Tilþrif Páll Óskar Hjálmtýsson sýndi mikil tilþrif á samlestrinum.
Tilþrif Páll Óskar Hjálmtýsson sýndi mikil tilþrif á samlestrinum. — Ljósmynd/Kristín Edda Gylfadóttir
Metfjöldi gesta lagði leið sína á opinn samlestur á söngleiknum Rocky Horror eftir Richard O'Brien sem fram fór á Stóra sviði Borgarleikhússins í vikunni. Samkvæmt upplýsingum frá leikhúsinu mættu yfir hundrað manns og voru gestir á öllum aldri.

Metfjöldi gesta lagði leið sína á opinn samlestur á söngleiknum Rocky Horror eftir Richard O'Brien sem fram fór á Stóra sviði Borgarleikhússins í vikunni. Samkvæmt upplýsingum frá leikhúsinu mættu yfir hundrað manns og voru gestir á öllum aldri. Á samlestrinum lásu leikarar verkið ásamt því að syngja lögin við píanóundirleik.

Eins og áður hefur komið fram fer Páll Óskar Hjálmtýsson með hlutverk Franks N. Furters, en aðrir leikarar eru Brynhildur Guðjónsdóttir sem Magenta, Vala Kristín Eiríksdóttir sem Columbia, Björn Stefánsson sem Riff Raff, Haraldur Ari Stefánsson sem Brad, Þórunn Arna Kristjánsdóttir sem Janet, Arnar Dan Kristjánsson sem Rocky, Katla Margrét Þorgeirsdóttir sem Dr. Scott og Valur Freyr Einarsson sem sögumaðurinn. Þá fer söngvarinn Valdimar Guðmundsson með hlutverk Eddies í sýningunni.

Leikstjóri sýningarinnar, sem frumsýnd verður á Stóra sviðinu 16. mars, er Marta Nordal, danshöfundur er Lee Proud og tónlistarstjóri Jón Ólafsson. Íslenska þýðingu gerði Bragi Valdimar Skúlason. Leikmynd hannar Ilmur Stefánsdóttir, búninga Filippía I. Elísdóttur, lýsingu Björn Bergsteinn Guðmundsson og hljóð Gunnar Sigurbjörnsson.

Samkvæmt upplýsingum frá Borgarleikhúsinu var Rocky Horror sú sýning sem flestir kortagestir leikhússins völdu á kortin sín í haust svo ljóst er að uppfærslunnar er beðið með mikilli eftirvæntingu. Þess má að lokum geta að 1. febrúar verður sérstakur forsöludagur þar sem fólki gefst tækifæri til að tryggja sér miða áður en almenn sala hefst.