Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Eftir Kjartan Magnússon: "Ég vil að borgin tryggi gott framboð af íbúðum á hagstæðu verði til einstaklinga og fjölskyldna sem vilja búa í eigin húsnæði."

Ófremdarástand ríkir í húsnæðismálum í Reykjavík. Undir stjórn Samfylkingarinnar og annarra vinstri flokka hefur sú stefna verið mótuð að framboð lóða eigi að vera takmarkað og íbúðaverð hátt.

Þetta hefur þær afleiðingar í för með sér að ungt fólk á í miklum vandræðum með að eignast eigið húsnæði og neyðist annað hvort til að búa hjá foreldrum sínum óeðlilega lengi eða leigja íbúð á háu verði. Vegna margra ára aðgerðaleysis meirihluta borgarstjórnar í húsnæðismálum er uppsöfnuð þörf orðin svo mikil að framboð nýrra íbúða annar engan veginn eftirspurn. Verð á nýjum íbúðum miðsvæðis er svo hátt að það er yfirleitt ekki á færi venjulegs launafólks að ráða við það.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ber mikla ábyrgð á ástandi húsnæðismála í Reykjavík. Þegar hann var formaður skipulagsráðs borgarinnar á ofanverðum valdatíma R-listans var húsnæðisverð stórhækkað með handafli, þ.e. með lóðaskorti annars vegar og uppboðum á lóðum hins vegar. Ótrúlegt er að helsti hugmyndafræðingur þeirrar húsnæðisstefnu, sem ungt fólk í Reykjavík sýpur nú seyðið af, telji sig jafnframt vera rétta manninn til að leysa vandann.

Leysum húsnæðisvandann

Reykjavík á mikið landsvæði sem auðvelt er að breyta í lóðir með skömmum fyrirvara. Á valdatíma Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn lagði hann metnað sinn í að tryggja fjölbreytilegt framboð lóða á góðu verði. Áhersla var þá vissulega lögð á þéttingu byggðar en á sama tíma var almenningi gefinn kostur á að kaupa ódýrar lóðir í nýjum hverfum. Margir byggðu sjálfir eða keyptu íbúðir í fjölbýlishúsum sem reist voru á vegum byggingarsamvinnufélaga án hagnaðarsjónarmiða. Flestum var þannig gert kleift að eignast eigið húsnæði. Ýmsum hentaði betur að leigja og var leiga þá tiltölulega lág miðað við það sem nú er, enda helst hún í hendur við húsnæðisverð.

Úrbótatillaga felld

Á fyrsta borgarstjórnarfundi nýs árs flutti ég tillögu fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, um að hafist yrði handa við skipulagningu nýs hverfis í Úlfarsárdal í því skyni að draga úr lóðaskorti í Reykjavík. Ég vil að borgin tryggi gott framboð af íbúðum á hagstæðu verði til einstaklinga sem vilja festa kaup á fyrstu íbúð, t.d. með samstarfi við félög og samtök sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.

Gagnvart núverandi íbúum Úlfarsárdals er einnig mikilvægt að borgarstjórn standi við áður gefin fyrirheit um uppbyggingu í hverfinu svo það verði sjálfbært varðandi margvíslega þjónustu. Í skipulagsvinnu vegna nýs hverfis er því brýnt að eiga gott samstarf við íbúasamtökin í Grafarholti og Úlfarsárdal sem og Knattspyrnufélagið Fram sem hefur tekið að sér að reka íþróttastarfsemi í þessum hverfum.

Borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna felldi umrædda tillögu og ítrekaði þannig húsnæðisstefnu sína sem byggist á lóðaskorti og háu íbúðaverði.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. kjartan@reykjavik.is

Höf.: Kjartan Magnússon