Vatnsveitan Hér sést dælustöð Veitna í Heiðmörkinni skammt ofan við Reykjavík.
Vatnsveitan Hér sést dælustöð Veitna í Heiðmörkinni skammt ofan við Reykjavík. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson Höskuldur Daði Magnússon Erla María Markúsdóttir Aukið magn jarðvegsgerla hefur greinst í neysluvatni höfuðborgarbúa og mælst er til þess að í flestum hverfum borgarinnar sjóði fólk með veikt ónæmiskerfi, foreldrar ungbarna,...

Sigurður Bogi Sævarsson

Höskuldur Daði Magnússon

Erla María Markúsdóttir

Aukið magn jarðvegsgerla hefur greinst í neysluvatni höfuðborgarbúa og mælst er til þess að í flestum hverfum borgarinnar sjóði fólk með veikt ónæmiskerfi, foreldrar ungbarna, aldraðir eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma allt vatn sem það drekkur. Þetta gerist vegna hláku að undanförnu í kjölfar langs frostakafla. Hefur yfirborðsvatnið þá borist niður í grunnvatn sem svo er tekið upp í gegnum borholur á vatnsverndarsvæðinu. Niðurstöður mælinga úr sýnum sem starfsfólk Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur tók úr neysluvatni fyrir helgina lágu fyrir í gær og staðfestu þær að gerlamagnið er helmingi meira en viðmið í reglugerð segir til um.

Mengun yfir mörkum

„Þetta er frekar lítil mengun, en yfir mörkum samkvæmt íslensku neysluvatnsreglugerðinni, og okkur þótti rétt að láta almenning vita, eins og rétt er,“ sagði Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, í samtali við mbl.is

Fólk lítur þó misjöfnum augum á málið og á Landspítalanum er staðan talin alvarleg. Í tilkynningu frá sýkingavarnadeild sjúkrahússins er því beint til starfsfólks að sjóða allt neysluvatn fyrir jafnt sjúklinga sem starfsfólk „þar til þessu neyðarástandi hefur verið aflétt“. Einfaldasta leiðin sé að nota hraðsuðukatla á öllum deildum, hella í vatnskönnur og kæla.

Sýkingavarnadeild er í nánu samstarfi við sóttvarnalækni hjá embætti landlæknis og heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Er þess jafnframt getið að Landspítala hafi ekki verið tilkynnt sérstaklega um málið og stjórnendum hafi borist fyrstu fréttir í fjölmiðlum.

Holur teknar úr notkun

Fyrir helgina tók starfsfólk Veitna sýni úr borholum, eins og jafnan er gert til dæmis í hlákutíð. Samkvæmt útkomunni sem þá fékkst voru nokkrar holur teknar úr notkun enda aukið magn jarðvegsgerla í vatninu. Náið hefur verið fylgst með ástandi vatnsins síðan og daglegar mælingar gerðar. „Núna bíðum við eftir næstu niðurstöðum úr sýnum og mælingum og vonum að þetta sé afstaðið,“ sagði Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingastjóri Veitna, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Vegna mengunar í vatninu mælir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur í varúðarskyni með því að neysluvatn sé soðið ef í hlut á fólk með veikt ónæmiskerfi, ungbörn, aldraðir eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Þetta á við um öll hverfi borgarinnar og Seltjarnarnes vestan Elliðaáa auk Bryggjuhverfis, Grafarvogs utan Húsahverfis, Ártúnshöfða og Kjalarness. „Ábending okkar til fólks um að sjóða neysluvatnið er fyrst og fremst varúðarráðstöfun,“ sagði Ólöf Snæhólm.

Hjá Veitum gildir sú regla að ef gerlamagn í borholu mælist yfir mörkum er vatnstöku úr henni hætt. „En einmitt núna er sú staða komin upp að búið er að taka það margar holur úr rekstri Veitna vegna fjölda jarðvegsgerla að ekki er hægt að anna vatnsþörf viðskiptavina ef fleiri holur yrðu teknar úr notkun eða þær fjórar sem nú eru ekki virkar. Ef kæmi til dæmis upp stórbruni í borginni og vantaði vatn inn á kerfið gætum við þurft að grípa til aðgerða,“ sagði Ólöf Snæhólm.

Reykvíkingar eiga heimtingu á að fá greinargóðar skýringar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, sagðist í samtali við mbl.is vera kominn með gögn víðvíkjandi málinu og myndi kynna sér þau vel. Brugðist yrði við með viðeigandi hætti.

Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri, sem sækist eftir að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum, segir í samtali við Morgunblaðið að Reykvíkingar eigi heimtingu á að fá greinargóðar skýringar á því hvernig þetta gat gerst. ,,Getur verið að fyrirbyggjandi viðhaldi hafi verið ábótavant? Hver ber ábyrgð á þessu?“ segir hann. Bæði sé um að ræða mengað neysluvatn og mögulegan vatnsskort. Orkuveita Reykjavíkur hafi unnið samkvæmt „plani“ um aðhald og vera kunni að skortur á fyrirbyggjandi viðhaldi kosti sitt á endanum, að mati Eyþórs.

Ljóst má vera að hjá matvælavinnslufyrirtækjum getur mengun í vatni haft mikil áhrif á starfsemina. „Mitt fyrsta verk í fyrramálið verður að kynna mér málsatvik. En það er alveg ljóst að fyrr munum við loka en senda mengaða vöru frá okkur,“ sagði Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.