Óvissa Heldur Geir Sveinsson áfram sem þjálfari karlalandsliðsins?
Óvissa Heldur Geir Sveinsson áfram sem þjálfari karlalandsliðsins? — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðmundur B.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, segir að stjórn sambandsins ætli að gefa sér tíma til þess að fara yfir málin áður en ákvörðun verður tekin um hvort gerður verður nýr samningur við Geir Sveinsson landsliðsþjálfara í handknattleik karla, eða ekki.

„Við eru rétt nýkomnir heim frá Króatíu,“ sagði Guðmundur í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Eins og venjulega eftir stórmót þá fáum við skýrslu frá þjálfara um mótið. Við förum yfir hana auk þess sem við vegum og metum stöðu okkar,“ sagði Guðmundur ennfremur og bætti við. „Við gefum okkur tíma til þess að fara yfir málin áður en næstu skref verða stigin.“

Heimildir Morgunblaðsins innan handknattleikshreyfingarinnar herma að menn vilji að það liggi fyrir ekki síðar en undir lok þessa mánaðar hvort Geir verður áfram landsliðsþjálfari eða ekki. Guðmundur formaður sagði að af sinni hálfu væri ekki um ákveðin tímamörk að ræða.

„Ég hef verið talsmaður þess að menn gefi sér tíma til þess að fara vel yfir málin,“ sagði Guðmundur.

Starfssamningur Geirs við HSÍ um þjálfun karlalandsliðsins er að renna út. Hann tók við þjálfun landsliðsins vorið 2016. Geir sagðist í samtölum við fjölmiðla fyrir EM í Króatíu hafa rætt við forráðamenn HSÍ um nýjan samning en ekki hafi verið vilji til þess af hálfu HSÍ að ganga frá samningi fyrir mótið.

Geir sagði í samtali við Morgunblaðið á þriðjudagskvöldið, eftir að íslenska landsliðið féll úr keppni EM, að hann hefði áhuga á að halda áfram starfi sínu.

Fyrir liggur að íslenska landsliðið tekur þátt í fjögurra liða móti í Noregi í apríl. Eftir það standa fyrir dyrum umspilsleikir um sæti á HM á næsta ári. Ráðgert er að þeir leikir verði háðir aðra og þriðju helgina í júní. iben@mbl.is