Flott umgjörð „Þrátt fyrir mjög flotta umgjörð og heilt yfir áhrifaríkan leik höfðaði Medea hjá undirritaðri fremur til hugans en hjartans,“ segir í rýni um harmleikinn Medeu eftir Evripídes í uppfærslu Borgarleikhússins.
Flott umgjörð „Þrátt fyrir mjög flotta umgjörð og heilt yfir áhrifaríkan leik höfðaði Medea hjá undirritaðri fremur til hugans en hjartans,“ segir í rýni um harmleikinn Medeu eftir Evripídes í uppfærslu Borgarleikhússins. — Ljósmynd/Grímur Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Evripídes. Íslensk þýðing og leikgerð: Hrafnhildur Hagalín í samvinnu við Hörpu Arnardóttur. Leikstjórn: Harpa Arnardóttir. Leikmynd og búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Valgeir Sigurðsson.

Eftir Evripídes. Íslensk þýðing og leikgerð: Hrafnhildur Hagalín í samvinnu við Hörpu Arnardóttur. Leikstjórn: Harpa Arnardóttir. Leikmynd og búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Valgeir Sigurðsson. Danshöfundur: Lovísa Ósk Gunnarsdóttir. Hljóð: Garðar Borgþórsson. Leikgervi: Filippía I. Elísdóttir og Margrét Benediktsdóttir. Leikarar: Kristín Þóra Haraldsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Arnar Dan Kristjánsson, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Lydía Katrín Steinarsdóttir og Hilmar Máni Magnússon. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhússins 13. janúar 2018.

Hefnd Medeu á svikulum eiginmanni sínum, Jasoni, sem endar með morðum ungra barna þeirra, hefur um aldaraðir verið fordæmd. Enda getur aldrei verið réttlætanlegt að myrða börn, hvort heldur er vegna særðs stolts, vonbrigða í ástamálum, deilna við fyrrverandi maka eða ótta við að börnin verði notuð gegn manni. Í vel uppbyggðu og vandasömu verki Evripídesar gefur Medea okkur nokkrar ástæður fyrir gjörðum sínum, þeirra á meðal réttlætisþörf og hefnd því hún – sjálf konungsdóttir og afkomandi sólguðsins – þolir ekki þá niðurlægingu sem framkoma Jasonar felur í sér. Á öðrum stað nefnir hún einnig ótta sinn við að gjörðir hennar muni bitna á börnunum og þá sé illskárra að hún taki lífið sem hún fæddi. Fyrst og síðast virðist það þó óskin um að valda Jasoni eins miklum sársauka og hægt er sem ræður för og það skýrir hvers vegna hún neitar honum um að faðma lík barnanna í kveðjuskyni.

Bæði í upphafi verks og í samtölum Medeu og Jasonar er rifjað upp hversu miklu Medea hefur fórnað fyrir ástina og hvernig hún bjargaði lífi Jasonar. Þegar Jason kom til heimalands Medeu, Kolkis, í leit að gullna reyfinu, sem Pelías konungur heimtaði í skiptum fyrir krúnuna sem Jason átti réttmæta heimtingu á, varð Medea svo vitstola af ást á Jasoni að hún lagði honum lið með því skilyrði að hann giftist henni. Í framhaldinu sveik hún föður sinn og myrti bróður sinn með þeim afleiðingum að hún á aldrei afturkvæmt til heimalandsins.

Medea (Kristín Þóra Haraldsdóttir) og Jason (Hjörtur Jóhann Jónsson) leita skjóls með börn sín (Lydía Karín Steinarsdóttir og Hilmar Máni Magnússon) og fóstru (Edda Björg Eyjólfsdóttir) í Kórinþu þar sem Kreon konungur (Jóhann Sigurðarson) ríkir. Þegar verkið hefst hefur Jason ákveðið að kvænast dóttur konungs (Lovísa Ósk Gunnarsdóttir) af praktískum ástæðum – að því er hann segir – en í þöglum leik leynir sér ekki hversu ánægður Jason er með tilvonandi brúði sína. Áhorfendur eiga þess vegna, líkt og Medea, erfitt með að trúa því að engar ástríður liggi að baki ákvörðuninni og að Jason sé aðeins að reyna að tryggja hamingju og örugga afkomu kjarnafjölskyldunnar sem er við það að splundrast.

