkjan ein sem norðan- og sunnannornirnar. Að sama skapi er hún skemmtilega vandræðaleg sem hliðvörður í Smaragðsborg og sjálfur galdrakarlinn í Oz. Allir nema Rósa léku fleira en eitt hlutverk og á köflum var óskiljanlegt hversu snögg þau gátu verið í búningaskiptum sínum.

Aðdáendur Leikhópsins Lottu verða ekki fyrir vonbrigðum með Galdrakarlinn í Oz sem minnir okkur á að ferðalagið er oft mikilvægara en sjálfur áfangastaðurinn og vináttan er dýrmætasta veganestið.

Silja Björk Huldudóttir