Ólafur Sigurþórsson fæddist á Uxahrygg 8. ágúst 1938. Hann lést á heimili sínu 4. janúar 2018.

Foreldrar hans voru Sigurþór Ívarsson frá Sámsstöðum, f. 14. júlí 1899, d. 27. nóvember 1949, og Ágústa Marta Guðmundsdóttir frá Sigluvík, f. 7. ágúst 1915, d. 2. ágúst 1972. Systkini Ólafs eru: Sigurður, f. 1936, Erla, f. 1944, d. 2015, Eggert, f. 1952, og Einar, f. 1956.

Hinn 2. apríl 1966 kvæntist Ólafur Auði Erlu Högnadóttur, f. 8. október 1941, d. 13. mars 2014. Foreldrar hennar voru Högni Kristófersson frá Stóra-Dal, f. 18. júní 1896, d. 1.2. 1969, og Anný Hermansen frá Noregi, f. 12.4. 1918, d. 25. nóvember 1965. Börn Ólafs og Auðar eru: 1) Anný Helena, f. 3.3. 1963, eiginmaður hennar er Kolbeinn Hreinsson, f. 21.12. 1962. Börn: Sigurður Ingi, f. 1981, d. 2013, Sindri Már, f. 1989, Helena, andvana fædd 1991, Kolbeinn Þór, f. 1993, Kristín Birna, f. 2000. 2) Ágúst Þór, f. 1.10. 1964, kona hans er Þórunn Harðardóttir, f. 26.4. 1967, synir hennar Orri Sigurjónsson, f. 1991, og Hörður Smári Sigurjónsson, f. 1994. 3) Anný Soffía, f. 29.11. 1965, eiginmaður hennar er Róbert Lorenc, f. 2.2. 1968. 4) Sigríður Linda, f. 7.8. 1969, eiginmaður hennar er Benedikt Sveinbjörnsson, f. 11.6. 1968. Synir: Sveinbjörn Ólafur, f. 1991, eiginkona hans er Klara Sif Ásmundsdóttir, sonur þeirra er Benedikt Leví, f. 2016, Sigurður Einar, f. 1992, Benedikt Brynjar, f. 2000. 5) Vigdís Heiða, f. 24.6. 1975. Börn hennar: Kristján Ingi, f. 1997, Auður Erla, f. 1998, Díana Rós, f. 2000. 6) Ólafur Erlingur, f. 23.8. 1977, unnusta hans er Hrund Guðmundsdóttir, f. 20.12. 1979. Dætur hans: Sandra Dögg, f. 2003, Ísabella Ósk, f. 2009.

Ólafur var bóndi í Ormskoti frá árinu 1965 til ársins 2000 er þau hjónin fluttu að Króktúni 18 á Hvolsvelli, þar sem þau bjuggu til æviloka.

Útför Ólafs fer fram frá Stóra-Dalskirkju í dag, 20. janúar 2018, klukkan 14.

Vertu Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

(Hallgrímur Pétursson)

Elsku pabbi minn, að sitja hér og skrifa um þig er svo óraunverulegt, höggið var þungt og er mjög erfitt.

Eftir sitja margar yndislegar minningar um góðan vin og yndislegan föður.

T.d. allir bíltúrarnir okkar sem við fórum á hverjum degi, stundum nokkrum sinnum á dag. Þetta var svolítið eins og þegar þú bauðst okkur heima í Ormskoti í sunnudagsbíltúr, stundum enduðum við úti á fjöru eða bara keyrðum um sveitina okkar, sveitina sem þér þótti svo vænt um. Við brölluðum margt og mikið saman, fórum t.d í réttir, lambasýningarnar, þú varst líka svo glöggur á mörkin. Dýravinur varstu líka hinn mesti. Í sumar fórum við í ferðalag til Víkur. Það fannst okkur ofsalega gaman og þú varst svo ánægður eftir þá ferð. Ofsalega fannst mér gaman að fara á seinasta þorrablót með þér. Við höfðum ekki farið á þorrablót í yfir 20 ár. Það var svo gaman. Ég og Róbert erum svo þakklát fyrir allar stundirnar með þér, þær eru ómetanlegar og verða geymdar vel í hjörtum okkar.

