Guðrún fæddist á Kambi í Deildardal í Skagafirði 23.12. 1928. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki 8.1. 2018.

Foreldrar hennar voru Hjálmar Pálsson, f. 3.3.1904, d. 15.4. 1983, og Steinunn Hjálmarsdóttir, f. 11.6. 1905, d. 15.7. 1942.

Systkini hennar eru Páll, f. 22.12. 1929, Ragnar, f. 3.3. 1931, d. 10.1. 1998, Ásta, f. 9.8. 1932, d. 1.12. 2014, Höskuldur, f. 13.11. 1934, d. 11.7. 1935, Hulda, f. 13.11. 1934, d. 9.7. 1935, Þóranna, f. 12.4. 1936, Hulda, f. 28.9. 1938, Skarphéðinn, f. 30.9. 1940, stúlka f. 10.7. 1942, d. 10.7. 1942.

Þrettán ára missti Guðrún móður sína og þau systkinin hjálpuðu föður sínum við að reka búið og halda heimili þar til Guðrún flutti í Hólkot í Unadal og hóf búskap með Hjálmari Sigmarssyni. Þau giftust vorið 1954. Foreldrar Hjálmars voru Sigmar Þorleifsson, f. 15.10. 1890, d. 27.2. 1968, og Kristjana Guðmundsdóttir, f. 14.9. 1889, d. 10.3. 1945.

Börn Guðrúnar og Hjálmars eru;

1) Steinunn f. 29.4. 1951, eiginmaður hennar er Hafsteinn Ragnarsson. Þau eiga þrjú börn og níu barnabörn. 2) Kristjana, f. 1.10. 1952, eiginmaður hennar er Valdimar Birgisson. Þau eiga þrjú börn, níu barnabörn og fjögur barnabarnabörn. 3) Guðmundur, f. 14.2. 1954, kona hans er Erla Unnur Sigurðardóttir. Þau eiga tvö börn. Með Heiðdísi Huldu Andradóttur, fyrrv. eiginkonu, á hann eitt barn, tvö barnabörn og eitt barnabarnabarn. 4) Halldór, f. 30.1. 1955, eiginkona hans er Hulda Gísladóttir. Þau eiga fjögur börn og fimm barnabörn. 5) Ingibjörg Ásta, f. 10.3. 1956, eiginmaður hennar er Sigurður Þorleifsson. Þau eiga fjögur börn og tvö barnabörn. 6) Guðrún Hjálmdís, f. 25.1. 1958, eiginmaður hennar er Grétar Jakobsson. Þau eiga fjögur börn og sjö barnabörn. 7) Jakobína Helga, f. 20.8. 1959, eiginmaður hennar er Þórarinn Þórðarson. Þau eiga fjögur börn og sjö barnabörn. 8) Guðfinna Hulda, f. 30.1. 1961, maður hennar er Steen Johansson. Hún á þrjú börn. 9) Haraldur Árni, f. 10.10. 1963, eiginkona hans er María Pétursdóttir. Þau eiga þrjú börn og eitt barnabarn. 10) Hjálmar Höskuldur, f. 20.9. 1965, kona hans er Linda Friðriksdóttir. Hann á þrjú börn og tvö barnabörn.

Í byrjun árs 2015 fluttust þau Guðrún og Hjálmar á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki. Hjálmar dvelur þar enn og lifir eiginkonu sína til nærri 70 ára.

Útför Guðrúnar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 20. janúar 2018, klukkan 11. Jarðsett verður að Hofi á Höfðaströnd.

Elsku móðir mín, nú ertu farin í ferðina löngu.

Þú sem varst svo lífsglöð og sagðir við mig í síðasta símtali að þú vonaðist til þess að fá að vera lengur með okkur, en þá varst þú orðin mjög þjáð og þreytt. Þú varst mjög gjafmild og gafst alltaf jafnóðum allt sem þú bjóst til, eins og það sem þú prjónaðir á okkur systkinin og síðar alla afkomendur og tengdabörn sem inn í fjölskylduna komu, og svo auðvitað allt fallega postulínið sem þú málaðir af mikilli natni síðustu ár á meðan þú dvaldir á Heilbrigðisstofnuninni. Gjafmildin ríkti í þér alla tíð, þú kvaddir aldrei börnin nema að gleðja þau, þú sagðir alltaf; „Hjálmar, við verðum að gleðja börnin,“ og fylgdi þá alltaf smáaur eða annar glaðningur börnunum heim.

