Hvalfjarðargöng Umferð undir Hvalfjörð hefur aukist mjög á allra síðustu árum og árið 2017 var algert metár.
Hvalfjarðargöng Umferð undir Hvalfjörð hefur aukist mjög á allra síðustu árum og árið 2017 var algert metár. — Morgunblaðið/Ernir
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Starfsmenn Spalar hafa staðið í bréfaskriftum við samgönguráðuneytið og óskað eftir svörum um hvað taki við þegar Spölur afhendir ríkinu Hvalfjarðargöng til eignar og rekstrar síðsumars 2018.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Starfsmenn Spalar hafa staðið í bréfaskriftum við samgönguráðuneytið og óskað eftir svörum um hvað taki við þegar Spölur afhendir ríkinu Hvalfjarðargöng til eignar og rekstrar síðsumars 2018.

Starfsmennirnir vilja vita hvort ríkið (Vegagerðin) hyggist nýta starfskrafta þeirra eftir eigendaskiptin.

Samkvæmt upplýsingum Gylfa Þórðarsonar, forstjóra Spalar, eru átta starfsmenn í gjaldskýli í fullu starfi og átta starfsmenn í stjórnunar- og skrifstofustörfum, flestir í 50-90% starfi. Flestir þeirra eru með þriggja mánaða uppsagnarfrest en tveir starfsmenn í gjaldskýlinu eru með sex mánaða uppsagnarfrest.

Sumir starfað frá upphafi

Starfsmenn Spalar rituðu Jóni Gunnarssyni, þáverandi samgönguráðherra, bréf 28. apríl 2017. Tilefni bréfsins var að vekja athygli ráðherrans á óvissu sem ríkti um stöðu starfsmanna Spalar „með tilheyrandi áhyggjum af framtíð okkar og afkomu“. Fram kemur í bréfinu að sumir starfsmenn hafi starfað hjá Speli allt frá upphafi 1998 en aðrir skemur. „Ef meiningin er sú að starfsmenn Spalar komi við sögu eftir eigendaskiptin er nauðsynlegt að fá að vita það fyrr en síðar,“ sagði í bréfinu. Fólk sem missi vinnuna af einhverjum ástæðum gangi sjaldan að öðrum störfum vísum. Óskuðu starfsmennirnir eftir fundi með ráðuneytinu sem fyrst.

Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri svaraði fyrir hönd ráðherra með bréfi til starfsmanna dagsettu 29. maí 2017. „Hér með upplýstist að nú er verið að skoða leiðir um framkvæmdir og rekstur Hvalfjarðarganga í ráðuneytinu, þ.m.t. mögulega tvöföldun. Stefnt er að því að ákvörðun um framtíð og rekstrarfyrirkomulag liggi fyrir síðsumars eða í haust,“ sagði bréfinu.

Skemmst er frá því að segja að engin ákvörðun liggur enn fyrir hvernig rekstri ganganna verður háttað í framtíðinni og starfsmenn Spalar hafa ekkert frekar heyrt frá ráðuneytinu.

Spölur mun hætta gjaldtöku í sumar þegar allar skuldir vegna Hvalfjarðarganganna verða greiddar upp. Þá munu starfsmenn í gjaldskýli að öllu óbreyttu hætta.

„Ég reikna með að allir starfsmenn á skrifstofu verði við vinnu a.m.k. tvo mánuði eftir eigendaskiptin en síðan fækki nokkuð hratt. Á endanum verði aðalbókarinn einn eftir til að klára ársreikning fyrir 2018 í samvinnu við endurskoðunarfyrirtækið, sem væntanlega gerist í janúar eða febrúar 2019,“ segir Gylfi Þórðarson.

Tímamótagöng
» Hvalfjarðargöng voru opnuð til umferðar 11. júlí 1998.
» Spölur gróf göngin og hefur annast rekstur þeirra undanfarin 20 ár.
» Þetta var fyrsta einkaframkvæmdin í íslensku vegakerfi.
» Hvalfjarðargöng voru fyrstu neðansjávargöngin á Íslandi og jafnframt fyrstu neðansjávargöng veraldar í ungu gosbergi.