Viðar Guðjohnsen
Viðar Guðjohnsen
Eftir Viðar Guðjohnsen: "Ég mun verða martröð jafnaðarmannsins."

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins. Vil ég með þessu bréfi vekja athygli á þeim ástæðum sem lágu þar að baki.

Fyrir það fyrsta tel ég að hefðbundna stjórnmálamenn skorti kjark til þess að takast á við þau vandamál sem eru aðkallandi á sviði stjórnmálanna. Hinir hefðbundnu stjórnmálamenn virðast engan veginn þora að taka til umræðu erfið mál og tala máli skattgreiðenda. Sem er kannski ástæðan fyrir fallandi trausti og stjórnmáladoða. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri.

Það er vissulega auðvelt að ganga með veggjum og kóa með vitleysunni en hverju hefur það skilað, hverju hefur það áorkað? Afborganir af lánum borgarinnar nálgast fimmtán milljarða á næsta ári. Fimmtán milljarða. Hvorki meira né minna en samt þorir enginn að nefna einu leiðina sem fær er; alger áherslubreyting samhliða niðurskurði. Ég legg áherslu á að hygla hinum duglega, að fækka borgarstarfsmönnum og að menn beri ábyrgð á sínu líferni. Það er óréttlátt að reykvískir skattgreiðendur séu að halda uppi ólifnaði og ábyrgðarleysi annarra.

Ég hef sagt að skattborgarinn eigi ekki að borga fyrir fólk í sjálfstortímingu og mun ég skera niður við trog í þessum málaflokki. Það er undarlegt að hugsa til þess að útlendir rónar ferðist heimshorna á milli til þess að leggjast á félagslega kerfið hér í Reykjavík en þetta er raunin. Reykjavík virðist stefna í að verða einhverslags félagsleg ruslakista fyrir menn í sjálfstortímingu. Á minni vakt verður félagsleg aðstoð skorin niður við nögl. Væntanlega mun mannréttindaskrifstofa borgarinnar súpa hveljur en óttist ekki, það mun verða mitt fyrsta verk að loka henni.

Samhliða fyrrnefndum niðurskurði mun ég taka til í útgjaldaaukningunni og skapa fjárhagslega hvata fyrir uppbyggingu á íbúðarhúsnæði. Sjálfur hef ég verið að byggja hús allt mitt líf og ég kann að byggja. Að byggja hefur verið mitt lifibrauð. Ég veit hvernig hægt er að skapa hvatana. Ég veit líka hvernig borgaryfirvöld standa í vegi fyrir uppbyggingu á íbúðarhúsnæði með þunglamalegu kerfi og óhóflegum gjöldum. Það kerfi mun ég brjóta niður og samhliða fella niður óþarfa gjöld sem hafa allt of lengi legið eins og tilberi á hinum duglega. Gjöld, skattar og regluverk eru farin að hamla nýbyggingu íbúðarhúsnæðis og stjórnmálamenn hafa meira að segja viðurkennt það þótt þeir virðist aðeins vilja tala um vandann en ekki bregðast við honum.

Samgöngumál höfuðborgarinnar eru í algjörum ólestri og skapa mikla og óþarfa mengun. Rándýr verkefni á borð við borgarlínu þarf að stöðva og leggja þarf þess í stað áherslu á betri vegi, umferð sem flæðir og skattalega hvata fyrir atvinnuuppbyggingu í efri byggðum. Lækkun eða niðurfelling fasteignagjalda á átvinnuhúsnæði í efri byggðum þarf að skoða með það fyrir augum. Skaði jafnaðarmanna á samgöngukerfinu er mikill og hugmyndafræði þeirra sem gengur út á að neyða fólk til þess að taka strætó hefur beðið algjört skipbrot. Reykjavík er höfuðborg landsmanna og flugvöllurinn í Reykjavík er flugvöllur allra landsmanna og tenging landsmanna við höfuðborgina. Flugvöllurinn á auðvitað að vera þar sem hann er.

Það er fyrir löngu kominn tími á að stjórnmálamenn tali tæpitungulaust um aðkallandi vanda. Mikilvægt er að taka til í þeirri óreiðu sem einkennir Reykjavíkurborg í dag. Fjármálin eru í ólestri á sama tíma og jafnaðarmenn ausa fjármunum í gæluverkefni sín.

Nauðsynlegt er að bjóða upp á valkost sem er tilbúinn að taka til í rekstrinum og skera niður í því óhófi sem hefur verið stundað síðustu ár. Of lengi hafa jafnaðarmenn ausið miklu fjármagni í yfirbyggingu, nefndir og gæluverkefni sem betur færu í grunnstoðir borgarinnar eða í hendur harðduglegra skattgreiðenda sem jafnaðarmenn vilja reyna að blóðmjólka um hverja krónu.

Ég mun verða martröð jafnaðarmannsins.

Höfundur er leigusali og frambjóðandi í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Viðar Guðjohnsen