Brosið breitt og augun skær,

bið guð þig að geyma,

bestu þakkir, þú varst mér svo kær.

Þér mun ég aldrei gleyma.

(Guðný Sigríður Sigurðardóttir)

Þú varst svo mikill vinur okkar og ávallt tilbúinn að gefa okkur góð ráð. Ég á eftir að sakna alls spjallsins okkar þegar við sátum við eldhúsborðið og spjölluðum um alla heima og geima, um nýja tíma og gamla.

Þú hjálpaðir mér mikið í gegnum tíðina en t.d. seinasta vor ákvað ég að sá blómum, þar hjálpaðir þú mér við það og hafðir gríðarlegan áhuga á því og varst svo stoltur af árangrinum í sumar þegar við settum blómin meðal annars á leiðið hjá mömmu.

Þú varst svo traustur og góður. Ef einhvern vantaði hjálp var alltaf á þig að treysta, alltaf varst þú boðinn og búinn. Mikið sem þér þótti líka vænt um símtölin frá Gústa og beiðst eftir að hann myndi hringja.

Undir háu hamrabelti

höfði drúpir lítil rós.

Þráir lífsins vængja víddir

vorsins yl og sólarljós.

Ég held ég skynji hug þinn allan

hjartasláttinn rósin mín.

Er kristallstærir daggardropar

drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu

lengi vel um þennan stað,

krjúpa niður, kyssa blómið

hversu dýrðlegt fannst mér það.

Finna hjá þér ást og unað

yndislega rósin mín.

Eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei, það er minning þín.

(Guðmundur Halldórsson)

Ég er svo þakklát fyrir tímann sem ég átti með þér og fyrir að hafa átt seinustu jól og áramót með þér, það var yndislegur tími. Það er mér svo kært og ómetanlegt að hafa fengið að annast þig. Hjartans þakkir fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur.

Ég ætla að enda á rullunni okkar.

Góða nótt, dreymi þig vel og takk fyrir alla hjálpina.

Þín dóttir og tengdasonur,

Anný og Róbert.

Elsku pabbi minn og minn besti vinur.

Kallið er komið, eins erfitt og óraunverulegt og það er.

Það var svo gott að alast upp í Ormskoti, fá leiðsögn þína og líka til vinnu. Við brölluðum svo margt saman í gegnum árin. Fórum t.d saman á bæi, þá fannst þér stundum gaman að stríða og ef umræðan var til dæmis pólitík þá gat fólki nú stundum orðið svolítið heitt í hamsi, þá blikkaðir þú augunum og hlóst svo með þeim eins og þú gerðir svo oft.

Þú varst mjög stríðinn og til að mynda þar sem þú varst mjög veðurglöggur fóru sumir nágrannar að slá þegar þú fórst að slá. Eitt skiptið ákvaðstu að taka í súrhey þegar það hafði verið votviðrasamt. Það hraktist hjá bóndanum en súrheyið fór í turninn hjá þér. Bóndinn ætlaði sér að taka í þurrhey og kíkti í kaffi þar sem þetta endaði í hrakningum hjá honum.

Þú varst einstakur dýravinur, t.d. hændust allir hundar að þér og fylgdu þér hvert sem þú fórst.

Það voru mjög þung og erfið spor fyrir þig þegar þið mamma fluttuð frá Ormskoti til Hvolsvallar.

Þú hafðir alltaf haft áhuga á garðinum og gróðri en seinni ár eftir að þú fluttir á Hvolsvöll gastu ræktað garðinn. Þið mamma gerðuð blómagarðinn að algjörum skrúðgarði eins og ykkur einum var lagið.

Það var svo gaman hjá okkur í fyrra þegar við skelltum okkur á þorrablót. Sveitungarnir urðu hissa að sjá þig, þú hafðir ekki farið til fjölda ára en þar sátum við, við gamla borðið okkar. Þú skemmtir þér vel.