Kreon óttast réttilega reiði Medeu og dæmir hana því ásamt börnunum í útlegð með tilheyrandi vergangi flóttamannsins. Á óvæntum fundi með Egeifi (Arnar Dan Kristjánsson), konungi Aþenu, tryggir Medea sér landvistarleyfi í ríki hans í skiptum fyrir frjósemisaðstoð. Í krafti þessa örugga skjóls hefst Medea handa við að myrða fyrst konungsdótturina, með eitruðum fatnaði og skarti sem einnig nær að granda Kreoni þegar hann snertir lík dóttur sinnar, og síðan myrðir hún börnin sín. Í útfærslu Borgarleikhússins virðist Medea einnig ná að myrða Jason með eitrinu, sem dregur óneitanlega úr áhrifamætti hefndarinnar því það hlýtur að vera verra hlutskipti að lifa börnin sín og þjást af samviskubiti yfir grimmum örlögum þeirra en að fá lausn í dauðanum.

Íslensk þýðing Hrafnhildar Hagalín á hinum ríflega 2.400 ára gamla harmleik er þjál í munni. Orðfærið kallast auðheyrilega á við samtímann sem myndi þjóna vel í raunsæisnálgun verksins. Stílfærð textameðferð þar sem leikarar tala af yfirveguðum hægagangi skapar hins vegar vissa fjarlægð við efniviðinn. Lokasenan milli Medeu og Jasonar er í öðrum og lágstemmdari stíl, en þar hefði þurft að taka betur utan um orðin til að textinn heyrðist nógu vel.

Harpa Arnardóttir leikstjóri segist í leikskrá hafa valið sýningunni frásagnarmáta ævintýrisins þar sem eðli draumsins ráði ríkjum. Leikmynd og búningar Filippíu I. Elísdóttur undirstrika þessa táknrænu nálgun verksins sem gleður svo sannarlega augað. Kreon og hirð hans klæðast hvítu, sem og Jason sem brátt mun tilheyra konungsfjölskyldunni. Fóstran klæðist fjólubláu líkt og til að sefa áhorfendur. Medea er hatrið og sorgin klædd svörtum klæðum skreyttum rauðum böndum sem minna á ástina og tryggðaböndin sem hafa verið svikin. Heilt yfir þjónuðu búningarnir persónum vel og vísuðu sérstaklega kjólarnir með skemmtilegum hætti í fatastíl Forn-Grikkja. Efnisvalið í kjól Medeu og kjólasíddin þvældist því miður fyrir leikkonunni sem þurfti endurtekið að gæta þess að stíga ekki í faldinn og losa blúndukjólinn sem festist ítrekað við leikmyndina. Rýni reyndist vandasamt að lesa merkingu í allar hárkollurnar sem notaðar voru í sýningunni. Var ætlunin að undirstrika hvernig foreldrar sjá stundum börn sem litlar útgáfur af sjálfum sér eða var markmiðið að undirstrika hárprýði konungsdótturinnar í Kórinþu og þar með mögulega frjósemi hennar?

Áhorfendur sitja beggja vegna sviðsins, sem Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsir framúrskarandi vel. Í öðrum enda leikrýmisins mynda ógrynni ferðataska tröppur og athvarf fyrir Medeu í upphafi verks, en í hinum endanum er hásæti Kreons umkringt fjölda hvítra styttna sem virka í senn þungar og brothættar. Vatnið sem þekur sviðsgólfið stóran hluta sýningar nýttist með áhrifaríkum hætti til þvotta Medeu á barnafötum og siglinga pappírsskipa, en rýnir hafði iðulega áhyggjur af því að leikarar meiddust þegar þeir runnu á hálu gólfinu. Valgeir Sigurðsson skapar magnaðan seið með tónaflóði sínu og hljóðvinna Garðars Borgþórssonar virkaði vel.

