Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Svæði afgirt fyrir fé. Í fjósinu ég hygg að sé. Hestakofi opinn er. Umferð gegnum túnið ber. Helgi Seljan á þessa lausn: Tröð ég hafði fyrir fé, í fjósi líka tröð ég sé.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Svæði afgirt fyrir fé.

Í fjósinu ég hygg að sé.

Hestakofi opinn er.

Umferð gegnum túnið ber.

Helgi Seljan á þessa lausn:

Tröð ég hafði fyrir fé,

í fjósi líka tröð ég sé.

Hestakofi heiti ber,

heim að bænum tröðin er.

Guðrún Bjarnadóttir svarar:

Hjá tröð bíður rollan í röðinni.

Við rassa og flór liggur tröðin.

Hesturinn töltir að tröðinni.

Tröðin létt heim eftir vöðin.

Og bætir við: „En stundum tekst mér engan veginn að ráða gáturnar og þá:

Ekki gátur allar fæ ég ráðið.

Ábyrgðarlaus alla stund,

ásaka ég helst Guðmund.“

Þannig skýrir Guðmundur gátuna:

Tröð er gerði fyrir fé.

Í fjósi tröð ég ætla að sé.

Hesthús tröð hér opið er.

Umferð tröð að húsi ber.

Þá er limra:

Tjörvi í Tröð var sætur,

og töfraði heimasætur,

en engin hans naut.

Þau örlög hann hlaut,

að átu hann soltnar mannætur.

Og síðan ný gáta eftir Guðmund:

Árar hafa að mér sótt,

illa svaf ég þessa nótt,

hrökk loks upp og bænir bað,

beit á jaxl og gátu kvað:

Feikna stór er fóturinn.

Fláráður sá þrjóturinn.

Við smjörgerð fyrrum þarfaþing.

Þetta er skór á stórfætling.

Hér yrkir Helgi R. Einarsson um „Leti“:

Þegar ærnar byrjuðu' að bera

um Bólstaðarhlíðina þvera

fór Alli í frí

aðeins af því

það var allt of mikið að gera.

Kristján Fjallaskáld orti við drykk:

Drekkum, bræður iðu öls,

árnum mæðu bana,

þegar hræða hrannir böls

hjarta næðisvana.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is