Minni þitt var einstakt, þú mundir öll símanúmer og alla afmælisdaga allra í þinni stóru fjölskyldu og hringdir jafnan við þau tækifæri á meðan kraftar leyfðu. Það sem þér þótti einstaklega vænt um allan stóra hópinn þinn og gladdist ætíð þegar vitað var að nýr einstaklingur væri væntanlegur. Elskaðir og dáðir alla með þínu fallega brosi og þinni hjartahlýju sem var alveg einstök. Það síðasta sem þú sagðir við mig var „Guð heldur verndarhendi yfir okkur öllum,“ þessu hvíslaðir þú að mér og ég veit að trú þín styrkti þig í gegnum þá mörgu erfiðleika sem þú þurftir að yfirstíga í gegnum lífið. Móðir mín, þú varst hjartahlý og vildir öllum vel. Fórst aldrei í manngreinarálit og það voru allir jafnir í þínum huga.

Hvíl í friði elsku móðir mín.

Þín dóttir,

Kristjana.

Í dag kveð ég hinstu kveðju elsku móður mína, Guðrúnu Hjálmarsdóttur.

Ég finn fyrir tómleika og sorg þegar ég skrifa þessar línur. Lífið var þér ekki alltaf auðvelt, elsku mamma mín. Þrettán ára gömul missir þú móður þína, sem var þér mikið áfall og mótaði þig fyrir lífstíð. En með bjartsýni og dugnaði lærðir þú að lifa með sorginni yfir móðurmissinum. Þú varst stórglæsileg kona, hjartahlý og hlýju faðmlögin þín gleymast okkur aldrei. Þú varst orðvör og fannst ávallt það besta í hverri manneskju. Ég þakka þér fyrir allt það góða sem þú kenndir mér. Minningarnar streyma fram í hugann, algjörlega ósjálfrátt. Til dæmis þegar ég var lítið barn að skottast í kringum þig í eldhúsinu í sveitinni og þú varst að baka lummur eða pönnukökur. Ég þakka þér fyrir öll símtölin, við gátum talað saman endalaust um börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin sem voru þér svo kær. Það verður erfitt fyrir þau að sjá á eftir henni. Ég sakna hljómfögru og þýðu raddarinnar þinnar.

Mamma studdi okkur í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur, hún var næm á alla hluti.

Elsku hjartans mamma mín, ég þakka þér fyrir allar góðu stundirnar.

Þú varst einstök kona, trygg og trú og svo stolt af afkomendahópnum þínum.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Þín

Steinunn.

Elsku amma mín.

Ég trúi því varla að það sé komið að kveðjustund. Að þú sért allt í einu ekki með okkur hér er hálf óskiljanlegt. En ég veit að núna fylgistu bara með okkur á annan hátt en áður.

Ég vil leyfa mér að trúa því að bróðir minn hafi tekið vel á móti þér og að þið fylgið okkur eftir og passið upp á okkur saman.

Allt frá því ég var lítil stelpa hef ég dáðst að þér. Faðmlagið þitt var hlýrra en hjá nokkrum öðrum, þú varst mýkri en nokkur annar. Þú varst blíðust af þeim öllum. Dugleg varstu og kraftmikil, tíu barna móðirin. Hlýjan, ástin og umhyggjan skein úr augum þínum. Mér þótti alltaf yndislegt að koma til ykkar í sveitina og aldrei klikkaðir þú á því að hringja á afmælisdegi mínum eða barnanna minna. Allar sögurnar, vísurnar, ljóðin, sorgirnar og gleðistundirnar lifa áfram með okkur því að þú varst svo dugleg að segja okkur frá og deila með okkur. Styrkur þinn fólst í ástinni. Samferðafólk þitt og þau sem þurftu að kveðja of snemma eins og móðir þín og litlu systkinin lifa áfram í minningunni því þú hugsaðir alltaf svo fallega til þeirra allra og deildir þeim með okkur. Og ég skal minnast þín um aldur og ævi og leyfa mínum afkomendum að heyra sögurnar um elsku ömmu Rúnu í sveitinni.

