Á tónleikastað Tappi tíkarrass við Hard Rock Café þar sem hljómsveitin mun rokka í kvöld.
Á tónleikastað Tappi tíkarrass við Hard Rock Café þar sem hljómsveitin mun rokka í kvöld. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Pönkrokksveitin Tappi tíkarrass var endurlífguð fyrir þremur árum eftir að hafa legið í dvala frá árinu 1983.

Pönkrokksveitin Tappi tíkarrass var endurlífguð fyrir þremur árum eftir að hafa legið í dvala frá árinu 1983. Endurlífgunin heppnaðist svo vel að í fyrra kom út ný 14 laga breiðskífa, samnefnd sveitinni, og jafnframt sú fyrsta með Eyþóri Arnalds í hlutverki söngvara.

Hljómsveitin var stofnuð árið 1981 og gekk Björk Guðmundsdóttir nokkru síðar til liðs við hana. Björk er nú fjarri góðu gamni og verður því ekki með á tónleikum hljómsveitarinnar í kjallara Hard Rock Café í kvöld kl. 22. Sérstakur gestur Tappans verður hins vegar Mike Pollock sem fær að þenja raddböndin.

Fögnuðu fimmtugu

Auk Eyþórs skipa hljómsveitina bassaleikarinn Jakob Smári, gítarleikarinn Eyjólfur Jóhannsson og trymbillinn Guðmundur Þór Gunnarsson. Jakob segir þá Eyþór og Eyjólf hafa fagnað því að vera nýorðnir fimmtugir yfir kvöldverði fyrir þremur árum. Kviknaði þá sú hugmynd að endurvekja Tappann.

„Við sömdum svo mörg lög þegar hljómsveitin var að byrja, á fyrstu mánuðunum og áður en Björk gekk til liðs við okkur. Hugmyndin var að athuga hvort við myndum eitthvað af þeim og spila þau okkur til skemmtunar. Við mundum ótrúlega mörg lög og fórum að hittast reglulega. Þegar við vorum búnir að rifja upp langaði okkur að gera eitthvað nýtt þannig að við fórum að semja nýtt efni. Svo þróaðist þetta og við fórum að taka upp og enduðum með 14 lög,“ segir Jakob. Lögin rötuðu á fyrrnefnda plötu, þar af 10 ný.

„Þetta er aðeins rokkaðra,“ svarar Jakob þegar hann er spurður að því hvort nýju lögin séu í sama anda og gömlu Tappa-lögin. Textarnir hafi lítið breyst en þó kannski örlítið. „Þeir endurspegla það sem menn eru að gera í daglegu lífi. Nú er t.d. eitt lag sem heitir „Spak“. Spak er nýyrði yfir bakspik og það er náttúrlega vandamál sem menn eru að glíma við í dag,“ segir Jakob kíminn. helgisnaer@mbl.is