Axel Helgason
Axel Helgason
Eftir Axel Helgason: "Það er hins vegar mismunun að smábátaeigendum er gert að borga fimmfalda afkomu sína 2015 til baka."

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, skrifar grein í Morgunblaðið síðastliðinn laugardag, að því er virðist vegna jákvæðra undirtekta ráðamanna við tillögu sem Landssamband smábátaeigenda lagði fram um þrepaskiptingu veiðigjalds. Þar er lögð áhersla á að bregðast við vanda smárra og meðalstórra útgerða með það að meginmarkmiði að viðhalda fjölbreytileika í útgerð og stöðva frekari samþjöppun aflaheimilda.

Heiðrún leggur upp með að það felist mismunun í því að „stærri greiði enn meira en hinir smærri minna“ og nefnir það að tengja veiðigjald við afkomu „felst alvarleg hugsanavilla“.

Veiðigjald á botnfisk vegna yfirstandandi fiskveiðiárs er reiknað út frá afkomu veiða 2015 og nemur það þriðjungi af hagnaðinum, sem var samkvæmt Hagstofunni rúmir 28 milljarðar. Af þessum 28 milljörðum voru smábátar undir 10 brt að stærð með 71 milljón í hagnað. Þessi stærðarflokkur greiðir á yfirstandandi fiskveiðiári 350 milljónir í veiðigjald að teknu tilliti til afslátta, sem allir njóta af fyrstu 9 milljónum.

Í ljósi þess að veiðigjald er lagt á sem hlutfall af afkomu er kostulegt að telja að verið sé að mismuna fyrirtækjum þegar lagt er til að þeir sem skiluðu góðri afkomu greiði í samræmi við afkomuna. Það er hins vegar mismunun að smábátaeigendum er gert að borga fimmfalda afkomu sína 2015 til baka vegna þess hvernig stórútgerðin hefur forskot í arðsemi út frá stærð og með því t.d. að geta með kjarasamningum látið sjómenn borga fyrir nýsmíði, olíu á skipin og skertan aflahlut við löndun til eigin vinnslu.

170 milljóna lækkun strax

Halda þarf til haga að tíu prósent af veiðigjaldinu í ár eru tilkomin vegna hagnaðar af vinnslu afla á vinnsluskipum og önnur tvö prósent eru vegna hagnaðar í landvinnslu. Smábátaeigendur munu að óbreyttu greiða rúmar 1.400 milljónir í veiðigjald á yfirstandandi fiskveiðiári. Um 170 milljónir af þeirri upphæð eru vegna vinnslu sem þeir eiga enga aðild að og það hljóta allir að átta sig á að þetta verður að leiðrétta strax.

Heiðrún nefnir að „Á síðastliðnu fiskveiðiári greiddu 20 stærstu aðilar í sjávarútvegi um 73% heildarfjárhæðar veiðigjalds, en ríflega 980 aðilar greiddu um 27% heildarfjárhæðarinnar.“

Rétt er að benda á að 20 stærstu aðilarnir eru með um 74% aflaheimilda í þorskígildum 2015 og því skýtur það skökku við að þeir greiði ekki til samfélagsins í samræmi við magn aflaheimilda.

Það að 20 aðilar hafi yfir að ráða 74% aflaheimilda er gott fyrir stjórnmálamenn að hafa í huga þegar umræða um veiðigjaldið og samþjöppun í sjávarútvegi fer af stað á Alþingi.

Stórútgerðin hirðir afsláttinn

Varðandi talnaæfingar Heiðrúnar um 15 og 20% afslátt á veiðigjaldi á fyrstu 9 milljónum hvers gjaldenda, þá er gott að halda til haga að efstu 100 gjaldendur veiðigjalds fá samtals 84 milljónir í afslátt vegna þessa afsláttar, eða um 840.000 kr. á fyrirtæki. Hinir 890 gjaldendurnir eru samtals með 82 milljónir í afslátt, eða um 92.000 kr. á fyrirtæki.

Og áfram um afslætti. Á síðasta fiskveiðiári fengu efstu 20 gjaldendurnir 452 milljónir í afslátt vegna lántöku, eða 22,6 milljónir á fyrirtæki og 100 efstu fengu samtals 895 milljónir í samskonar afslátt, eða um 9 milljónir á fyrirtæki. Hinir 890 voru með samtals 31,5 milljónir í þennan afslátt, eða um 35.000 kr. að meðaltali á fyrirtæki.

Heiðrún nefnir að „ef tryggja á þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar, eins og lög og nýr stjórnarsáttmáli kveða á um, verður því markmiði aldrei náð ef umbunað er sérstaklega fyrir lakari rekstur í formi sérmeðferðar þegar kemur að greiðslu veiðigjalds“.

Bagalegt er að Heiðrún virðist ekki átta sig á ólíku umhverfi og rekstrarforsendum. Því er áhugavert að velta fyrir sér hve stór hluti hagnaðar við veiðar 2015 er vegna eftirtalinna þátta sem hvorki eiga við um hefðbundna útgerð smábáta né stóran hluta hennar umbjóðenda:

Bakfærð virðisrýrnun aflaheimilda: gengishagnaður, gjaldeyrisbrask, söluhagnaður eigna, vaxtakjör í evrum upp á 0-0,5%, þátttaka sjómanna í nýsmíði. Kjarasamningar þar sem sjómenn borga olíukostnað og þurfa að sætta sig við að gert sé upp við þá á fiskverði sem er 20-25% lægra en það verð sem fæst á fiskmarkaði, og fleira.

Framtíð smábátaútgerðar?

Það er algjörlega ljóst að álögur á smábátaeigendur í formi veiðigjalda munu verða til þess að margir munu hætta útgerð og selja frá sér aflaheimildir. Þessi þróun er hafin og virðist vera að stærstur hluti þeirra aflaheimilda sem seldar hafa verið undanfarið, hafi farið til stærri útgerða sem einnig eru í aflamarki. Þessa þróun þarf að stöðva og ein leið til þess er að stjórnmálamenn taki umræðuna um hvort það sé vilji til að stöðva samþjöppun í greininni og að ein tegund útgerðar verði ekki látin borga auðlindagjald út frá forsendum sem ekki eiga við.

Höfundur er formaður Landssambands smábátaeigenda. axel@smabatar.is