Sunnufold Börnin á Loga, einni starfsstöð Sunnufoldar, borðuðu hefðbundinn þorramat í gær.
Sunnufold Börnin á Loga, einni starfsstöð Sunnufoldar, borðuðu hefðbundinn þorramat í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Tryggvi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorrablót voru víða haldin í gær, á bóndadegi, fyrsta degi þorra.

Þorrablót voru víða haldin í gær, á bóndadegi, fyrsta degi þorra. Meðal annars hjá börnunum á þremur starfsstöðvum leikskólans Sunnufoldar í Grafarvogi og einnig hjá eldri borgurum á þremur Hrafnistuheimilum; í Reykjavík, Hlévangi í Reykjanesbæ og Ísafold í Garðabæ.

„Það er hefð fyrir því á Hrafnistuheimilunum sex að blóta þorrann á veglegan hátt með íbúunum,“ segir Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, en blótað var í hádeginu á Ísafold og í Hlévangi en seinnipartinn í Reykjavík. „Við buðum upp á hefðbundinn þorramat, fólkið fór í sitt fínasta púss og við dúkuðum borð og buðum m.a. upp á hrútspunga, magál, súrmat, svið og rófustöppu, brennivín, söng og fjör. Kokkarnir okkar hérna á Hrafnistu útbjuggu þorramatinn sjálfir, haldnar voru ræður og tónlistarmenn og skemmtikraftar héldu uppi fjörinu.“

Félagar úr Harmonikkufélagi Suðurnesja, Dói og Elí, héldu upp í fjörinu á Hlévangi, á Ísafold var blótað undir harmonikkuleik Sveins Sigurjónssonar og Ragnar Torfason, sonur íbúa á heimilinu, söng og lék undir á gítar. Í Reykjavík var blótað undir dyggri veislustjórn söngkonunnar Regínu Óskar Óskarsdóttur sem flutti minni karla. Ræðumaður var Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs, og flutti hann minni kvenna. Næstu tvo föstudaga verður svo blótað á hinum þremur Hrafnistuheimilunum.

Matargleði hjá litlu börnunum

„Við vorum með þorramat, Þorraþrællinn var sunginn og börnin klæddust svörtu eða ullarfötum. Það var heimatilbúin sviðasulta, aðkeyptur súrmatur, hangikjöt, harðfiskur og hákarl o.fl. Við höfum gert þetta nokkrum sinnum en ég held að þetta sé flottast hjá okkur í ár,“ segir Fanný Heimisdóttir, leikskólastjóri Sunnufoldar. Hún segir misjafnt hvort börnunum líki maturinn en enginn sé þvingaður til að borða, þetta sé langborð þar sem börnin geta fengið sér ef þau vilja. „Þetta á að vera skemmtilegt og hátíðlegt og tilefni til umræðna. Börnin læra að borða saman og finna fyrir matargleði.“ ernayr@mbl.is