Það er ekki hægt að rita til þín kveðju án þess að minnast á það hversu stolt ég var að vera fyrsta langömmubarnið ykkar afa og hversu stolt þú varst af mér. Ég hef alltaf fengið að heyra það að ég sé lík þér og sést það glettilega á myndum sem til eru af okkur þegar ég var lítil stelpa. Sveitakonurnar saman að skoða hrossin í réttunum og í göngutúr um dalinn okkar fallega, Unadalinn. Fallegasta stað á jarðríki. Og ekki minnkaði stoltið við það þegar ég átti dætur mínar. Fyrst þær Heklu Berglindi og Kötlu Bryndísi en við það tilefni hafðir þú nú orð á því að núna værir þú næstum því orðin heimsfræg. Enda værum við komnar í fimmta ættlið í beinan kvenlegg. Síðan bættust Askja Bjargey og svo Eldey Björk í hópinn. Þær eru fjársjóðurinn minn og okkar og því mun ég aldrei gleyma. Skilyrðislaus ást er það sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um þig. Og ást ykkar afa er sú sterkasta og fallegasta sem ég hef nokkurn tímann vitað. Einu sinni sagði ég við Örn manninn minn að ef við fengjum bara að upplifa brot af þeirri ást sem þið afi báruð hvort til annars þá værum við sko í góðum málum.

Þú deildir með mér vísubút sem afi orti til þín áður en þú fluttir til hans í Hólkot. Ég hef passað upp á hann alla tíð síðan og finnst viðeigandi að leyfa honum að fylgja þér hér, enda sá allra fallegasti texti sem ég veit.

Sit ég einn og segi fátt,

sviptur návist þinni.

Heyri ég samt þinn hjartaslátt,

heim úr fjarlægðinni.

(Hjálmar Sigmarsson, Hólkoti, Unadal)

Elsku amma mín. Takk fyrir allar góðu stundirnar. Takk fyrir allt það góða sem þú kenndir mér.

Takk fyrir að vera þú. Takk fyrir að gera heiminn betri fyrir okkur hin.

Þín

Birgitta.

Elsku amma mín! Það er sárt að missa þig þó að ég hafi vitað í hvað stefndi síðustu dagana. Að eiga þig sem ömmu var minn fjársjóður alla tíð.

Það er gott að geta gengið í þennan fjársjóð minninganna um þig, elsku amma mín. Mínar dýrmætustu minningar um þig eru frá barnæsku minni. Hólkot var minn staður og staðurinn sem þú elskaðir svo mikið. Við eigum þessar minningar saman sem aldrei munu gleymast.

Þú leyfðir mér að taka þátt í bakstrinum með þér sem jafningja og ég var stolt að bjóða fram veitingar með þér. Við bökuðum svo mikið magn og margar sortir og mér fannst ég tengjast þér og sveitinni minni. Það var gaman að fara í berjamó, veiðiferðir og fjallgöngu. Þetta voru yndislegar stundir sem ég mun ávallt geyma í hjarta mínu.

Þú sinntir heimilinu svo vel og elskaðir afa mikið og hann þig, það sáu allir. Þið voruð samheldin hjón.

Þú þurftir að vera dugleg því gestagangurinn var mikill og það þurfti að sinna gestunum.

Þegar við krakkarnir vorum hjá þér varstu svo skemmtileg og við gátum alltaf hlegið mikið saman.

Þú gleymdir aldrei afmælisdögunum okkar og lagðir þig alla fram fyrir okkur. Hlýjan og gæskan skein úr augum þínum og þú vildir öllum vel.

Síðustu árin á Sauðárkróki heimsótti ég þig og átti góðar stundir með þér.

Ég var svo stolt að koma til þín þegar ég var búin að eignast Sigurð Aron og sýna þér hann. Þig langaði svo mikið að sýna fólkinu í kringum þig nýjasta meðlim fjölskyldunnar og fórum við með hann í borðsalinn til þess að sýna hann og þú varst jafn stolt og ég. Þú sýndir mér og börnunum alltaf mikla væntumþykju.

Þú varst svo dugleg í höndunum og prjónaðir handa fjölskyldunni þinni. Síðustu árin málaðir þú á postulín fyrir fólkið þitt.

Elsku amma, ég á eftir að sakna þess að hitta þig, finna hlýjuna, heyra sögurnar, sjá fallega brosið þitt og finna faðmlag þitt. Þú varst engin venjuleg amma, þú varst sú besta sem hægt er að eiga.

Þín

Guðrún.