Bakvörður dagsins er nokkuð bjartsýnn fyrir leikinn mikilvæga gegn Serbum á EM í Króatíu í kvöld. Margt jákvætt má finna í leik íslenska liðsins til þessa í mótinu.
Bakvörður dagsins er nokkuð bjartsýnn fyrir leikinn mikilvæga gegn Serbum á EM í Króatíu í kvöld. Margt jákvætt má finna í leik íslenska liðsins til þessa í mótinu. Fyrstu tveir leikirnir voru vel upp settir út frá leikskipulagi og ljóst að undirbúningsvinnan er í góðu lagi í íslenska hópnum.

Auk þess hlýtur að teljast jákvætt að nú þegar eru margir leikmenn búnir að stimpla sig inn í mótið og ná úr sér hrollinum sem getur fylgt því að fara inn á völlinn í stórmóti. Gegn Svíum var keyrt mest á mönnum sem spilað geta bæði vörn og sókn í þessum gæðaflokki enda lítið annað í boði gegn leikstíl Svía. Gekk það vel og var aldrei meira en ein skipting notuð milli varnar og sóknar. Gegn Króötum fengu yngri menn að spila mikið eins og Janus og Ómar. Bjarki Már spilaði auk þess einn hálfleik og Ágúst sínar fyrstu mínútur á stórmóti. Hinn nýliðinn, Ýmir, kom einnig við sögu.

Okkar menn ættu því að vera nokkuð ferskir þegar kemur að þriðja leik. Björgvin Páll missteig sig í upphitun fyrir leikinn gegn Króatíu en spilaði 45 mínútur. Í gærmorgun var ökklinn ekki það bólginn að menn væru svartsýnir á að hann gæti spilað. Eru það einu meiðslin í íslenska hópnum þegar þetta er skrifað en landsliðið átti þá eftir að æfa.

Stemningin í höllinni er skemmtileg og setja heimamenn sterkan svip á riðilinn. Í borginni er mikill áhugi fyrir mótinu. Heimamenn, sem maður rekst á þegar maður fer á vegan-staðina eða í jógatímana, eru vel með á nótunum varðandi EM. Virðing er borin fyrir íslenska liðinu, og íslenskum íþróttaafrekum, sem þó fölna í samanburði við afrek Króata á umliðnum árum. Er þó höfðatalan tekin með.