Ólafur Ingi Skúlason
Ólafur Ingi Skúlason
Ólafur Ingi Skúlason lék sinn fyrsta A-landsleik í knattspyrnu gegn Mexíkó í San Francisco í Kaliforníu í nóvember árið 2003.

Ólafur Ingi Skúlason lék sinn fyrsta A-landsleik í knattspyrnu gegn Mexíkó í San Francisco í Kaliforníu í nóvember árið 2003. Tæpum fimmtán árum síðar gæti mun reyndari Ólafur Ingi mætt Mexíkó aftur á sama stað en staðfest hefur verið að Ísland og Mexíkó leiki vináttulandsleik í San Francisco 23. mars.

Helgi Kolviðsson, núverandi aðstoðarþjálfari Íslands, lék sinn 30. og síðasta landsleik í umræddum leik í San Francisco árið 2003.

Þetta verður fjórða viðureign þjóðanna en í fyrsta skipti sem Ísland teflir fram sínu sterkasta liði. Í hinum þremur leikjunum, sem allir hafa farið fram í Bandaríkjunum, hafa Mexíkóar ávallt verið með mun fleiri af sínum fastamönnum en Íslendingar.

Liðin gerðu 0:0-jafntefli árið 2003 og sömu úrslit urðu í Charlotte árið 2010 þegar 63 þúsund manns mættu á völlinn. Loks vann Mexíkó 1:0-sigur í Las Vegas í febrúar 2017 og var þá með marga fastamenn gegn óreyndu liði Íslands sem tefldi fram sex nýliðum. vs@mbl.is