Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
Sumir telja að gluggaumslögin séu best afgreidd með því að opna þau ekki. Þannig megi forðast óþægindin af því að vita hversu mikið maður skuldar umfram það sem maður getur greitt.

Sumir telja að gluggaumslögin séu best afgreidd með því að opna þau ekki. Þannig megi forðast óþægindin af því að vita hversu mikið maður skuldar umfram það sem maður getur greitt.

Svo eru það þeir sem taka þann kost í kulda að pissa í skóinn sinn og eru sælir og glaðir í ylnum um hríð.

Þá eru það strútarnir, sem sagðir eru stinga höfðinu í sandinn þegar hættu ber að höndum. Þetta er áhugaverð aðferð eins og hinar fyrrnefndu, en strútarnir vita að vísu að hún virkar ekki og hún er þess vegna ekki notuð nema í dæmisögum.

Loks er það aðferðin sem meirihlutinn í Reykjavík notar til að takast á við skort á þjónustu og óánægju borgarbúa.

Sú aðferð er frumleg og felst í því að kaupa ekki og kynna sér því ekki þjónustukönnun sem gerð er í sveitarfélögum landsins og þau geta notað til að bera sig saman við önnur sveitarfélög og fá upplýsingar um eigin þjónustu.

Þetta er auðvitað ein leið til að takast á við skort á þjónustu, en að vísu ekki líkleg til árangurs.

Og þegar það lekur út að þjónustukönnunin sýni að þjónusta við íbúa og ánægja íbúa sé minnst í Reykjavík þá fara óneitanlega að vakna grunsemdir um að þar sé skýringin komin á því að meirihlutinn vill ekki kynna sér niðurstöðurnar eða sýna borgarbúum þær.

Getur verið að svo sé?