Friðrik Sófusson fæddist á Eskifirði 10. júní 1927. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík 4. janúar 2018.

Foreldrar Friðriks voru hjónin Oddur Sófus Eyjólfsson sjómaður, f. 20.1. 1892, d. 21.9. 1971, og Þórdís Guðjónsdóttir húsfreyja, f. 10.9. 1903, d. 22.2. 1992.

Friðrik átti þrjú systkini. Þau eru María Kristín, f. 23.6. 1923, d. 7.5. 1956, Svava, f. 3.3. 1934, maki Jóhann Björn Sveinbjörnsson, og Hákon Viðar, f. 31.3. 1936, maki Sigrún Valgeirsdóttir.

Hinn 24.6. 1950 kvæntist hann Ingunni Hlín Björgvinsdóttur, f. 24.6. 1931, sjúkraliða. Foreldrar hennar voru Björgvin Sigurjónsson verkamaður og Sigmunda Steinvör Sigmundsdóttir húsfreyja.

Friðrik og Ingunn eignuðust fimm börn: 1) Björgvin Steinar, maki Adda Björk Jónsdóttir. Dætur þeirra eru Andrea Stefanía og Karen Björk. Sambýlismaður Andreu er Karl Elinías Kristjánsson og maki Karenar er Adam Clinton Reeve. 2) Þórdís Soffía, f. 3.3. 1953, d. 28.9. 1993, maki Karel Kristjánsson, f. 9.6. 1950, d. 1.8. 2014. Börn þeirra eru Friðrik Ingi og Þórdís. Eiginkona Friðriks er Sigrún Ammendrup og sambýlismaður Þórdísar er Einar Andrésson. 3) Friðrik Marinó, maki Gunnrún Gunnarsdóttir. Börn þeirra eru Guðrún Inga Grétarsdóttir, Ingunn Hlín, Arnar Már og Gunnar. Maki Guðrúnar Ingu er Ólafur Óskar Ólafsson og sambýliskona Arnars er Dagmar Svövudóttir. 4) Guðný Hlín, sambýlismaður Karl Ómar Guðbjörnsson. Sonur Karls er Hörður Björn. 5) Friðgerður María, sambýlismaður Ófeigur Guðmundsson. Börn hennar eru Andri Einarsson, Birna Pétursdóttir og Sigurður Már Pétursson. Börn hans eru Jóhanna og Oddný. Barnabarnabörn eru níu.

Friðrik ólst upp á Eskifirði en fluttist ungur að árum til Reykjavíkur. Hann fór snemma í sveit upp á Hérað, á bæinn Bót. Fjórtán ára fór hann á sjó á bát sem hét Stjarnan. Friðrik stundaði sjómennsku í mörg ár upp frá því og starfaði einnig sem verkamaður við höfnina í Reykjavík. Árið 1964 festi Friðrik kaup á sendiferðabíl og starfaði sem sendibílstjóri til starfsloka.

Friðik hafði mjög gaman af spilamennsku og skák og tefldi í fjölda ára í Skákfélagi Reykjavíkur.

Útför Friðriks fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 16. janúar 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hvíl í friði, elsku pabbi og tengdapabbi.

Friðrik Marinó og Gunnrún.

Kæri mágur. Nú að lokinni lífsgöngu þinni er komið að kveðjustund, eftir nálega sextíu og tveggja ára vináttu okkar sem aldrei rofnaði. Það var árið 1956 sem ég smeygði mér inn í fjölskyldu þína, við góðar móttökur.

Síðan hefur samspil okkar verið hið ágætasta, bæði á vinstri kanti sparkvallar lífsins og utan hans. Margs er að minnast frá þessum árum. Oft verður mér hugsað til þrítugsafmælis þíns í fegursta veðri 10. júní 1957, þegar nokkrir söngglaðir veislugestir, þú, Björgvin tengdafaðir þinn, Villi svili þinn, Siffi mágur þinn og ég, fundum þörf fyrir að tjá okkur með söng úti í guðsgrænni náttúrunni við Höfða. Flutt voru ættjarðarljóð, með bæði þýðum rómi og drynjandi, sem sumir sögðu að heyrst hefði alla leið til Akraness.

Saga þín er saga manns sem frá unga aldri vann sín verk af samviskusemi, bæði á sjó og á landi. Þú eignaðist góða konu, Ingunni Björgvinsdóttur, sem annaðist þig af mikilli alúð þegar heilsan bilaði. Saman eignuðust þið börnin Björgvin, Þórdísi Soffíu, Friðrik Marinó, Friðgerði Maríu og Guðnýju Hlín. Líf ykkar var samt ekki eintóm sæla, því árið 1993 kvaddi sorgin dyra hjá ykkur þegar Þórdís Soffía dóttir ykkar lést, aðeins fertug að aldri. Minning hennar lifir í hjörtum fjölskyldunnar.

Eskifjörður og Eskfirðingar voru þér alltaf hugstæðir, og gaman var á góðri stundu að spjalla við þig um æsku- og unglingsár þín, því þú varst stálminnugur. Svava systir þín minnist þín sem hjartahlýs bróður sem sýndi Maríu systur ykkar fádæma umhyggju í veikindum hennar. Hún lést í maí 1956 aðeins 33 ára gömul.

Á þínum yngri árum þegar von var á þér heim á Eskifjörð á vorin að lokinni vetrarvertíð, ríkti alltaf mikil tilhlökkun hjá yngri systkinum þínum, þeim Svövu og Hákoni, sem þótti mjög vænt um stóra bróður, sem alltaf kom líka færandi hendi.

Þar sem við gengum samstiga undir fána sem ber sama lit og blóðið í æðum okkar, baðstu alltaf um að fá að tala við Jóa, þegar þú og Svava systir þín spjölluðu saman í síma. Þá voru málin rædd. Mál sem valdhafar voru með á döfinni, en hvorugum okkar geðjaðist að.

Kæri Frissi, bróðir, mágur og vinur. Að lokum þökkum við samfylgd þína, og allt sem þú hefur gefið fjölskyldum okkar. Farðu í friði yfir í tilveru þar sem tíminn er týndur og engan sársauka er að finna.

Ingunni og fjölskyldum þínum sendum við samúðarkveðjur.

Svava, Jóhann og fjölskyldur.