Frá tilraunum Nissan með nýja tækni er gera mun bílum kleift að túlka heilastarfsemi ökumanns og endurmeta samspil bíls og bílstjóra.
Frá tilraunum Nissan með nýja tækni er gera mun bílum kleift að túlka heilastarfsemi ökumanns og endurmeta samspil bíls og bílstjóra. — Ljósmynd/Nissan
Margar nýjungar er varða bíla og aðra ferðamáta hafa verið kynntar til leiks á rafeindatækjasýningunni CES í Las Vegas á undanförnum árum.

Margar nýjungar er varða bíla og aðra ferðamáta hafa verið kynntar til leiks á rafeindatækjasýningunni CES í Las Vegas á undanförnum árum. Nissan steig í ár skrefi lengra fram á við með tæknibúnaði sem er þeirrar náttúru að geta túlkað heilabylgjur og sagt á grundvelli þeirra fyrir um aðgerðir ökumanns strax þar á eftir.

Tæknina nefnir Nissan því ófrumlega heiti „frá heila til bíls“, eða B2V (Brain to Vehicle), en þetta mun vera í fyrsta sinn sem mælingar sem þessar hafa verið reyndar á ökumönnum.

Bregst við á undan bílstjóra

Með heljarins hjálmbrynju á höfðinu sem mælir heilastarfsemi ökumannsins getur kerfið þar að baki numið hvenær hann er við það að framkvæma hreyfingu, grípa til aðgerða. Greini tæknin til að mynda að bílstjórinn sé að búa sig undir að beygja eða nema staðar býr tæknibúnaðurinn sig undir að aðstoða hann við viðkomandi aðgerðir.

Nissan segir þann kost vera viðþessa tækni að hún efli viðbragðsflýti bílstjórans þó svo hann verði jafnvel ekkert var við það sjálfur.

Tæknin er einnig sögð geta greint hvort ökumanni líður óþægilega undir stýri og hjálpað til við að skapa streituminna umhverfi fyrir hann. Til að gera honum lífið léttara getur tæknibúnaðurinn til dæmis breytt ökustíl bílsins þegar hann er í sjálfakstursham eða aukið raunveruleikaskynjan bílstjórans.

Rannsóknarstjóri nýtækni hjá Nissan, Lucian Gheorghe, segir japanska bílsmiðinn vera að búa sig undir framtíð þar sem tæki til mælingar á heilastarfsemi verður hluti af daglegu lífi fólks.

agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson