[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Áætlanir gera ráð fyrir að í ár verði seld yfir 20 þúsund tonn eða um 120 milljón dósir af skyri víða um heim.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Áætlanir gera ráð fyrir að í ár verði seld yfir 20 þúsund tonn eða um 120 milljón dósir af skyri víða um heim. Salan hefur aukist með hverju árinu og ýmislegt er í farvatninu, en skyr er nú markaðssett undir alþjóðlega vörumerkinu ÍSEY skyr. Mjólkursamsalan reiknar með að vinna í 27 markaðslöndum á þessu ári, að sögn Jóns Axels Péturssonar, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs MS.

Finnland er það land þar sem mest er selt af skyri og var vöxturinn þar ævintýralegur fyrstu árin. Alls voru seld um 4.900 tonn af skyri í Finnlandi í fyrra í 30 milljón dósum fyrir tæplega tvo milljarða króna. Miðað við sölu á hvern íbúa er Ísland þó enn í efsta sæti með um 2.800 tonn.

Tollkvótar Evrópusambandsins setja útflutningi verulegar skorður, en nú er þakið 390 tonn en mun á næstu fjórum árum hækka í 4.000 tonn. Kvótinn hefur til þessa einkum verið nýttur í útflutning til Finnlands og Bretlands, en hann hefur ekki dugað til og hefur skyr einnig verið framleitt í Danmörku fyrir þessa markaði. Árið 2017 var fyrsta heila árið í sölu og markaðssetningu á skyri í Bretlandi og Sviss og var árangur umfram áætlanir.

Óvissa í Bretlandi

Á miðju þessu ári er reiknað með að tollkvótar á skyri verði auknir í 900 tonn samkvæmt samningi Íslands og ESB, en á móti verði m.a. leyfður innflutningur á tollfrjálsum ostum frá ESB. Í ljósi óvissunnar vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu ákvað MS hins vegar að hefja viðræður við mjólkurbú í Wales um framleiðslu á skyri og er reiknað með að sú framleiðsla hefjist á miðju þessu ári.

„Þetta er gert til að anna framtíðar-eftirspurn eftir ÍSEY-skyri í Bretlandi og til að taka út þá áhættu sem er samfara útgöngu Breta úr Evrópusambandinu en við það mun tollkvótinn inn á ESB ekki nýtast,“ segir Jón Axel. „Hugmyndin var alltaf að nota þennan væntanlega 4.000 tonna kvóta sem koma átti á næstu fjórum árum til að selja íslenskt skyr í Bretlandi sem var hluti af ESB þegar þessir tvíhliða tollasamningar voru gerðir. Nú er óvíst hvort þessi kvóti muni ganga í Bretlandi í framtíðinni vegna útgöngu Breta úr ESB.

Þarna hefur því á samningstímanum um þessa tvíhliða tollasamninga Íslands og ESB orðið ákveðinn forsendubrestur þegar markaður með 60 milljón neytendur verður ekki lengur hluti af ESB. Vegna fjarlægðarinnar frá Íslandi og vegna þess hversu mjólkurmarkaðurinn þar er móttækilegur fyrir skyri var Bretland alltaf hugsað sem aðal-útflutningsmarkaður fyrir þennan 4.000 tonna framtíðarkvóta sem átti að vera kominn að fullu í gildi árið 2022. Nú hefur orðið breyting á því.“

Aukinn kvóti getur nýst víða

Í Finnlandi er sama fyrirkomulag og í öðrum löndum ESB, en markaðirnir í Sviss og Færeyjum eru ekki háðir tollkvótum ESB. Aukinn tollkvóti ESB getur mögulega nýst í Finnlandi og fjölmörgum öðrum Evrópulöndum þar sem undirbúningsstarf er nú þegar í gangi.

Á fjarlægari mörkuðum þar sem ekki er hægt að selja skyr frá Íslandi er stefna MS að gera ÍSEY-vörumerkja- og framleiðsluleyfissamninga. Undirbúningur og samningaviðræður um slíka samninga eru nú í fullum gangi í stórum markaðslöndum eins og Rússlandi, Kína og Japan. Þegar eru í gildi slíkir samningar í 13 löndum.