[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Enska staðarblaðið Bristol Post sagði í gær að rússneska knattspyrnufélagið Rostov, sem Sverrir Ingi Ingason og Björn Bergmann Sigurðarson leika með, væri á ný að reyna að fá Hörð Björgvin Magnússon til liðs við sig frá Bristol City.

*Enska staðarblaðið Bristol Post sagði í gær að rússneska knattspyrnufélagið Rostov, sem Sverrir Ingi Ingason og Björn Bergmann Sigurðarson leika með, væri á ný að reyna að fá Hörð Björgvin Magnússon til liðs við sig frá Bristol City. Litlu munaði að hann færi til Rostov í láni í lok ágúst en þá tókst ekki að ganga frá pappírum í tæka tíð áður en lokað var fyrir félagaskiptin. Blaðið sagði ennfremur að ítalska A-deildarfélagið SPAL hefði líka sýnt Herði áhuga en hann lék áður á Ítalíu þar sem hann var í röðum Juventus og var lánaður til Spezia og Cesena.

*Enska knattspyrnufélagið Stoke City réð í gær Paul Lambert , fyrrverandi landsliðsmann Skotlands, sem knattspyrnustjóra í staðinn fyrir Mark Hughes sem var sagt upp 6. janúar. Lambert er 48 ára og spilaði 40 landsleiki fyrir Skota á sínum tíma en hann var lengst leikmaður Celtic. Hann stýrði síðast Wolves, þar sem hann hætti störfum eftir síðasta tímabil, og áður Blackburn, Aston Villa, Norwich, Colchester, Wycombe og skoska liðinu Livingston.

* Ryan Giggs , fyrrverandi leikmaður Manchester United, var í gær ráðinn landsliðsþjálfari Wales í knattspyrnu. Hann tekur við af Chris Coleman sem hætti í nóvember og tók við sem stjóri Sunderland. Giggs lék 64 landsleiki fyrir Wales og spilaði allan ferilinn, 24 ár, með Manchester United en hætti árið 2014 og var síðan aðstoðarstjóri þar næstu tvö ár á eftir en hætti þegar José Mourinho kom til félagsins.