Ágústína Berg Þorsteinsdóttir fæddist 18. apríl 1929. Hún andaðist 30. desember 2017

Útförin fór fram 15. janúar 2018.

Vegna mistaka birtist röng útgáfa greinarinnar í Morgunblaðinu 17. janúar.

Elsku tengdamamma, nú þegar leiðir okkar skilur er mér efst í huga þakklæti til þín. Ég vil þakka þér samfylgd þína á lífsins leið þar sem vinátta þín hafa varðað veginn. Segja má að lífið sé dans á þyrnum, einstaka sinnum rekst maður á rós eins og þig. Lífsleikni þín hefur verið mér nokkurs konar andleg leiðsögn um hvernig skuli bregðast við þegar upp koma erfiðar aðstæður. Ég kalla fram ímynd þína um hvernig þú brást við á sorgarstundum. Þó svo vindurinn hafi blásið í fangið á lífsins leið þá brá aldrei skugga á jákvæðni þína, hjá þér var þetta spurning um hugarfar; þú sást það fallega og góða í öllu sem að höndum bar. Þegar heilsan brast varstu ekki tilbúin að láta undan og persónuleiki þinn sem gleðigjafi beygði í engu af.

Vinátta þín var mér ótrúlega dýrmæt, þú varst full af krafti, gleði og kærleika og öllum leið vel í návist þinni, eftir að hafa átt stund með þér varð ég betri maður.

Þegar einhver átti um sárt að binda réttir þú fram kærleiksríka hjálparhönd og gerðir á þann hátt lífsgöngu fólks auðveldari. Mín kæra vinkona, fyrir þetta allt er ég þér þakklátur.

Þú naust þess að ferðast, allt fram á 86 ára aldur fórstu árlega til Spánar. Á ferðum þínum eignaðist þú marga vini og naust þess að vera meðal þeirra og varst fremst meðal jafningja. Eitt af því sem einkenndi þína persónu var að þú leist á alla sem jafningja, enginn var yfir annan hafinn.

Þínar næmu tilfinningar gagnvart öðru fólki og öllu í umhverfinu voru aðdáunarverðar. Líf hinna tilfinningalausu einkennist af tilfinningaleysi, ekkert er dapurlegra en líf án tilfinninga. Gömul hyggindi segja „það kemur maður í manns stað“, það á ekki við um þig, þú varst sannur vinur er gegndi einstæðu hlutverki. Ekki er fallegt að setja sig í dómarasæti en ég geri það samt: þú ert ein af fáum sem hægt er að segja um að séu virðingarverðar persónur. Kæra vinkona, það mun enginn taka þitt sæti eða fylla þitt skarð í huga mér. Ég mun alltaf geyma minningu þína með mér og þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og kenndir mér.

Þú verður alltaf vinur minn, ég mun sakna þín.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordags ins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherj ardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Í okkar samskiptum skiptir þú aldrei skapi. Við tengdumst órjúfanlegum böndum vináttu og kærleika. Minningin um það þegar ég kom til þín sl. aðfangadag, það var verulega dregið af þér og þú bentir mér á að koma nær. Ég hallaði mér niður að þér og þú sagðir við mig: „Mér þykir svo vænt um þig.“ Síðan í ákveðnari tón: „Mér þykir svo vænt um þig og ég vil að þú munir það.“ Þetta voru þín síðustu orð til mín. Þessum orðum mun ég aldrei gleyma, þau munu ávallt standa með mér í gegnum lífið. Þau snertu tilfinningar mínar og hafa fengið mig til að brynna músum svo þær eru við það að drukkna.

Vertu sæl, mín elsku tengdamamma, þakka þér samfylgdina, þú varst sannur vinur. Ég veit þú munt njóta aðdáunar og virðingar á vegferð þinni héreftir sem hingað til, Steini þinn og Milla munu taka þér fagnandi. Hjá okkur er tómarúm eftir en minningin um heiðurskonu mun að einhverju leyti fylla upp í það skarð.

Þinn vinur og tengdasonur,

Jón Tryggvi Kristjánsson.

Minningar mínar um góða vinkonu. Enn einu sinni kveð ég eina af okkur. Við vorum eitt sinn átta glaðværar konur, sem hittumst í svokölluðum saumaklúbb yfir 30 ár. Líklega lengur, tíminn er svo fljótur að líða. Við tókum upp á ýmsu öðru en að sauma. Eitt sinn fórum við fjórar saman til Edinborgar. Ótrúlegt en satt, enginn hægðarleikur að koma öllum börnum í fóstur, en það gekk. Út var haldið í tvær vikur, gleði og gaman.

Við urðum allar ungar aftur, dönsuðum og lékum okkur sem aldrei fyrr. Höfðum mikið fyrir að skarta því fegursta, svo eftir okkur væri tekið – það tókst. Komum heim með fangið fullt af dýrmætum leyndarmálum. Brosandi sælar tókum við upp þráðinn þar sem frá var horfið. Við fjórar sem fórum voru systurnar Svava og Gússý og við vinkonurnar Soffía og ég. Ekki var verra að hún Emilía mamma systranna kom líka, okkur að óvörum, með fjórar rauðar rósir sem hún festi á okkur. Þar með engar húsmæður lengur, bara stelpur að fara í frí. Mikið nutum við þessara daga, m.a. gengum við í djassklúbb, sem við stunduðum hvert kvöld. Þetta var eins og að kasta af sér hlekkjum og njóta hvers augnabliks. Svona ævintýri endast ævina út. Stundum á saumaklúbbskvöldi datt okkur í hug svo ótal margt, eins og að skreppa á Borgina eða í Klúbbinn. Á fimmtudögum var dansað í Þórskaffi, áttum við til að drífa okkur þangað.

Allt þetta gerði tilveruna skemmtilegri og við gátum haft gaman af að taka svona saklaus spor. Í dag erum við bara fjórar eftir, við Gússý að verða 89 ára. Þess vegna er óhætt að láta gamminn geisa. Eiginlega enginn er til frásagnar lengur. Eitt er víst, við hittumst allar í blómabrekkunni, þá getum við tekið upp þráðinn. Elskulegu vinkonurnar mínar, svo margs að sakna og minnast. Orðin svo mörg ár sem spanna ógleymanlega vináttu og væntumþykju.

Elska ykkur allar. Gússý mín sem gafst svo mikla gleði og hlýju. Það er gott að elska og sakna góðra vina.

Sjáumst.

Sigrún frá Möðruvöllum.