Sr. Hans Jakob Jónsson, prestur í Hallgrímskirkju, fæddist á Hofi í Álftafirði 20.1. 1904. Foreldrar hans voru Jón Finnsson, prestur á Hofi í Álftafirði og Djúpavogi, og Sigríður Hansína Hansdóttir Beck húsfreyja.

Sr. Hans Jakob Jónsson, prestur í Hallgrímskirkju, fæddist á Hofi í Álftafirði 20.1. 1904. Foreldrar hans voru Jón Finnsson, prestur á Hofi í Álftafirði og Djúpavogi, og Sigríður Hansína Hansdóttir Beck húsfreyja.

Bróðir Jakobs var Eysteinn Jónsson, alþingismaður, ráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Kona sr. Jakobs var Þóra Einarsdóttir húsfreyja. Börn þeirra: Guðrún Sigríður, hjúkrunarfræðingur og Íransfræðingur; Svava, rithöfundur og alþingismaður.; Jökull, eitt helsta leikritaskáld þjóðarinnar á síðustu öld: dr. Þór, fyrrverandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, og Jón Einar héraðsdómslögmaður.

Sr. Jakob varð stúdent frá MR 1924, lauk embættisprófi í guðfræði við Háskóla Íslands 1928, var við framhaldsnám í sálfræði við Winnipeg-háskóla 1934-35, stundaði nám í kennimannlegri guðfræði og nýjatestamentisfræðum við Háskólann í Lundi 1959-60 og lauk lísentíatsprófi í guðfræði við háskólann í Lundi 1961 og varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands 1965.

Sr. Jakob var aðstoðarprestur hjá föður sínum á Djúpavogi 1928, sóknarprestur í Norðfjarðarprestakalli 1929-35, prestur í Kanada 1935-40 og í Hallgrímskirkjuprestakalli 1941-1974. Hann var skólastjóri við gagnfræðaskólann í Neskaupstað 1931-34, stundakennari við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1941-42 og MR 1944-50. Hann var formaður Prestafélags Íslands í áratug og gegndi auk þess margvíslegum öðrum trúnaðarstörfum.

Sr. Jakob var í röð lærðustu kennimanna kirkjunnar, virtur og vinsæll sóknarprestur. Hann var afkastamikill rithöfundur en eftir hann liggur fjöldi rita um guðfræði og um ýmis álitamál almennings á því sviði. Hann sendi einnig frá sér nokkur leikrit og var afburða kennari og kennimaður, skýr í hugsun, skemmtilegur, hógvær og alþýðlegur í allri framsetningu.

Sr. Jakob lést 17.6. 1989.