Ég er ofsalega þakklátur fyrir að hafa átt seinustu jól með þér. Þau voru svo góð og áttum við yndislegan tíma saman.

Það verður mikil breyting hjá mér því dagurinn hófst í raun ekki fyrr en ég var búinn að heyra í þér í kaffipásunni hjá mér.

Ég á svo margar yndislegar minningar um okkur en vil geyma þær í hjarta mínu.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem fórum við um landið út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Takk pabbi fyrir að vera leiðarljós í mínu lífi.

Þinn sonur

Ágúst Þór.

Ég trúi varla að þú sért farinn frá okkur. Farinn til mömmu og Sigga sem þú saknaðir svo mikið. Ég hefði bara viljað lengri tíma. Ég var ekki tilbúin en hvenær verður maður tilbúinn fyrir eitthvað svona óvænt og erfitt?

Þú varst rólegheitamaður, leiðbeindir áfram og útskýrðir fyrir manni í rólegheitum ef maður gerði eitthvað rangt. Það var innihaldið sem náði til manns. Þér fannst ekki mikið til koma þegar fólk var að monta sig en gladdist yfir velgengni fólks.

Ég á svo margar yndislegar minningar um þig, til dæmis úr sveitinni sem þér þótti svo vænt um, þar urðu hlutir að ævintýri. Bíltúrarnir sem við fórum bæði þegar við bjuggum í sveitinni þegar þú keyrðir um og sagðir okkur hvað staðir hétu og eins þegar við bjuggum á Hvolsvelli. Einn af uppáhaldsstöðum þínum voru Hamragarðar þar sem þú ólst upp frá 11 ára aldri. Við fórum margar ferðir þangað og fannst mér svo gaman að hlusta á sögurnar þínar þaðan. Seinna sagðir þú krökkunum mínum þær. Sátum þar og borðuðum nesti. Eins þegar við fórum í berjamó á haustin, allaf var nestið með í för. Þér fannst gaman að ferðast um sveitina en svo fórum við líka í tjaldferðalög og þau voru svo skemmtileg.

Ég varð svo glöð þegar þið mamma fluttuð á Hvolsvöll, en það var þér mjög erfitt að bregða búi. Ég og krakkarnir nutum margra yndislegra samverustunda með ykkur. Krakkarnir mínir voru mjög heppin að hafa ykkur svona nærri. Mér er t.d. minnisstætt að stundum þegar það var rigning eða einhver vindur og ég var búin að segja krökkunum að labba heim úr skólanum þá fórst þú og sóttir þau því það væri ótækt að láta þau blotna. Það var sko mjög vinsælt að fara yfir til ömmu og afa í dekur. Ég er svo þakklát fyrir allar minningarnar, fyrir alla hjálpina alltaf og fyrir að vera mér svona yndislegur. Ég er þakklát fyrir að hafa átt yndisleg jól með þér og hláturinn sem glumdi við spilamennskuna hjá ykkur, mér heyrðist þið Gústi hafa unnið Anný og Óla. Jólin voru yndisleg en því miður verða ekki fleiri jól eða áramót í Króktúni. Áramótin voru líka yndisleg, allir svo glaðir yfir vel heppnuðu kvöldi. En Guð kallaði á þig rétt eftir áramót. Kærleiksríka ljósið hefur slokknað en við hittumst aftur síðar, elsku pabbi minn.

Ó, elsku pabbi, ég enn þá er

aðeins barn, sem vill fylgja þér.

Þú heldur í höndina mína.

Til starfanna gekkstu með glaðri lund,

þú gleymdir ei skyldunum eina stund,

að annast um ástvini þína.

Þú farinn ert þangað á undan inn.

Á eftir komum við, pabbi minn.

Það huggar á harmastundum.

Þótt hjörtun titri af trega og þrá,

við trúum, að þig við hittum þá

í alsælu á grónum grundum.

(Hugrún)

Þú horfinn ert úr þessum heimi,

söknuður mikill en Guð þig geymi.

