[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir húsnæðisskort á Suðurnesjum farinn að hamla fyrirtækjum á Keflavíkurflugvelli.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir húsnæðisskort á Suðurnesjum farinn að hamla fyrirtækjum á Keflavíkurflugvelli. Leitað sé að stað fyrir vinnubúðir fyrir hundruð verkamanna vegna uppbyggingar á svæðinu.

Áætlað er að íbúar Reykjanesbæjar verði orðnir um 19.000 í árslok, borið saman við 16.500 í ársbyrjun 2016. Þá voru íbúarnir 14.231 í ársbyrjun 2013 og jafnast fjölgunin á við tvöfaldan íbúafjölda Hveragerðis.

Fram kom í Morgunblaðinu sl. miðvikudag að útsvarstekjur Reykjanesbæjar jukust um 19,8% milli ára 2016 og 2017. Það var mesta aukningin á landinu. Árin 2013 til 2017 jukust útsvarstekjurnar í sveitarfélaginu um 71,5% og var það líka landsmet. Aukaálag er á útsvarinu vegna skuldastöðu sveitarfélagsins.

Þurfa meira húsnæði

Kjartan Már segir að vegna hraðrar fjölgunar íbúa sé orðinn mikill skortur á húsnæði á Suðurnesjum.

„Það væri auðvitað æskilegt að til væri nóg af lausu húsnæði sem gæti tekið við þessari gríðarlegu íbúafjölgun. Síðustu tvö ár hefur íbúum fjölgað langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Þeim fjölgaði um 7,4% 2016 og um tæp 9% í fyrra. Þetta var mögulegt meðan nóg framboð var á húsnæði í rótgrónum hverfum Keflavíkur og Njarðvíkur og á Ásbrú. Nú er hins vegar allt að fyllast. Við eigum skipulagðar lóðir. Það er verið að byggja gríðarlega mikið. Það hafa verið gefin út rúmlega 300 byggingarleyfi á þessu ári og það eru mörg hundruð íbúðir í pípunum. Þær koma á markað næstu misseri, sumar jafnvel í sumar.“

Hentar ekki erlendu vinnuafli

Kjartan Már segir stærri íbúðir, parhús og einbýli, hins vegar ekki henta erlenda vinnuaflinu sem dvelur hér á landi tímabundið.

„Flugafgreiðslufyrirtækin sækjast ekki eftir einbýlishúsum og parhúsum. Slíkt húsnæði hentar dæmigerðum nýjum íbúum en er of stórt fyrir erlenda starfsmenn. Fyrirtæki þeirra þurfa aðra lausn. Þau spyrja sig hvernig þau geti komið erlenda vinnuaflinu í hús fyrir sumarið. Þetta er verkefni sem öll sveitarfélög á Suðurnesjum standa frammi fyrir að leysa á einn eða annan hátt.

Kannski er þetta stærra mál. Kannski þarf höfuðborgarsvæðið allt að velta þessu fyrir sér. Það er spáð 400 nýjum störfum [á Keflavíkurflugvelli] á ári. Þetta er ekki aðeins áskorun fyrir flugafgreiðslufyrirtækin. Stórir verktakar eru líka að leita að stað fyrir vinnubúðir fyrir hundruð erlendra verkamanna á suðvesturhorninu. Þetta er stórmál sem við erum því miður ekki búin að leysa. En þurfum að leysa. Við gerum okkur grein fyrir því. Lausnin liggur hins vegar ekki fyrir. Ég hef alveg fundið fyrir óþolinmæði og vonbrigðum flugafgreiðslufyrirtækja, til dæmis með að við skulum ekki vera með lausnina á takteinum. Þau fara fram á að slíkur staður yrði sem næst flugvellinum svo aka þurfi sem stysta vegalengd með starfsfólkið. Það vill hins vegar væntanlega vera sem næst bænum og geta sótt aðra þjónustu þegar það á frí, farið á veitingastaði, í bíó og þess háttar.“

Ekki allir skráðir íbúar

Hann segir ekki alla erlenda farandverkamenn í Reykjanesbæ skráða sem íbúa bæjarins. „Sá hluti telst til íbúa sem skráir sig til lögheimilis hér og greiðir hingað skatt og skyldur. Þeir stoppa nógu lengi svo hægt sé að skrá þá til lögheimilis. Svo er annar hópur sem fer úr landi innan einhverra tímamarka. Þeir þurfa ekki að skrá lögheimili hér.“

Spurður hvort Reykjanesbær horfi til stórra óhefðbundinna lausna á húsnæðisvandanum, leggur Kjartan Már áherslu á að sveitarfélagið muni ekki fara í húsbyggingar.

„Það sem við gætum gert er að finna út hvaða lóðir við gætum boðið flugafgreiðslufyrirtækjum, eða öðrum einkaaðilum sem vilja byggja og leigja þeim. Þá væntanlega í samvinnu við hin sveitarfélögin. Eiga slíkar lóðir að byggjast upp í Reykjanesbæ, Garðinum eða Sandgerði? Eða kannski á öllum stöðum?“

Gjörnýta skólana

Kjartan Már segir hraða íbúafjölgun hafa reynt á innviði bæjarins.

„Við höfum ráðið við það hingað til. Við erum að gjörnýta hvert einasta skúmaskot í skólum. Það er aukið álag á allt kerfið hvort sem það eru málefni aldraðra, velferðarþjónusta eða fjárhagsaðstoð. Velferðarsviðið okkar og félagsráðgjöfin á líka annríkt. Mjög hátt hlutfall nýrra íbúa er af erlendu bergi brotið. Það er visst álag sem fylgir því í skólakerfinu.

Yfir 30 tungumál eru töluð í skólakerfinu og yfir 60 þjóðerni í sveitarfélaginu. Við teljum okkur ráða við þetta. Þetta má hins vegar ekki vera mikið meira. Það sem er kannski alvarlegra mál í þessu öllu – við vorum að ræða við fjárlaganefnd á miðvikudaginn – er að fjárveitingar til stofnana ríkisins á þessu svæði halda ekki í við íbúatöluna. Heilbrigðisstofnun, lögreglan, fjölbrautaskólinn, vegakerfið, allt þetta sem ríkið ber ábyrgð á. Fulltrúar ríkisins átta sig ekki á því hversu hröð íbúafjölgunin er. Því miður. Líkönin sem ráðuneyti nota við úthlutun fjármagns til stofnana gera ekki ráð fyrir þessu heldur er aðeins byggt á meðalfjölgun íbúa, landsmeðaltali, sem er um 1%. Fjárveitingar miðast við það.“

Mun fjölga um 1,6 milljónir í ár

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar, segir orðið erfiðara að finna húsnæði fyrir starfsfólk í nágrenni vallarins. Spurn eftir húsnæði hafi aukist mikið síðustu ár. Samkvæmt áætlun Isavia mun farþegum um völlinn fjölga úr 8,8 milljónum 2017 í 10,4 milljónir í ár, eða um 18%.

Hlynur segir aukin umsvif kalla á frekari uppbyggingu fyrirtækja sem starfa á vellinum. „Fyrirtækin hafa verið að stækka við sig. Það er orðin þröng á þingi í flugstöðinni. Þó höfum við stækkað hana töluvert. Við erum að ljúka heildarskipulagi flugvallarins og stefnum á að geta úthlutað lóðum í lok þessa árs.“