[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Ég verð í hóp en ég get náttúrlega ekki neitt. Maður þarf alveg mánuð í það.

Handbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Ég verð í hóp en ég get náttúrlega ekki neitt. Maður þarf alveg mánuð í það. Þetta er bara redding nú þegar ein er ólétt, að fá aðra beint úr barneignarleyfinu,“ segir Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, hógværðin uppmáluð. Þessi 32 ára gamla handknattleikskona, sem meðal annars hefur landað 6 Íslandsmeistaratitlum, er mætt aftur á Hlíðarenda og hefur samið við Val til sumarsins 2019.

Anna Úrsúla fæddi sitt annað barn fyrir tveimur mánuðum, en verður eins og fyrr segir með Val í dag þegar topplið Olís-deildarinnar mætir aftur til leiks eftir jólafrí og tekur á móti Selfossi kl. 14 í Valshöllinni. Hún var síðast á mála hjá uppeldisfélagi sínu, Gróttu, þar sem hún vann tvo Íslandsmeistaratitla, bikarmeistaratitil og deildarmeistaratitil, eftir að hafa rakað inn verðlaunum með Val á árunum 2009-2014. Hjá Val leysir Anna nú af hólmi Hildi Björnsdóttur sem er ólétt.

Ekkert skrýtið að mæta aftur

„Ég sagði upp samningnum við Gróttu þegar ég varð ófrísk, og vissi ekkert hvort ég vildi vera þar eða annars staðar. Ég var svo búin að fá að sprikla hjá Stebba í Fram [Stefáni Arnarsyni, þjálfara Fram], góðum félaga, áður en Valur hafði samband. Það voru 2-3 lið búin að heyra í mér en þetta var bara sniðugt því Val vantaði akkúrat línumann,“ segir Anna, sem eins og fyrr segir er öllum hnútum kunnug á Hlíðarenda:

„Það var einmitt ekkert skrýtið að koma á æfingu, þó að þetta sé langt því frá að vera sama lið og ég spilaði með. Það er mjög góður andi yfir þessu, mér var vel tekið og maður þekkti góð og gömul andlit.“ Valur hefur komið flestum á óvart með framgöngu sinni í vetur og er á toppi Olís-deildarinnar, án þess að hafa tapað leik:

Gleðin skín í gegn hjá Val

„Mér finnst þetta ofboðslega góð liðsheild – þeim finnst bara rosalega gaman og mér finnst það skína af öllum í liðinu. Þannig vilja þær spila handbolta og það skilar sér inni á vellinum. Þó að þetta séu allt góðir einstaklingar þá er engin svona „alpha dog“ sem er langbestur og allir að tala um. Liðsheildin er frábær, og markvarslan frábær, og það skilar svo ofboðslega miklu í handbolta,“ segir Anna, og getur hún ekki bara stefnt á fleiri titla með Valsliðinu?

Vildi frekar breyta til

„Úrslitakeppnin er alltaf markmiðið og ef það verður áfram gaman hjá liðinu þá getur vonandi allt gerst. Ekki svo að skilja að ég sé einhver titlasjúk kona,“ segir Anna skellihlæjandi, og bætir við: „Það var aðallega það að liðið vantaði línumann svo ég leit á þetta sem góða lausn. Þetta er mjög sterk deild með marga frambærilega leikmenn, og ekkert af hinum liðunum þurfti sérstaklega á mér að halda, fyrir utan kannski mitt gamla lið, Gróttu. En ég vildi breyta til. Grótta er með ungt og mjög efnilegt lið núna, og ég er aðeins búin að taka mig út úr því hlutverki að ala upp unga leikmenn og draga vagninn andlega. Það er annars kannski erfitt að festa fingur á að hvaða leyti en mér fannst kominn tími á breytingu.“

Anna Úrsúla hefur verið einn besti línu- og varnarmaður Íslands um langt árabil. Hún á að baki 101 A-landsleik og hefur skorað í þeim 221 mark. Hún var valin besti leikmaður Íslandsmótsins árin 2007 og 2011 og hefur sjö sinnum verið valin besti varnarmaðurinn.