Sofðu vært, sofðu rótt,

sorgin sár, er allt varð hljótt.

Kristur Jesús á þig kallar,

kominn ert til hans hallar.

(Vigdís Ólafsdóttir)

Þín er sárt saknað, hjartans þökk fyrir allt, elsku pabbi minn.

Þín dóttir,

Vigdís H. Ólafsdóttir.

Þó sólin nú skíni á grænni grundu,

er hjarta mitt þungt sem blý,

Því burt varst þú kallaður á örskammri stundu.

Í huganum hrannast upp sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða,

svo fallegur, einlægur og hlýr

En örlög þín ráðin – mig setur hljóða,

við hittumst samt aftur á ný

Megi algóður guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó kominn sért yfir í aðra heima

Mun minning þín lifa um ókomin ár

(Höfundur ókunnur)

Nú er hann pabbi minn fallinn frá. Hann var besti og þolinmóðasti maður sem ég hef á ævinni kynnst. Okkur þótti og þykir öllum svo óskaplega vænt um hann og þökkum honum alla þá umhyggju og hlýju sem hann sýndi okkur alla tíð. Við erum óendanlega þakklát Anný sem hugsaði svo vel um hann síðustu árin og Gústa sem hringdi í hann á hverjum degi og var alltaf til taks ef pabbi þurfti á honum að halda. Guð blessi þau fyrir það. Pabbi talaði oft um hvað hann væri þakklátur þeim fyrir alla hjálpina og tryggðina sem þau sýndu honum.

Við sjáumst síðar elsku pabbi. Guð geymi þig.

Helena, Kolbeinn,

Sindri Már, Kolbeinn Þór

og Kristín Birna.

Elsku afi okkar.

Á dánarstund þinni,

fór hjartað mitt í tvennt.

Hjartsláttur á einni hlið.

Hin hliðin dó.

Ég ligg oft andvaka,

þegar heimurinn er í föstum svefni.

Ég lít oft upp til himna,

til að gá hvort ég sjái þig.

Ég sé þig ekki,

fyrir tárunum í augum mér.

Ég hugsa oft um minningarnar

sem leiða út í bros og tár.

Ég mun sjá þig aftur,

þegar minn tími er.

Þú ert geymdur í hjarta mér,

og verður það alltaf.

Þú passar alltaf uppá okkur,

þar til við hittumst aftur.

(Auður)

Við skiljum ekki af hverju lífið er okkur svona ósanngjarnt. Þú varst okkur svo góður og yndislegur, í raun eins og annar faðir. Það var svo gott að koma til þín. Þú hafðir svo mikinn áhuga á því sem við vorum að gera og fylgdist vel með okkur.

Við vildum hvergi vera annarstaðar en hjá þér og ömmu í pössun þegar við vorum lítil. Það var svo gott að vera hjá þér, þú hlustaðir á okkur og leiðbeindir.

Okkur fannst svo gaman í bíltúrunum sem við fórum oft, stundum var farið austur undir Eyjafjöll í sveitina þína. Þar sýndir þú okkur hvar þú og amma áttuð heima þegar þið voru lítil og sagðir sögur úr sveitinni.

Það verður skrítið að vera ekki í Króktúni fleiri jól en við nutum þess að vera hjá þér og áður ömmu líka á jólunum.

Við höfði lútum í sorg og harmi

og hrygg við strjúkum burt tárin af hvarmi.

Nú stórt er skarð í líf okkar sorfið

því fegursta blómið er frá okkur horfið.

Með ástúð og kærleik þú allt að þér vafðir

og ætíð tíma fyrir okkur þú hafðir

þótt móðuna miklu þú farin sért yfir

þá alltaf í huga okkar myndin þín lifir.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Þú hjálpaðir okkur mikið og erum við svo lánsöm að hafa átt þig að og eiga margar yndislegar minningar um besta afa sem til var.

Við elskum þig og söknum þín svo mikið.

Þín barnabörn,

Kristján Ingi, Auður Erla

og Díana Rós.