Börn í vanda „Þetta eru börn sem meiða aðra misoft og misalvarlega. Þetta er breiður hópur,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri hjá borginni.
Börn í vanda „Þetta eru börn sem meiða aðra misoft og misalvarlega. Þetta er breiður hópur,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri hjá borginni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Um 130 nemendur í grunnskólum Reykjavíkur sýna samnemendum sínum og starfsfólki skólanna ógnandi hegðun og valda töluverðri truflun á skólastarfi.

Baksvið

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Um 130 nemendur í grunnskólum Reykjavíkur sýna samnemendum sínum og starfsfólki skólanna ógnandi hegðun og valda töluverðri truflun á skólastarfi. Þau úrræði, sem hingað til hafa verið í boði fyrir þennan hóp hafa ekki dugað sem skyldi, en nú hefur verið ákveðið að teymi fagfólks taki fljótlega til starfa og er því ætlað að fara á milli skólanna og vinna með þessi börn.

„Hugmyndin er að skipta borginni upp í tvö svæði og í hvoru þeirra verður sex manna teymi sem fer inn í skólana og vinnur með nemandanum í hans umhverfi,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs borgarinnar. „Teymið mun laga sig að aðstæðum barnsins.“

Að sögn Helga verða m.a. sálfræðingar, félagsráðgjafar, atferlisfræðingar og þroskaþjálfar í teymunum. Auk þess að vinna með einstökum nemendum er teyminu ætlað að veita kennurum og öðru starfsfólki leiðsögn. Hann segir að ef inngrip teymisins dugi ekki til, geti þurft að senda barnið í aðrar aðstæður ýmist utan skólans eða innan hans og nefnir þar sem dæmi Brúarskóla.

Þau ógna og trufla

Síðasta vor var gerð könnun meðal skólastjóra í grunnskólum Reykjavíkur og þar var spurt hvort í skólanum væru nemendur sem sýndu mikla ógnandi hegðun, einkum líkamlega, og hvort þeir yllu verulegri truflun á skólastarfi. Niðurstaðan var að í þeim hópi eru samtals um 130 nemendur í 1.-10. bekk og í kjölfarið var skipaður starfshópur um skipulag úrræða fyrir þennan hóp grunnskólanemenda. Tillögur hópsins voru kynntar á fundi skóla- og frísundaráðs Reykjavíkur í síðustu viku og þar var samþykkt að vísa þeim til umsagnar skólastjóra- og kennarafélaga í borginni og skólaþjónustu velferðarsviðs.

„Þetta er reyndar mjög mismunandi eftir skólum. Í sumum þeirra eru 4-5 nemendur sem falla í þennan hóp og öðrum skólum er enginn,“ segir Helgi sem ekki vildi tilgreina hvernig skiptingin væri á milli skóla. Spurður um kynjahlutföll í þessum 130 barna hópi segir hann þau ekki liggja fyrir, en segist telja að í honum séu ívið fleiri drengir en stúlkur.

Ýmsar ástæður hegðunar

Helgi segir að ýmsar ástæður séu fyrir þessari hegðun nemendanna. Hann segir að sumir séu með greiningar eins og t.d. ADHD og jafnvel fleiri en eina. Aðrir eru ekki með greiningu, en greining er ekki forsendan fyrir því að njóta þjónustu farteymisins.

„Teymið mun vinna með þau börn sem bregðast við ýmsum aðstæðum með truflandi hegðun og/eða líkamlegri áreitni. Þegar ég var í grunnskóla, sem var reyndar fyrir allnokkru, voru þessi börn kölluð hrekkjusvín. En þetta eru einfaldlega börn sem meiða aðra misoft og misalvarlega. Þetta er breiður hópur; allt frá því að vera með einstakar ýtingar og hrindingar og í það að slá og sparka nánast daglega.“

Tími kominn á nýja nálgun

Spurður hvort áður hafi verið unnið á þennan hátt innan skólakerfisins segir Helgi svo ekki vera en þetta sé rökrétt nálgun á þennan vanda sem verði sífellt umfangsmeiri. Tími sé kominn til að reyna nýjar leiðir.

„Í staðinn fyrir að setja börn í einhver sérstök úrræði verður það alltaf að vera fyrsti valkostur að vinna með barnið í daglegu umhverfi þess, Þar eru þeir sem þekkja barnið best, þar er forsaga sem getur varpað ljósi á aðstæður og fleira. Þetta vinnulag hefur verið að þróast innan barnaverndarinnar og núna erum við að taka það upp,“ segir Helgi.

1% nemenda
» Samkvæmt mati skólastjóra í Reykjavík þurfa um 130 nemendur sem beita ofbeldi og trufla skólastarf, á þjónustu sérhæfðs teymis að halda.
» Þetta er um 1% nemenda í grunnskólum borgarinnar.
» Borginni verður skipt í tvö svæði og mun sex manna teymi fagfólks sinna nemendum á hvoru svæði fyrir sig.