Ráðhúsið Kynjahlutföll í nefndum og ráðum er sums staðar ójafnt.
Ráðhúsið Kynjahlutföll í nefndum og ráðum er sums staðar ójafnt. — Morgunblaðið/Ófeigur
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is Kynjahlutföll aðal- og varamanna í nefndum, ráðum og stjórnum Reykjavíkurborgar eru í ellefu tilvikum ekki í samræmi við 15.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

Kynjahlutföll aðal- og varamanna í nefndum, ráðum og stjórnum Reykjavíkurborgar eru í ellefu tilvikum ekki í samræmi við 15. grein jafnréttislaga, þar sem segir að hlutfall annars kyns megi ekki vera minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta kemur fram í upplýsingum sem Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur tekið saman um hlutfall kynja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum borgarinnar.

Meðal ráða þar sem meirihluti aðal- og varamanna eru kvenkyns eru borgarráð, fjölmenningarráð, mannréttindaráð auk velferðarráðs, en hlutfall kvenna í ráðunum er um 70-80%. Hlutfall karla í íþrótta- og tómstundaráði, menningar- og ferðamálaráði auk skóla- og frístundaráðs er á svipuðu reki eða um 80%. Þá eru hlutföll kynja í fimm hverfisráðum borgarinnar ekki í samræmi við jafnréttislög.

Í tilkynningu frá Mannréttindaskrifstofu kemur fram að þrátt fyrir ójafna kynjaskiptingu í fyrrgreindum ráðum sé hlutfallið nánast jafnt þegar á heildina er litið. Hlutfall kvenna sem eru borgarfulltrúar og aðalmenn í borgarráði, nefndum og stjórnum hjá borginni er 53% og karla 47%. Þegar hlutfall aðalmanna og varamanna er tekið saman þá er hlutfallið það sama eða konur 53% og karlar 47%.

Í tilkynningunni segir ennfremur að Mannréttindaskrifstofa hvetji til þess að skipan fulltrúa verði lagfærð í þeim tilvikum sem hún brýtur í bága við lög, enda sé mikilvægt að skipan í nefndir, ráð og stjórnir hjá Reykjavíkurborg sé borginni og kjörnum fulltrúum til sóma.