Edda Björg Eyjólfsdóttir hafði góða nærveru í hlutverki fóstrunnar sem varar við hinu óhjákvæmilega en getur líkt og áhorfendur aðeins beðið þess sem verða vill. Lýsing hennar á dauðastríði konungsdótturinnar þar sem Lovísa Ósk Gunnardóttir engdist um var tilþrifarík. Sú ákvörðun að gera brúðina sýnilega á sviðinu í stað þess að segja aðeins frá örlögum hennar utansviðs virkaði vel og jók til muna samúðina með henni. Lovísa geislaði í dansinum, hvort heldur var í tilhugalífinu með Jasoni, í kröftugri brúðkaupssenu eða fyrrnefndu dauðastríði. Frammistaða Lydíu Katrínar Steinarsdóttur og Hilmars Mána Magnússonar í hlutverkum barnanna var aðdáunarverð, ekki síst með tilliti til ungs aldurs þeirra.

Arnar Dan Kristjánsson sýndi ótrúlega fimi og jafnvægislist í hlutverki hirðmanns og var trúverðugur sem hinn hrekklausi Egeifur sem finnur til með Medeu óafvitandi um myrk áform hennar. Jóhann Sigurðarson fór létt með að túlka myndugleika valdsmannsins, sem af samkennd leyfir Medeu að vera þann aukasólarhring í Kórinþu sem hún þarf til að fremja voðaverk sín. Textameðferð kórsins var prýðileg og vel virkaði að skipta línum milli einstakra radda í stað þess að láta alla þylja textann í einu.

Hjörtur Jóhann Jónsson hafði góð tök á hlutverki Jasonar þrátt fyrir skamman undirbúning, en hann stökk sem kunnugt er inn í sýninguna með aðeins þriggja vikna fyrirvara. Í fyrsta samtali þeirra Medeu tókst honum vel að miðla algjöru skilningsleysi á reiði og sorg Medeu yfir svikum hans og á öðrum fundi þeirra var hann skemmtilega grunlaus gagnvart leikaraskap Medeu sem snýr honum um fingur sér með lygum sínum og undirferli. Sem fyrr sagði hefði þurft að vinna betur með textameðferðina í lokasamtali Medeu og Jasonar sem varð of lágstemmt.

Kristín Þóra Haraldsdóttir fær það vandasama hlutverk að túlka Medeu. Henni tókst afar vel að miðla reiði hennar, sorg og vonbrigðum. Sú stigmögnun sem verður á örvæntingu hennar eftir því sem tíminn til framkvæmda styttist var góð, en það hjálpaði henni ekki að eiga rólega senu á sviðinu með börnin enn á lífi stuttu eftir að hafa tilkynnt áhorfendum að hún væri að fara utansviðs til þess að drepa þau þá á þeirri stundu. Best tókst henni upp þegar hún var að leika auðmýkt sína gagnvart þeim Kreoni og Jasoni og lék sér að þeim líkt og köttur að mús.

Kynngikraftur Medeu er undirstrikaður með tilkomumiklum hætti í sýningunni þegar vatn byrjar að flæða upp um sviðsgólfið skömmu áður en hún fær skjól hjá Egeifi um miðbik verks. Rísandi vatnið minnir okkur á aðsteðjandi ógnir mannkyns þar sem heimurinn eins og við þekkjum hann mun smám saman sökkva og tortímast vegna aðgerðaleysis okkar í loftslagsmálum. Vatnið skapar einnig sjónrænt sterka tengingu við flóttafólkið sem við heyrum sífellt fréttir af að leggi leið sína yfir opið haf á vanbúnum bátum í leit að friðsamlegri og lífvænlegri strönd. Lokamynd verksins þar sem Medea og Jason ræða saman yfir líkum barna sinna í flæðarmálinu fær áhorfendur sennilega til að velta vöngum yfir því hvort það sé ekki hræsnisfullt að fordæma morð einnar konu á tveimur börnum sínum í hefndarskyni meðan við skeytum engu um þær þúsundir barna sem myrtar eru víðs vegar um heiminn í nafni réttlætis og hefnda.

Í fyrrnefndu viðtali við leikstjórann segist Harpa leggja „áherslu á sjónræna útfærslu og sterka líkamlega nærveru sem virkjar undirmeðvitundina og þá visku sem hún býr yfir“. Vandasamt er að rýna í sýningu með undirmeðvitundina að leiðarljósi, en skoða má þær tilfinningar og hugsanir sem uppfærslan framkallar. Þrátt fyrir mjög flotta umgjörð og heilt yfir áhrifaríkan leik höfðaði Medea hjá undirritaðri fremur til hugans en hjartans.

Silja Björk Huldudóttir

Höf.: Silja Björk Huldudóttir