Yfir köldustu og myrkustu mánuði ársins, meira að segja á versta degi ársins eins og dagurinn í gær var víst nefndur, er alltaf hægt að finna sér eitthvað sem gleður. Eitthvað sem yljar manni um hjartaræturnar, veitir von og dregur jafnvel fram bros.

Yfir köldustu og myrkustu mánuði ársins, meira að segja á versta degi ársins eins og dagurinn í gær var víst nefndur, er alltaf hægt að finna sér eitthvað sem gleður. Eitthvað sem yljar manni um hjartaræturnar, veitir von og dregur jafnvel fram bros. Eða alla vega smáglott. Víkverji er ekki ónæmur fyrir áhrifum skammdegisins og tekur því öllum litlum gleðigjöfum fagnandi. Þeir geta verið alls konar og alls kyns; óvæntur liðstyrkur til uppáhaldsfótboltaliðsins, góður matur í mötuneytinu, skemmtilegt uppátæki barnanna eða bara gott lag í útvarpinu.

Lífið væri óneitanlega mun fátæklegra án tónlistar. Neysla hennar í dag er þó allt öðruvísi en margir áttu áður fyrr að venjast. Á sínum sokkabandsárum gat Víkverji leyft sér að sökkva sér niður í hverja plötuna á fætur annarri í rólegheitum í sófanum heima. Núna er búið að skilyrða hlustun að mestu við misgóð heyrnartól og streymisþjónustur með tilheyrandi skorti á gæðum.

Fátt er þó svo með öllu illt að ei boði gott og í staðinn hefur Víkverji náð að búa sér til gæðastundir á tíðum ferðum sínum í bílnum. Reyndar man Víkverji sjaldnast eftir því að undirbúa sig og finna til plötur eða hlaðvörp til að hlusta á en það gefst þó alla vega friður til að hlusta á eitthvað. Og það var það sem Víkverji gerði í vikunni. Fyrir valinu varð Gullbylgjan, stöð þar sem Víkverji hefur getað sótt sér gleði í gamla slagara sem reyndar tilheyra kynslóðinni fyrir ofan. Gömlu fólki.

Það er því nokkuð vægt til orða tekið að segja að komið hafi á Víkverja þegar um bílinn ómaði lag sem er nú ekkert svo langt síðan kom út. Alla vega í minningunni. Víkverja finnst hreint ekkert svo langt síðan Eyfi var heitasta poppstjarnan og dældi út smellunum. En það er sennilegast aldarfjórðungur og nú var kallanginn bara kominn á Gullbylgjuna. Og Víkverji með honum.