Kia Niro rafbíllinn gefur frá sér flautuhljóð og blikkar ljósum gangandi vegafarendum til aðvörunar. Meira öryggi er betra en minna, ekki satt?
Kia Niro rafbíllinn gefur frá sér flautuhljóð og blikkar ljósum gangandi vegafarendum til aðvörunar. Meira öryggi er betra en minna, ekki satt?
Kia frumsýnir hreinan Niro rafbíl á rafeindatækjasýningunni sem nú stendur yfir í Las Vegas. Kemst hann lengra á hleðslunni en aðrir rafbílar Kia, eða um 375 kílómetra.

Kia frumsýnir hreinan Niro rafbíl á rafeindatækjasýningunni sem nú stendur yfir í Las Vegas. Kemst hann lengra á hleðslunni en aðrir rafbílar Kia, eða um 375 kílómetra.

Kia notaði tækifærið og kynnti áform um fleiri nýja nettengda bíla á næstu árum á CES-sýningunni; fleiri rafbíla og ennfremur vetnisbíl.

Þar sem enga vél þarf að kæla er að finna gagnvirkan skjá í stað framgrills á öðrum útgáfum Kia Niro. Vegna skorts á vélarhljóðum flauta hátalarar á framendanum á gangandi vegfarendur sem hyggjast þvera götu í veg fyrir bílinn. Til stuðnings þeirri aðvörun kvikna ljós líka.

Ýmsar tækninýjungar

Niro EV er enn á þróunarstigi en hann var skapaður í hönnunarstúdíói Kia í Suður-Kóreu. Í honum eru kynntar ýmsar nýjar tæknilausnir. Ein þeirra hlýðir handaskipunum til að hækka og lækka í hljóðkerfi, breyta stillingum loftræstingar og flakka á milli tónlistarrása.

Annar búnaður veitir farþegum í aftursætum völ á að hlusta á aðra tónlist en ökumaður og farþegar í framsætum. Þar er beitt hljóðdeyfitækni sem skiptir fólksrými bílsins í tvennt, í tvö aðskilin hljómsvæði. Þá segir Kia að bíllinn sé sá fyrsti í heiminum sem búinn sé 5G samskiptatækni.

Loks eru í Kia Niro EV hugmyndabílnum sérstakar myndavélar til andlitsgreiningar. Þekki þær ekki þann er undir stýri sest aftengir bíltölvan vélkerfi bílsins og kemur í veg fyrir að hann verði ræstur í gang.

Rafmögnuð áform Kia

Í bílnum verður 64 kílóvattstunda litíumfjölliðu rafgeymir og 150 kW rafmótor. Hann er sagður með 375 kílómetra drægi eða hið sama og til dæmis Chevrolet Bolt. Lítið er gefið upp um rafgeyminn en þó upplýst að bæta megi við 185 km viðbótardrægi með 30 mínútna stoppi á rafhleðslustöð.

Niro EV siglir í kjölfarið á rafbílnum Kia Soul EV en drægi hans er þó mun minna, eða um 180 km. Fram til ársins 2025 áformar Kia að setja á markað alls 16 gerðir rafknúinna bíla, eða tvinnbíla, tengiltvinnbíla og hreina rafbíla. Þar á meðal er og vetnisbíll sem Kia segist ætla að ýta úr vör árið 2020.

Niro hefur verið hryggjarstykkið í rafbílaþróunarstarfi Kia. Í hitteðfyrra kom Niro tvinnbíll á götuna og í fyrra tengiltvinnbíll og nú í ár mun hreini rafbíllinn hugsanlega birtast á markaði.

agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson

Höf.: Ágúst Ásgeirsson